Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, January 30, 2005

Matur

Fór um daginn út í kjörbúðina góðu. Alltaf stemning að koma inn í pakkfullabúð af framandi vörum og hitta kurteisa Íraka sem tala bjagaðri dönsku en ég. Og alltaf uppgötvar maður eitthvað nýtt. Um daginn tók ég eftir að þeir voru að selja einhvers konar fuglakjöt. Á pakkningunum stóð: “Ensk skógardúfa”. Var alveg eins og kjúklingur í laginu sem var búið að minnka fjórfalt og aðeins gráleitari á litinn. Svona kjúklingur litla mannsins.

En hefur einhver smakkað enska skógardúfu? Ætli hinn rammenski, hipp&kúl, kokkur án klæða, Jamie Oliver sé að sé að töfra fram enska skógardúfu? Með hverju ætli þetta sé borið fram? Englendingar sulla örugglega bara fullt af Vinager á þetta. Það finnst þeim gott.

Já það er margt sem maður á ólært í matarmenningunni. Ensk skógardúfa er eflaust matur sem borðaður hafur verið í aldanna rás. Kannski borða Englendingar þetta með bestu list einu sinni á ári, eins og við Íslendingar borðum þorramat? Veit ekki? En væri þó gaman að prófa og endurvekja e.t.v. gamlar enskar matarvenjur. Hljómar athyglisvert.

Monday, January 24, 2005

Lífsregla

Aldrei að borða "fish&chips" og drekka bjór klukkutíma áður en farið er að lyfta.

Thursday, January 20, 2005

Hvað er janúar fyrir nokkuð?

Janúar, er ekki alveg mánuðurinn þar sem allt er að verða vitlaust. Í rauninni ótrúlegt að fólk skuli fagna nýju ári þegar fyrsti mánuðurinn er jafn daufur og leiðinlegur og raun ber vitni. Kannski ekki satt að hann sé alveg leiðinlegur þar sem lífið er frekar skemmtilegt fyrirbæri, en allavega... Ég veit það ekki?

Hjá mörgum er þessi mánuður þó öllu tíðindameiri. Þá er ég að tala um fólkið í Arkitektaskólanum sem er að kynna lokaverkefnin sín og þar með að ljúka skólagöngu sinni. Magnað. Kíkti á lokaverkefni í dag hjá noskri stelpu sem ég þekki. Ingunn heitir hún og er vinkona Edith. Hún var að hanna sæti í svefnrútur. Hljómar ekki ýkja spennandi, en verkefnið var engu að síður ótrulega áhugavert og flott.

Að sofa í svefnrútu, er nefnilega alveg steikt. Það fékk ég að reyna í námferðinni í haust. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru sætin lögð upp eða niður. Í kjölfarið myndast nokkurs konar kojustemning, ef stemningu skildi kalla. Hæðin frá neðri koju upp í efri er ca. hálfur meter. Í stuttu máli sofa allir ofaní öllum við óþægilegar aðstæður. Sérstaklega óþægilegt að vera fyrir innan í neðri kojunni. Sem betur fer þurfti ég ekki að fara á klósettið, því þá hefði ég þurft að klifra vandræðalega yfir gaurinn sem var við hliðina á mér. Maður er alveg fastur, getur tæplega snúið sér eða rétt úr löppunum. Og það er eins gott að maður sofni! Að vera andvaka í svona aðstæðum er örugglega næstum jafnpirrandi og að vera kviksettur.

Hinsvegar hefur þetta ýmsa kosti í för með sér. T.d. er betra að sofa láréttur en í einhverjum keng, eins og maður vanalega upplifir í rútu. Vélarhljóðið í rútunni er líka ótrúlega þægilegt og svæfandi. Væri örugglega ekki vitlaust að taka hljóðið upp á snældu og selja til fólks sem getur ekki sofnað.

Verkefnið hennar Ingunnar gekk út á að búa til system sem var á allan hátt þægilegra og líka öruggara ef slys ætti sér stað. Ætla ekki að tíunda hvernig hún leysti verkefnið en ég get lofað að það er mikil þróun í gangi í sofirútusætabransanum. Ingunn er nefnilega í viðræðum við fyrirtæki sem vill framleiða þessi nýju sæti. Svo þegar fólk er að ferðast um og leggja sig í svefnrútum framtíðarinnar, þá getur það hugsað til Ingunnar.

Allavega, þá var ég djúpt “innponeradur” yfir svona flottu verkefni. Mikil hvatning að vera í skóla með jafn hæfileikaríku fólki. Ótrúlega gaman. Þetta ágæta lokaverkefni sýndi og sannaði að það er ýmislegt sniðugt í gangi í mánuðinum janúar.

Sunday, January 16, 2005

Vindkviðan – vísindi eða vísbending?

Sumir halda að Guð sé ekki til. Aðrir spyrja: “Hvað er Guð?” Margir trúa á Guð en spyrja einskiss. Ég trúi á Guð og hef margar spurningar. Ætla samt ekki að þreyta fólk með spurningum núna. En ætla að þreyta fólk með öðru. Atviki sem tengist Guði (eða það er ég viss um!).

Það var þegar ég var 10 ára og bjó í Hruna. Júlía, frænka, var í heimsókn. Það var sól og hiti og meira að segja logn. Hafði ekki yfir neinu að kvarta. Við Júlía vorum á gangi í átt að kirkjugarðinum. Þegar við vorum rétt fyrir utan hliðið að garðinum spurði ég, með hrokkafullum efasemdartón: “Trúirðu virkilega á Guð?”

Ég hafði vart sleppt orðinu, þegar það kom óþægilegur og mjög sterkur vindur sem feykti mér næstum um koll. Sjáanlegur vindur, vindstrókur, eins og líkan að fellibyl í mælikvarðanum 1:200. Og undarlegt hvað við gátum horft á hann færa sig yfir landið. Það var ætlunin að við myndum ekki gleyma honum.

Við vorum bæði gríðarlega hissa. En líka sammála um að þetta hefði eitthvað að gera með þessa óviðeigandi spurningu mína á þessum helga stað. Var Guð að sanna tilvist sína og mátt? Það vorum við samfærð um. Var með samviskubit lengi eftir á. Guð var að gefa mér spark, því ég var orðinn hrokafullt og óþakklátt barn.

Nú kynni einhver að segja að þetta hefði sínar vísindalegu skýringar. Í miklum hita eiga það til að koma vindkviður og oft er orðið hvasst um síðla dags. Sumir myndu kalla þetta barnatrú. Ég er enn sannfærður um að þetta hafi verið vísbending. Þetta varð til þess að ég hugsaði minn gang og þá hefur atvikið öðlast tilgang.

Við eigum að vera opin fyrir vísbendingum en ekki alltaf að reyna að útskýra hlutina. Samt líka hættulegt að túlka allar tilviljanir. Við vitum sjálf þegar atvik er vísbending og þá eigum við bara að hugsa okkur um. Guð stjórnar okkur ekki. Hann gefur vísbendingar sem við vinnum úr.

Hvaða bylting?

Svo skemmtilega vildi til að ég fékk athugasemdir við síðustu færslu, meira að segja þrjár. Þar er ég studdur í byltingunni! Ég - bylting? Ónei. Langaði bara að koma með tillögur að skemmtilegri og nýstárlegri áramótum. Byltingar eiga það til að skapa vesen. Og ég nenni ekki veseni. En ég hef mikla trú á skemmtilegum og óraunsæum tillögum.

Og bloggið.
Já eins og alþjóð hefur tekið eftir er ég byrjaður að blogga eftir smá hlé. Hinsvegar vona ég að fólk líti framhjá stafsetningar og málfarsvillum. Kann nefnilega ekki að leiðrétta þetta, þó fólk hafi reynt að kenna mér. En kannski bara kúl að hafa smá vitleysu í þessu. Heldur ekki eins og þetta sé eitthvað útpæld og hönnuð heimasíða. Eina sem maður gerir er að velja sér "layout", og ég held að þetta sem ég valdi hafi verið það skássta. Vonandi hanna ég mína eigin heimasíðu fljótlega, en þangað til verður þetta að duga.

Thursday, January 06, 2005

Áramótaávarp

Ég er ekki búinn að lesa eitt einasta áramótaávarp. Þau eru eitthvað svo mörg, og löng. Ég veit bara að forsetinn vill búa til menntaverðlaun, forsætisráðherrann er í hugleiðingum um gildi fjölskyldulífs en ég man reyndar ekki hvað biskupinn var að tala um (hálf vandræðalegt það) en það var eitthvað sem var umdeilt. En í ofanálag hef ég engann áhuga á að lesa þessi ávörp. Þau eru bara ávarpanna vegna. Ennfremur er tekið viðtal við foringja alla stjórnmálaflokkanna um líðandi ár. Þar tína/týna (afsakið ástkæra móðurmál!) þeir saman það sem gerðist á árinu, en eru í raun bara að endurtaka. En það vita allir hvað gerðist á árinu! Við mannfólkið erum ekki með gullfiskaminni. Hvernig er ekki hægt að vita hvað hefur gerst? Allar fréttir og umræður eru síendurteknar í öllum fréttatímum og fólk ræðir líka um hitamálin þegar allt er á suðupunkti.
Íslendingum leiðist nefnilega ekki dramatískar umræður.
Annað hvimleitt um áramót eru allir þessir spádómar. Bara allar fá allt í einu spádómsgáfur. Eða þannig. Flest er þetta nefnilega allt frekar augljóst. Ef einhver myndi t.d. spá fyrir mér þá væri það á þessa leið: “Þú munt klára stóran áfanga á árinu. Svo muntu kynnast einhverri stelpu sem höfðar til þín, en þú ert þó ekki viss! Svo mun þér ganga illa i viðskiptum.” Þetta er hægt að túlka á milljón vegu, svo spádómurinn rætist. Það er líka jafnauðvelt að spá: “Þú munt tannbursta þig á árinu!”
Nú myndi einhver nú mig annaðhvort “kverólant” eða nöldrara. Til að forðast slíkan misskilning ætla ég að koma með nýstárlega lausn á þessum áramótapirringi. Í stað þess að horfa eitt ár, fram og til baka, legg ég til að við rýnum í önnur ártöl. Einhver háttsettur, t.d. forseti vor, gæti þá dregið ártal úr hatti. Eitt úr framtíðinni, annað í fortíðinni. Um áramót myndu þá einstaklingar og fjölmiðlar rifja upp eitthvað allt annað ár en það liðna, koma þannig í veg fyrir mögulegan pirring sem hlotist hafi á árinu og dreifa þar með huganum. Hvað gerðist t.d. árið 1987? Innlendur og erlendur fréttaannáll árið 1987! Hvað talaði fólk um? Þetta væri ennfremur tilvalinn vettvangur fyrir sögukennslu, að lifa sig inn í eitthvað allt annað ár.
Hvað varðaði framtíðina væri miklu skynsamlegra að setja sér markmið fyrir eitthvað “random” ár. Fólk er hvort sem er búið að gleyma hvaða áramótaheit voru fyrir einu ári og sumir jafnvel reyna að gleyma glötuðum áramótaheitum ef illa hefur tekist til (t.d. með megrun og þess háttar.. hehe). Hvað ætla ég mér í lífinu árið 2017? Einhverjir eiga s.s. eftir að misnota þetta: “Árið 2017 verð ég orðinn grannur!” Þess vegna mætti fólk ekki taka þessum markmiðum of alvarlega. Árið 2017 stefni ég t.d. á að kaupa mér lítið vélmenni sem sér um að tannbursta mig!
Hvað varðar framtíðarspádóma þá fær maður aldrei nóg af þeim. Árið 2017 mun fólk ferðast um á svifnökkvum í stað bíla. Enginn reykir lengur. Það verður “trend” að búa í torfhúsum og eiga sína eigin kú fyrir mjólkina í kaffið.
Nú finnst eflaust einhverjum ég vera orðinn of róttækur. Margt fólk vill halda i hefðirnar, rifja upp liðið ár og spá í því næsta. Fyrir það fólk vil ég halda fast í Áramótaskaupið sem gefur oft góða yfirsýn og er stundum líka fyndið. Fyrir þá sem vilja heyra spádóma þá verður ráðinn einn allsherjar spámaður. “Spámaður Íslands” eða “Spámaður ríkisins”. Svona embætti hjá ríkinu, eins og ríkissáttasemjari. Verndað starfsheiti og virt, og fyrir vikið munum við koma í veg fyrir alls kynns falls spámenn og illa ígrunndaða spádóma. Í starfinu verður þá manneskja sem virkilega hefur spámannshæfileika.

Ég er eflaust að ætlast til mikils að þjóðinni að breyta svona til. Vandmálið er bara að núverandi venjur eru einfaldlega orðnar þreyttar og leiðinlegar. Þó er ég hrifinn af gömlum hallærislegum venjum, eins og í Menntaskólanum, en einhvers staðar verður að draga mörkin. Áramót eru nefnilega svo ótrúlega oft. Meðaleinstaklingur mun upplifa áramót svona 80 – 90 sinnum á ævinni. Og af hverju ætti atburður, sem er í eðli sínu ekkert merkilegur, alltaf að vera eins?