Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Friday, December 23, 2005

Hvað eru jólin?

Það skýtur ef til vill sköku við að rétt fyrir jól kristinna manna sé ég að lesa um Hindúasið, í stað þess að rifja upp kennisetningar kristinar trúar. Ekki það að ég búist við að þjóðin sé bara í andlegri, kristilegri íhugun þessa dagana. Síður en svo. Þó ég ætli ekki að úthúða markaðsvæddum jólum og neyslusjúkri þjóð finnst mér þó mikilvægt að fólk pæli eitthvað... í einhverju. Það þarf ekki að vera lestur jólaguðspjallanna eða upprifjun á fæðingu frelsarans. Ein nálgun gæti verið í gegnum önnur trúabrögð.

En snúum okkur að Hindúasið. Trúarbrögðin eru mjög opin fyrir að fólk túlki þau eftir sínu höfði. Hinn æðsti veruleiki getur þar verið ópersónulegur kjarni/andi eða persónulegur guð. Einnig er athyglisvert hvernig trúin skiptir mönnum í fjórar manngerðir: íhugula menn, tilfinningamenn, athafnamenn og tilraunamenn. Hver hópur getur nálgast guð á sinn hátt í gegnum mismunandi gerðir af joga. Þessi nálgun er mjög áhugaverð og ekki skrítið að leikfimin hafi átt innreið inn í vestrænan heim.

Hindúasiður telur frumþarfir venjulegs manns vera unað og veraldlegt gengi – auðæfi, frægð og völd. Í stað þess að hafna þessum þörfum leggur trúin áherslu á að leita þessara markmiða á heiðarlegan hátt og í hófi og með sanngjörnu tilliti til annarra. Maðurinn mun þó vaxa frá þessum þörfum, líkt og börn fá leið á leikföngum, verða eirðarlaus og óánægður. Hann mun finna ánægjuna í þjónustu við samfélagið og meðborgara. Síðar meir mun hann svo reyna að upplifa “nirvana” sem er æðra öllu.

Allar bílferðirnar í Smáralindina og kapphlaup um að keyra þangað á sem flottastum bíl er því vel skiljanleg skv. Hindúasið. Efnishyggjan er þó ekki komin til að vera, fólk mun verða meðvitað um aðra í kringum sig. Er þetta auðæfakapphlaup í Íslendingum því tímabundið ferli sem mun lognast niður fyrr en varir? Ég leyfi mér að vona það.

Á sinn hátt er heldur ekkert óeðlilegt að vilja baða sig í frægð. Þeir sem eru hvað duglegastir á því sviði eru þó fjölmiðlafólk. Það er engan veginn heilbrigt að á flettiskyltum borgarinnar sé fólkið sem eigi að segja okkur fréttir (á það við um fréttafólk NFS). Þetta fólk hefur valdið og þekkinguna til að horfa gagnrýnum augum á samfélagið og spyrja áleitina spurninga, núna rétt fyrir jólin. Ég leyfi mér samt að trúa að þessi sjálfsánægja fjölmiðla sé einungis tímabundin, eins og á við um auðæfakapphlaupið.

Ef ég væri geimvera sem lenti á Íslandi í dag, þá væri það síðasta sem mér dytti í hug að dagurinn á morgun hefði eitthvað með trú að gera. Þó vil ég ekki einungis kenna markaðsvæðingu og neysluhyggju þar um. Kristin trú skortir nefnilega sterka aðferðafræði í nálgun, líkt og joga er góð nálgun fyrir trú Hindúa. Trúin virðist heldur ekki eiga upp á pallborðið hjá fjölmiðlum. Þar eru auglýsingar helsti boðskapurinn.

Á morgun höfum við þó tækifæri til að komast yfir á æðra stig, hugsa um fólk í kringum okkur og finna hamingju sem hafin er yfir allt. Ég er sannfærður um að svo muni verða. Íhuganir aðfangadags mættu þó vera oftar. Engu að síður vona ég að fólk njóti morgundagsins. Gleðileg jól.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Gleðileg jól...

December 24, 2005 at 5:27:00 PM GMT+1

 

Post a Comment

<< Home