Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Friday, February 22, 2008

Lokaverkefnið: Íslenskt fjölskyldusetur

Hef lengi æltað að blogga um lokaverkefnið en hef verið upptekinn við annað. Á þennan link hér er hægð að sjá brot úr verkefninu á heimasíðu arkitektaskólans. Til að sjá myndirnar stærri er hægt að klikka á þær. Textinn útskýrir verkefnið í megindráttum og mun ég þess vegna ekki útskýra verkefnið sjálft í þessari færslu. Mun frekar koma inn á forsendur verkefnisins, ferli þess og almennar vangaveltur.

Verkefnið heitir: “Et islandsk familiested – mødet mellem det menneskeskabte og naturen”

Í verkefninu vann ég með landskika sem ég og einn frændi minn munum erfa af ömmu okkar. Landið er í Ölfusi, sunnan við Ingólfsfjall og þjóðveg nr. 1. Á landinu var eitt sinn lítill kofi en annars var þetta auður melur. Með tímanum var svo veittur lækur inn á landið og trjám var plantað til að skerma á móti sterkum norðanvindi.

Á svæðinu í kring eru nokkrir litlir sumarbústaðir. Flestir þeirra líta þó frekar fátæklega út þar sem lítið er gert til að halda þeim við og nútímavæða þá. Þeir hafa færstir hverjir rafmagn eða heitt vatn og eru blessunarlega lausir við heita, ameríska nuddpotta. Sömuleiðis er lítið gert til að halda gróðri í skefjum. Þessi vanræksla á gróðri og húsum gefur svæðinu þó dulúðarfulla stemningu. Svæðið er á vissan hátt eins og hús gamallar konu sem öll börnin í hverfinu eru hrædd við (eins og í myndinni “Stand by me” að mig minnir).

Hafði gengið með þetta verkefnaval lengi í maganum, allt síðan ég var að ferðast á Indlandi fyrir tveimur árum. Það sem gerði verkefnavalið spennandi var að hafa þennan landskika þar sem ég gæti í fljótu bragði gert hvað sem er, þar sem ég var eigandi landsins. Með verkefninu gat ég virkilega spurt sjálfan mig hvað ég eiginlega vildi með arkitektúr?

Fljótlega var þó eitt af markmiðum verkefnisins að stúdera íslenska arkitektasögu, frá landnámi til dagsins í dag, til að átta sig á hvað væri einkennandi fyrir íslenska byggingararfleið. Ennfremur var það veigamikill þáttur að átta sig á íslenskri sumarbústaðarmenningu, þar sem landskikin var skilgreindur sem sumarbústaðarland.

Verkefnið gékk svo í stuttu máli út á að þróa stað fyrir íslenska fjölskyldu yfir langan tíma. Lesið nánar á heimasíðunni hér.

Eitt af því sem heillaði mig hvað mest við tilhugsunina um fjölskyldustað var hvernig mismunandi kynslóðir gátu séð sama staðinn á mismunandi hátt. Sterk upplifun frá ættarmóti einu, þar sem gömul kona sagði frá heimkynnum sínum. Á meðan hún mundi hvernig allt var áður fyrr þá urðum við, yngri kynslóðin, að ímynda okkur fortíðina út frá frásögn hennar og hvernig við sáum staðinn með okkar eigin augum í dag. Frásagnir gömlu konunnar af einhvers konar gjörningi, eins og að hlaða upp steinum sem enn standa í dag, gaf staðnum gildi fyrir hvern og einn.

Verkefnið sýndi fram á nokkurs konar nýja hugmynd að sumarbústaðarlandi. Allt landið er tekið með inn í myndina á löngu tímabili, í stað þess að planta byggingu, með nuddpotti og gasgrilli, einhvern veginn í landslagið, eins og algengt er í dag. Það er gjarnan talað um að vernda eigi lítil hús á Laugavegi, á sama tíma og íslenskt landslag á undir högg að sækja gagnvart fyrirferðarmiklum og þéttum sumarbústaðarhverfum.

Vona að lesendur hafi áttað sig á verkefninu. Ef ekki, þá endilega að varpa fram spurningum.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home