Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Friday, December 23, 2005

Hvað eru jólin?

Það skýtur ef til vill sköku við að rétt fyrir jól kristinna manna sé ég að lesa um Hindúasið, í stað þess að rifja upp kennisetningar kristinar trúar. Ekki það að ég búist við að þjóðin sé bara í andlegri, kristilegri íhugun þessa dagana. Síður en svo. Þó ég ætli ekki að úthúða markaðsvæddum jólum og neyslusjúkri þjóð finnst mér þó mikilvægt að fólk pæli eitthvað... í einhverju. Það þarf ekki að vera lestur jólaguðspjallanna eða upprifjun á fæðingu frelsarans. Ein nálgun gæti verið í gegnum önnur trúabrögð.

En snúum okkur að Hindúasið. Trúarbrögðin eru mjög opin fyrir að fólk túlki þau eftir sínu höfði. Hinn æðsti veruleiki getur þar verið ópersónulegur kjarni/andi eða persónulegur guð. Einnig er athyglisvert hvernig trúin skiptir mönnum í fjórar manngerðir: íhugula menn, tilfinningamenn, athafnamenn og tilraunamenn. Hver hópur getur nálgast guð á sinn hátt í gegnum mismunandi gerðir af joga. Þessi nálgun er mjög áhugaverð og ekki skrítið að leikfimin hafi átt innreið inn í vestrænan heim.

Hindúasiður telur frumþarfir venjulegs manns vera unað og veraldlegt gengi – auðæfi, frægð og völd. Í stað þess að hafna þessum þörfum leggur trúin áherslu á að leita þessara markmiða á heiðarlegan hátt og í hófi og með sanngjörnu tilliti til annarra. Maðurinn mun þó vaxa frá þessum þörfum, líkt og börn fá leið á leikföngum, verða eirðarlaus og óánægður. Hann mun finna ánægjuna í þjónustu við samfélagið og meðborgara. Síðar meir mun hann svo reyna að upplifa “nirvana” sem er æðra öllu.

Allar bílferðirnar í Smáralindina og kapphlaup um að keyra þangað á sem flottastum bíl er því vel skiljanleg skv. Hindúasið. Efnishyggjan er þó ekki komin til að vera, fólk mun verða meðvitað um aðra í kringum sig. Er þetta auðæfakapphlaup í Íslendingum því tímabundið ferli sem mun lognast niður fyrr en varir? Ég leyfi mér að vona það.

Á sinn hátt er heldur ekkert óeðlilegt að vilja baða sig í frægð. Þeir sem eru hvað duglegastir á því sviði eru þó fjölmiðlafólk. Það er engan veginn heilbrigt að á flettiskyltum borgarinnar sé fólkið sem eigi að segja okkur fréttir (á það við um fréttafólk NFS). Þetta fólk hefur valdið og þekkinguna til að horfa gagnrýnum augum á samfélagið og spyrja áleitina spurninga, núna rétt fyrir jólin. Ég leyfi mér samt að trúa að þessi sjálfsánægja fjölmiðla sé einungis tímabundin, eins og á við um auðæfakapphlaupið.

Ef ég væri geimvera sem lenti á Íslandi í dag, þá væri það síðasta sem mér dytti í hug að dagurinn á morgun hefði eitthvað með trú að gera. Þó vil ég ekki einungis kenna markaðsvæðingu og neysluhyggju þar um. Kristin trú skortir nefnilega sterka aðferðafræði í nálgun, líkt og joga er góð nálgun fyrir trú Hindúa. Trúin virðist heldur ekki eiga upp á pallborðið hjá fjölmiðlum. Þar eru auglýsingar helsti boðskapurinn.

Á morgun höfum við þó tækifæri til að komast yfir á æðra stig, hugsa um fólk í kringum okkur og finna hamingju sem hafin er yfir allt. Ég er sannfærður um að svo muni verða. Íhuganir aðfangadags mættu þó vera oftar. Engu að síður vona ég að fólk njóti morgundagsins. Gleðileg jól.

Wednesday, December 14, 2005

Svefnleysi

Á gjarnan frekar erfitt með að sofna. Hreinlega kvíði tilhugsuninni um að fara að sofa. Það sem verra er, þá þarf ég alveg að eyða 8 tímum í þetta. Og maður skal gjöra svo vel að sofa á hverjum degi.

Ef maður finnur svo ráð við svefnleysi, t.d. á netdoktornum, þá eru þau öll auðvitað alveg gríðarlega skynsamleg og sjálfsögð. Þar stendur m.a. að maður eigi að forðast mikla hugaræsingu. “Hm, ég er að hugsa eitthvað spennandi núna. Best að hætta því svo ég geti nú sofnað.”

Ef áhugaverðar hugsanir og svefn geta ekki farið saman, þá verð ég að fara gera upp á milli. Í endurminningum mínum verður þetta eitt af þungarvigtar ákvörðum lífs míns:


Stóð frammi fyrir erfiðu vali þegar ég var 24 ára. Sá samt enga leið út úr þessu svefnleysi, svo ég sagði við sjálfann mig: “Bjarki Gunnar, nú hættirðu þessum hugaræsingi á kvöldin”. Ég hef staðið við orð mín síðan, ef spennandi hugsun hefur komið upp í hugann hef ég bælt hana niður og ávalt fengið mér flóaða mjólk fyrir svefninn.

Sunday, December 04, 2005

Náttúrufræðisafnið

Þessa dagana er verkefnið mitt í skólanum frosið. Hef ekkert komist áfram með það núna í 3-4 daga. Finnst vanta eitthvað ótrúlega mikið. Hvar er ljóðleikinn? Hvað er samhengið? Hvar er arkitektúrinn? Hugmyndaleysið er allgjört. Það er vart vottur af frumlegri hugsun.

Síðasta föstudag dó ég þó ekki ráðalaus. Sökum teikniteppunnar tók ég mér frí og fór á náttúrufræðisafnið (Steno museet) í Háskólagarðinum. Spennandi en líka óhugnanlegt. Þá á ég aðallega við sýningarsalinn “sögu læknisfræðinnar”. Þar var að finna alls konar tæki og tól sem ég vil helst ekki vita af. Læknar, eru hugrakkir. En mér hreinlega svimar við tilhugsunina um að verða sjálfur slíkur.

Svo var salur með almennri “uppfinningasögu”. Þar stóð ég m.a. frammi fyrir kjarnorkusprengju. Hvorki meira né minna. Hana mátti ekki snerta. Rafkúlan toppaði þó allt. Hef oft séð hana í bókum og sjónvarpi en aldrei fengið að snerta hana fyrr en nú. Þarna var ég s.s. í ca. 10 mínútur að snerta kúluna á alla mögulega vegu, hugsandi “vaaá”.

Hvað varðar dýraríkið þá var lungnafiskurinn þar fremstur í flokki. Hann getur lifað án vatns í þrjá sólahringa. Fyrir vikið var hann eina lifandi dýrið á safninu. Fékk þó ekki að spreyta sig mikið á lungunum þar sem hann var geymdur í vatni. Það verður þó seint sagt um lungnafiskinn að hann sé fallegur.

En mikið rosalega er svona safn áhugavert. Það sem er minna áhugavert er vankunnátta mín í þessum efnum. Þrátt fyrir alls konar stúdentspróf af náttúrufræðideild þá veit ég gríðarlega, næstum vandræðalega lítið. Ég kýs þó að kenna leiðinlegri nálgun á kennsluefninu um sem var í alla staði letjandi og niðurdrepandi. Hinsvegar getur vanþekking líka verið ótrúlega spennandi. Fyrir mér er t.d. rafkúlan yfirnáttúrulegt fyrirbæri og ég get þróað mínar eigin hugmyndir um tilvist hennar.

Það ranga við kennslu í náttúruvísindum er þessi eilífi utanbókarlærdómur. Miklu mikilvæga er að nemendur tileinki sér tilfinningu fyrir eðli hlutanna, í stað þess að læra allt um þá utanbókar. Mig vantar að vita hvað byggingin mín vill, hvert er eðli hennar? Ég hef endalaust lesið um hvernig hanna á byggingar og veit alveg hvernig á að fara að. Náttúrulögmálin eru þó einni vídd ofar þar sem mannskepnan getur ekki stýrt þeim lögmálum með þeirri tækni sem hún hefur tileinkað sér. En til að geta þróað tækni verður að hafa skilning á eðli náttúrunnar. Mig vantar þennan skilning og þess vegna er verkefnið mitt frosið.

Thursday, December 01, 2005

Andlit

Þessi frétt hristi heldur betur upp í mér í dag. Læknar í Frakklandi hafa framkvæmt fyrstu andlitságræðslu sögunnar Hljómar eins og vísindaskáldsaga. Um er að ræða konu sem bitin var í andlitið af hundi með þeim afleiðingum að andlit hennar afmyndaðist. Fékk svo “nýtt” andlit af heiladauðri konu. Óhugnanlegt. Vissi ekki að hægt væri að kroppa svona í fólk áður en það er alveg látið.

Fréttin vekur upp stórar spurningar. Hvaða hugmynd höfum við um þetta sem við köllum andlit? Af hverju að fá andlit einhvers annars, í stað þess að útbúa gerviandlit?

Í heimi þar sem fegurð er oft bundin við unglegt útlit, væri æskilegt að hafa andlit sem ekki eldist. Með lítaaðgerðum er ungt og hrukkulaust andlit vel mögulegt. Söngkonan Tina Turner er þar gott dæmi. Þessi andlitságræðsla er hinsvegar í sterkri mótsögn við þessa hugmyndafræði. Fólk vill hafa hrukkur. Það vill líta út fyrir að vera lífsreynt og hafa lifað. Gerviandlit gæti ekki uppfyllt þær kröfur.

Andlit hvers og eins skiptir því sköpum. Hlutföllin og fegurðin skiptir þar minna máli. Aðalmálið eru einkenni sem bera vott um persónuleika. Andlitseinkenni er það fyrsta sem manni dettur í hug þegar nafn einvers ber að góma. Sömuleiðis ef eitthvað lýsingarorð er sagt, tökum sem dæmi orðið “nýskur”, þá sér maður andlit nýskrar manneskju.

Þess vegna er frekar sérstakt þegar manneskja fær andlit einhvers annars. Hitt andlitið endurspeglar aðra persónu í huga fólks. Ennfremur undarlegt fyrir fólk sem þekkir heiladauðu konuna. Ef sú kona var t.d. nýsk, þá gengur önnur kona um með andlit sem tengt er við nýsku.

Hvað fyndist manni um það að einhver annar bæri andlits manns? Að fá nýtt andlit er nefnilega ekki það sama og að fá nýtt nýra. Hinsvegar er andlit frá öðrum betra en afskræmt andlit. Eðlilegt útlit hefur einfaldlega mikið gildi. Því verður maður að taka svona löguðu með opnum huga. Þó er mörgum spurningum ósvarað í þessum málefnum. Mun fyrst komast að eiginlegri niðurstöðu eftir marga áratugi, ef ég mun þá komast að niðurstöðu.