Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, March 29, 2007

Svona hitt og þetta

Það koma stundum svona kvöld þar sem allur vindur er þotinn úr manni. Þreyta á alla kanta og engin orka til að gera neitt sniðugt. Þá verður internetið fyrir valinu og maður byrjar að lesa eitthvað ótrúlega leiðinlegt, eins og um stjórnmál á Íslandi. Geispa enn einni golunni og álpast inn á vefritið deiglan.com. Þar eru allir ungu frelsispostularnir saman komnir að furða sig á íslenskum kjósendum þessa dagana.

“Hvernig stendur á því að kjósendur hneigjast til vinstri á einu mesta hagvaxtar- og velmegunarskeiði íslandssögunnar”? Svona spyr önnur hver deigluspíran. Botna bara ekkert í þessu. Ja, hérna! En að sjálfsögðu eiga þeir svör á reiðum höndum. “Undirritaður telur að aukin áhersla á jöfnuð sé að hluta til fram komin vegna öfundar, svo það sé sagt hreint út”. Svo hálf þjóðin er bara að deyja úr öfundsýki. Jájá. Akkúrat í augnablikinu hef ég ekki hugmyndaflug til að finna upp á jafn barnalegri röksemdafærslu sem þessari.

Ég nenni heldur ekki að tjá mig um efni af þessu tagi lengur. Kominn með nóg af stjórnmálum og þá sérstaklega hægrimennsku. Nenni ekki að lenda í rökræðum sem enda oftar en ekki á því að ég er spurður: En hefur þú það ekki gott? Kosningarnar snúast einfaldlega ekki bara um mig. Það eru þrjúhundruð þúsund aðrar hræður þarna úti.

En að öðru, mun skemmtilegra. Var að uppgötva nýjan hæfileika í fari mínu. Ég hef alveg rosalega gott viðbragð. Uppgötvaði þetta um daginn þar sem ég sat niðri í skóla að vinna í verkefni. Allt í einu rek ég mig í flösku, fulla af vatni. Tek eftir flöskunni vera að detta í “slowmotion” og sé fram á vatnselg flæða yfir fögru teikningarnar mínar. Sé svo flöskuna stoppa á leið sinni, í ca. 45 gráðu halla, og þá bara reisi ég flöskuna við í mestu makindum.

Magnað að sjá flöskuna stoppa. Á þessu eru reyndar til vísindalegar skýringar sem ég nenni ekki að fara út í hér. En svo ég komi nú enn og aftur að vísindum þá var ég að lesa mig til um vísindakirkjuna, hina einu sönnu, á sjálfum vísindavefnum. Þar kemur fram að við manneskjurnar erum hvorki hugur né líkami, heldur þetanar. Þetanar að deyja úr öfundsýki. Við erum samt eiginlega ekki þetanar, það eru einfaldlega andlegar verur sem hafa sest í okkur eftir að geimvaran Xenu sendi þá til jarðarinnar. Bara svo við höfum það á hreint.

Annars var danskur félagi minn að segja mér frá merkustu uppfinningu mannkynssögunnar. Margur myndi nefna tölvu eða internet en nei. Ekki nálagt því. Það er bárujárn. Bárujárnið er nefnilega mjög nytsamlegt í fjölmörgum fátækrahverfum heimsins. Var sömuleiðis gríðarlega mikilvægt á Íslandi á sínum tíma. Bárujárnið, það er lúmskt.

Tuesday, March 20, 2007

Ekki meira ál

Vil benda fólki á að skrifa undir þjóðarsáttmálann. http://framtidarlandid.is/sattmali Kominn tími til að staldra aðeins við og spyrja sig, hvað á Ísland að vera? En nóg um það, held að einhver hafi bloggað um þetta áður.

En ég vil líka nota tækifærið til að hvetja fólk til að sniðganga nýju Esso bensínstöðina við hringbrautina. Annars vegar til að mótmæla stefnuleysi borgaryfirvalda í skipulagsmálum sem og samfélagslegu ábyrgðarleysi olíurisans.

Já. Annars bara hvet ég fólk enn og aftur að srifa undir sáttmálann. Bið fólk vel að lifa.

Tuesday, March 13, 2007

Alheimurinn og ég

Í gegnum aldirnar hefur ávallt verið uppi einhvers konar grundvallarmisskilningur um eðli heimsins og tilvist mannsins í alheiminum. Oftar en ekki er hent gaman af þessum misskilningi og er flata pönnukökuheimsmyndin gott dæmi um það. Þegar vísindasagan er nánar skoðuð þá voru þeir sem vissu betur oftar en ekki stimplaðir sérvitringar og hent jafnvel gaman af þeim. Sagan endar hinsvegar ekki í dag svo það er næsta víst að við núlífandi grey göngum með einhvern allsherjar misskilning í maganum. En hvað skyldi það nú vera?

Margir mundu benda á tilvist Guðs og að trúarbrögð almennt væru alveg að mis. Við lifum á gervihnattaröld þar sem vísindaleg rökhyggja er prófsteinn alls. Því er hægara sagt en gert að sanna tilvist æðri máttarvalda. Sannanir eru þó ekki allt, við mannfólkið erum líka tilfinningaverur. Ég get ekki sannað trú mína á Guð en get miðlað af persónulegri reynslu, t.d. frá barnæsku sem og trúarupplifun á Indlandi. Vísindaleg nálgun á allt mögulegt er eflaust einn grundvallarmisskilningur á okkar tímum? Annars bendi ég fólki á að lesa áhugaverða grein á vísindavefnum í þessum efnum: “Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?”

Svo eru alltaf einhverjar vangaveltur um hvar við stöndum í alheiminum. Eru geimverur til? Er til líf á öðrum hnöttum? Algengar spurningar sem erfitt virðist að fá svar við. Í þessum efnum erum við sífellt að bíða eftir tækniframförum til þess að okkar efniskenndu líkamar geti drifið sig á lappir og kannað málið. En erum við hugsanlega að gleyma einhverjum vísindum í þessu samhengi, t.d. draumvísindum? Var að lesa um n.k. draumlíkama og skírdreymi hér á vísindavefnum. Þegar maður veit að manni dreymir þá getur maður stjórnað líkama sínum, hreyft sig í draumi þó maður viti að maður liggji sofandi. Flippaða vísindatillaga mín gengur sem sagt út á að ferðast til annarra plánetna í draumi. Já.

Samt. Af hverju köfum við ekki dýpra í rannsóknir á 6. skilningarvitinu? Af hverju ættu draugar ekki að vera til? Af hverju skilgreinum við heiminn einungis frá því sem við örugglega vitum? Af hverju höllum við okkur svo fast upp að þekktum stærðum, lögmálum og sönnunum á sama tíma og við finnum eitthvað á okkur án þess að vita af hverju?

Sunday, March 11, 2007

Stigagangurinn

Í umræðum, t.d. um stjórnmál rétt fyrir kosningar, gleymist oft að skyggnast inn í samfélagið í nærmynd. Súlurit fá aukið gildi sem og ómálefnaleg gagnrýni og útúrsnúningar á kostnað nýrra hugmynda (á sérstaklega við um sitjandi ríkisstjórn). Það er þó ekki ætlunin að gleyma sér í stjórnmálum. Lítum nánar á tröppuganginn minn hér á Rødkløvervej 8.

Í morgun hringdi dyrabjallan. Þetta var kona á sextugsaldri, gráhærð, stuttklippt, með gleraugu, íbúi á efstu hæð. Hún vildi minna okkur á að þrífa tröppurnar sem tilheyra okkar hæð sem og að fara út með öll fríblöðin sem safnast þar fyrir. Áður en lengra er haldið er betra að setja lesendur inn í aðstæður. Það eru einungis þrjár hæðir. Við erum á þeirri fyrstu og eru tröppur til okkar frá aðalinngangi. Frá aðalinngangi eru einnig tröppur niður í kjallara þar sem eru geymslur og þvottaaðstaða.

Við höfðum þannig séð ekkert á móti því að þvo tröppurnar en aftur á móti fannst okkur að það þyrfti að leysa fríblaðavandann öðruvísi. Inngangurinn er sameiginlegt vandamál sem allir ættu að taka þátt í. Ennfremur ætti frekar að leyta rót vandans, koma í veg fyrir að fríblöðin komi á annað borð. Þessi fríblaðabylgja, þökk sé íslenska Baugi, hefur skapað mun meiri pirring en gleði meðal Dana. Pirringurinn er skiljanlegur, þessi blöð eru illa skrifuð og það skín í gegn að þau eru fyrst og fremst auglýsingabæklingar.

Nóg um það, ég tók mig til og fór að þrífa tröppurnar. Á meðan á þrifum stóð rann það upp fyrir mér að ég hafði aldrei (þessi þrjú ár sem ég hef búið þarna) farið ofar en upp á mína eigin hæð. Uppgötvaði líka að hæðin fyrir ofan er ekkert alltaf að skúra. Ég er að skúra fyrir alla en enginn skúrar fyrir mig. Þarna fannst mér viss pottur brotinn í stjórnkerfi stigagangsins.

Það sem er eflaust verra er hversu lítil tengsl eru milli fólks í einum stigagangi. Þarna vil ég kenna um skorti á arkitektónískum úrlausnum. Stigagangar vilja oft gleymast þegar talað er um mikilvægi þess að þétta byggð. Þetta er einmitt sameiginlega rýmið í byggingunni sem hefur tök á að binda fólk saman og skapa tengsl. Ef gangarnir eru óaðlaðandi, eins og í okkar tilfelli, þá hefur fólk ekki sama áhuga á að staldra við og ræða um daginn og veginn eða að skapa notelegt umhverfi fyrir framan dyrnar hjá sér. Ferðin, frá einni íbúð til annarrar, er þar af leiðandi jafn löng og vegalengd milli bæja, ef farið er á hesti.

Í mörgum stigagöngum eru málin rædd í svokölluðu húsfélagi. Það er reyndar ekki húsfélag hjá okkur en í staðinn hefur konan á efstu hæðinni skipað sjálfa sig sem eftirlitsmanneskju okkar óskilgreinda samfélags. Ég er síður en svo hrifinn af húsfélögum og tel ekki að það sé lausnin í okkar tilfelli. Aftur á móti hefði verið mögulegt að koma í veg fyrir ýmsar nágrannaerjur ef sameignin er notaleg og hvetjandi. Það hefði eflaust kostað pínulítið meira þegar húsið var hannað en hefði skilað sér strax í virkara samfélagi þar sem miðstýring væri óþörf. Allt spurning um að gefa sér tíma til að hugsa áður en að framkvæmd kemur til. Skoða samfélagið í nærmynd, þó það taki lengri tíma en að skoða súlurit.