Krepputal – bara í þetta eina skipti
Talað er um að ýmislegt jákvætt geti komið úr kreppunni og tek ég heils hugar undir þau sjónarmið. Aftur á móti er mikilvægt að átta sig á ýmsum misskilningi áður en haldið er lengra.
Misskilningur númer er 1 er sú orðræða að við séum öll samsek. Í því samhengi er líka talað um að ekki eigi að leita að sökudölgum. Þetta er auðvitað ekki rétt. Það liggur ljóst fyrir hverjir eru sekir og samsekir svo það er alveg óþarfi að hver einasti Íslendingur eyði tíma sínum í að barma sér í hljóði.
Svo er það hræðslan við að missa okkar besta fólk úr landi, með tilheyrandi hugviti og þekkingu. Margir óttast nefnilega að allt bankahugvitið sem til varð í góðærinu fari burt. Erlendur bankastjóri sem sér íslenskt þjóðerni á atvinnuumsókn mun þó eflaust hugsa sig tvisvar um. Alveg er það samt magnað að lærdómurinn sem dreginn er af atburðum síðustu daga sé sá að helsta hugvitið felist í banka- og fjármálastarfsemi.
Mannauður getur nefnilega falist í mörgu öðru, t.d. fólki sem fer í háskóla til að átta sig á heiminum í gegnum fög eins og mannfræði, listasögu, félagsfræði og bókmenntir, svo ég tali nú ekki um vísindagreinarnar. Það er mun mikilvægara að þekking sem tengist menningu og náttúru verði áfram til staðar. Sú þekking mun seint glatast þar sem Ísland er bara gríðarlega áhugavert land.
Mannauður getur líka falist í almennri rökhyggju og dómgreind, samfélagsvitund og siðgæði. Trú á mannauð, einungis í formi bankagreindar og arðsemisvitundar ber vott um andlegt gjaldþrot.
Að lokum er svo misskilningurinn um að fara þurfi í einhvers konar ímyndarherferð til að bæta orðspor landsins út á við. Enginn veit þó hvað á að gera í nýju endurbættu Íslandi. Þetta væri svipað því að arkitekt teiknaði allar framhliðar byggingar, með gluggum og tilheyrandi, án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um starfsemina.
Ísland þarf hægt og rólega að finna út hvað það vill og hvernig það vill vera. Ímyndarherferð breytir ekki orðsporinu í einum hvelli. Þjóðin gerir það sjálf. Til dæmis með því að mæta á Austurvöll og mótmæla andleysi stjórnvalda sem leyfa vanhæfum seðlabankastjóra að sitja áfram. Sökudólgana verður að draga til ábyrgðar því ef það er ekki gert mun umheimurinn sjá mynd af þjóð sem lætur einstaka aðila vaða yfir sig á skítugum skónum. Sjáum til þess að svo verði ekki.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home