Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, June 11, 2009

Enn ein Icesave blogfærslan

Ég er orðinn þreyttur á talinu um Icesave. Þetta er alveg hundleiðinlegt tal. Svo skil ég ekki alveg mótmælin sem snúa að þessum reikningum. Af hverju er t.d. ekki mótmælt fyrir utan breska sendiráðið frekar en alþingi? Við vitum öll að það eru bresk stjórnvöld sem eru að kúga okkur.

Svo er ég líka orðinn þreyttur á málflutningi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem þykist vita allt. Veit hvernig á að semja og veit manna mest um efnahagsmál. Ég held að hann viti ekkert um hvað hann er að tala og get rökstutt það með gamalli blogfærslu minni. Hann telur sig nefnilega líka vera skipulagsgúru ríkissins. Við sem erum menntuð í arkitektúr og skipulagi vitum það eitt, að meira að segja við vitum ekki allt í þessum efnum. Þetta eru einfaldlega flókin fræði. Við vitum það þó eitt, að hann veit ekki neitt.

Nóg um hann og aftur að leiðinlegu Icesave tali. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að borga þetta. Þetta er okkar erfðasynd-stóridómur sem ekki er hægt að flýja. Held að það séu einhver ytri alheimsöfl sem séu nefnilega að sekta íslenskt samfélag fyrir firringu þess og eigingirni. Flestum fannst jú útrásarbylgjan vera flott og gagnrýndu hana ekki. Fólk gerði það sem því sýndist og fannst það sjálfsagt. Einstaklinsfrelsi hét það. Stofnun Icesave-reikninganna ráku svo endanlega smiðshöggið í „ég geri það sem mér sýnist“- hugsunarháttinn.

Reyndar er svo hægt að tala um okkur hin sem gagnrýndu allt. En við gerðum einfaldlega ekki nóg. Gagnrýni af minni hálfu náði t.d. aldrei lengra en í tal og einstakar blogfærslur. Alheimsöflin eru líka að sekta okkur.

Það er þó óréttlát að við skulum þurfa að borga. Bretar gerðu líka misstök og ættu að vera í þessu með okkur. Óréttlætið er þó afstætt. Miðað við allt óréttlæti heimsins eru þessar Icesave skuldbindingar ekki það versta. Það er t.d. mjög óréttlát hvernig komið er fyrir 3. heiminum – þökk sé okkur vesturlandabúum. „Ég geri það sem mér sýnist“- hugsunarhátturinn pældi t.d. mjög lítið í þessu óréttlæti.

Já, við borgum. Reynum svo að læra af þessu. Legg til að þegar við byrjum að borga þá fái hver og einn borgari landsins Icesave-gíróseðil í hverjum mánuði. Seðilinn verður ekki hægt að greiða í netbanka heldur verður að fara út í alvöru-banka (hvað sem það nú er) og greiða hann þar. Á leiðinni í bankann (og vonandi hjóla allir eftir sjö ár) getur fólk hugsað sinn gang og spurt sig siðferðislegra spurninga: „Er ég að verða soldið eins og 2007?“ Það er mikilvægt að við gleymum aldrei Icesave og hugsunarhættinum sem lá að baki. Það er kominn tími til að við lærum af sögunni.

Eitt er þó víst. Enginn mun gleyma þessu ævintýralega ljóta Icesave-lógói.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Góður - sérstaklega þetta "við vitum það eii að hann veit ekki neitt" um ákv. stjórnmálamann sem telur sig vita allt...
gamli

June 25, 2009 at 12:06:00 PM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home