Náttúrufræðisafnið
Þessa dagana er verkefnið mitt í skólanum frosið. Hef ekkert komist áfram með það núna í 3-4 daga. Finnst vanta eitthvað ótrúlega mikið. Hvar er ljóðleikinn? Hvað er samhengið? Hvar er arkitektúrinn? Hugmyndaleysið er allgjört. Það er vart vottur af frumlegri hugsun.
Síðasta föstudag dó ég þó ekki ráðalaus. Sökum teikniteppunnar tók ég mér frí og fór á náttúrufræðisafnið (Steno museet) í Háskólagarðinum. Spennandi en líka óhugnanlegt. Þá á ég aðallega við sýningarsalinn “sögu læknisfræðinnar”. Þar var að finna alls konar tæki og tól sem ég vil helst ekki vita af. Læknar, eru hugrakkir. En mér hreinlega svimar við tilhugsunina um að verða sjálfur slíkur.
Svo var salur með almennri “uppfinningasögu”. Þar stóð ég m.a. frammi fyrir kjarnorkusprengju. Hvorki meira né minna. Hana mátti ekki snerta. Rafkúlan toppaði þó allt. Hef oft séð hana í bókum og sjónvarpi en aldrei fengið að snerta hana fyrr en nú. Þarna var ég s.s. í ca. 10 mínútur að snerta kúluna á alla mögulega vegu, hugsandi “vaaá”.
Hvað varðar dýraríkið þá var lungnafiskurinn þar fremstur í flokki. Hann getur lifað án vatns í þrjá sólahringa. Fyrir vikið var hann eina lifandi dýrið á safninu. Fékk þó ekki að spreyta sig mikið á lungunum þar sem hann var geymdur í vatni. Það verður þó seint sagt um lungnafiskinn að hann sé fallegur.
En mikið rosalega er svona safn áhugavert. Það sem er minna áhugavert er vankunnátta mín í þessum efnum. Þrátt fyrir alls konar stúdentspróf af náttúrufræðideild þá veit ég gríðarlega, næstum vandræðalega lítið. Ég kýs þó að kenna leiðinlegri nálgun á kennsluefninu um sem var í alla staði letjandi og niðurdrepandi. Hinsvegar getur vanþekking líka verið ótrúlega spennandi. Fyrir mér er t.d. rafkúlan yfirnáttúrulegt fyrirbæri og ég get þróað mínar eigin hugmyndir um tilvist hennar.
Það ranga við kennslu í náttúruvísindum er þessi eilífi utanbókarlærdómur. Miklu mikilvæga er að nemendur tileinki sér tilfinningu fyrir eðli hlutanna, í stað þess að læra allt um þá utanbókar. Mig vantar að vita hvað byggingin mín vill, hvert er eðli hennar? Ég hef endalaust lesið um hvernig hanna á byggingar og veit alveg hvernig á að fara að. Náttúrulögmálin eru þó einni vídd ofar þar sem mannskepnan getur ekki stýrt þeim lögmálum með þeirri tækni sem hún hefur tileinkað sér. En til að geta þróað tækni verður að hafa skilning á eðli náttúrunnar. Mig vantar þennan skilning og þess vegna er verkefnið mitt frosið.
4 Comments:
Mikið er ég sammála þér. Hef sjaldan leiðst jafnmikið og þegar ég mætti í líffræðitíma í MR.
December 4, 2005 at 10:09:00 PM GMT+1
Og svo varstu að segja mér að fara á náttúrufræðibraut.
December 4, 2005 at 10:58:00 PM GMT+1
Reyndu að hugsa ekki um hvernig þú ætlar að nálgast viðfangsefnið. Gakktu að verkefninu og segðu við sjálfan þig: ég ætla að breyta þessu verkefni í skrímsli.
kv. Sverrir
December 8, 2005 at 4:07:00 PM GMT+1
Sverrir: Mjög góður punktur. Legg til að þú fáir að spreyta þig á verkefninu mínu í jólafríinu og sýna þinn innri arkitekt.
December 9, 2005 at 1:00:00 PM GMT+1
Post a Comment
<< Home