Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Monday, November 07, 2005

Borgríkið Ísland

Mikið er ég orðinn pirraður á mótmælum landsbyggðarfólks við færslu Reykjavíkurflugvallar. Að sjálfsögðu er mikilvægt að hlusta á mótrök en þau verða þá líka að vera til. Umræða landsbyggðarinnar miðar nefnilega einungis að þeim sjálfum og þeirra hagsmunum. Það sem ég undra mig á, er að það sé enginn úti á landi sem kemur með einhverjar framúrstefnulegar hugmyndir sem gætu rökstutt áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri. Fyrir vikið ætla ég að kasta fram hugmynd.

Bæir landsbyggðarinnar verða að hafa upp á eitthvað að bjóða. Eins og staðan er í dag er lítið um að vera í mörgum bæum. Hinsvegar eru flestir bæir landsins staðsettir í dramatísku og spennandi landslagi. Út á landi er ennfremur allt að springa úr fallegri náttúru! Landslag og náttúra biðja hreinlega um að verða virkjuð, á skemmtilegan hátt (ekki landsvirkjunarhátt!)

Það þarf þó eitthvað meira til. Því spyr ég: Hvað ef landið allt yrði hugsað sem ein borg í stað þess að rembast alltaf við að gera Reykjavík að stórborg? Ásamt leiðarkerfi SVR kæmi flugleiðakerfi Flugleiða. Flugsamgöngur myndu aukast og flugfargjald yrði lækkað. Í “borgríkinu” Íslandi yrði hver og einn bær úti á landi hugsað eins og eitt hverfi þar sem “strætóflugvélin” stoppar. Í stað þess að Reykjavík stækki enn frekar stækka bæir (hverfi) landsins. Strjábýlu krummaskerin yrði nú loks að einhverju sem unt væri að kalla bæ.

Hér er þó mikilvægt að spyrja sig hvernig hin íslenska vísitölufjölskylda hugsar í dag? Auðvitað er varhugavert að alhæfa en þetta er eitt módel: Fjölskyldan vill eiga stóra bíla til þess að geta verið sjálfstæð og ferðast upp í sumarhúsið sitt, úti á landi. Á sama tíma vill hún yfirleitt geta slegið grasið í kringum húsið sitt í Grafarvoginum. Gríðamikil yfirvinna er líka áberandi hjá Íslendingum. Börn verða því fyrir vikið oft óháð foreldrum sínum nokkuð fljótt. Sjónvarpið og internetið hjálpa þar til.

Þetta munstur er nokkuð undarlegt og ekki endilega jákvætt. En er hægt að þróa það og bæta? Ímyndum okkur þessa fjölskyldu á annan hátt. Bækistöðvar hennar eru úti á landi, í húsi, staðsett í fallegu landslagi. Nokkurs konar heils árs sumarhús. Einnig eiga þau litla íbúð eða herbergi í Reykjavík. Þar eru foreldrarnir fjóra daga vikunnar, vinna eins og hestar og sofa í íbúðinni. Hina þrjá dagana eru þau í fríi með börnunum sínum. Þau tækju flug á mánudagsmorgni og kæmu aftur með flugi á fimmtudagskvöldi. Á meðan foreldrarnir eru í Reykjavík nota þau nýtt og skilvirkt leiðarkerfi SVR. Úti á landi geyma þau jeppan sem þau nota í sunnudagsbíltúrinn með börnunum, í fallegri náttúru landsins.

Í borgríkinu væri einnig unt að ímynda sér að samgöngur væru það skilvirkar og ódýrar að forleldrar gætu flogið á hverjum degi heim. Þá yrði hverfið úti á landi líka að vera þéttbýlt og með skilvirkt leiðarkerfi. Þetta gæti verið annað bæjarmynstrið og myndi eflaust henta ungri fjölskyldu þar sem dagleg samskipti eru mikilvæg. Þegar fjölskyldan yrði svo efnaðri og eldri væri mögulegt að flytjast í einbýlishúsahverfi og kaupa íbúð í Reykjavík (eða þar sem viðkomandi vinna er).

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessar hugmyndir eru á margan hátt draumkenndar og í fljótu bragði hreinlega “crazy”! Mjög líklega væri þó unt að rökstyðja þær af meiri nákvæmni en hér er gert. Svona blogg er þó ekki vettvangur til að vera með nákvæmar lýsingar á þessari nýju heimsýn. Hinsvegar er mikilvægt að fólk fari að hugsa sig um hvernig landið eigi að þróast. Það liggur nefnilega ekki endilega í eðli lands og þjóðar að hér sé ein stórborg. Reykjavík verður hvort sem er aldrei nein stórborg en það er líka bara allt í lagi. Hún er, þrátt fyrir ófullkomið skipulag, á margan hátt spennandi eins og hún er í dag.

Það er heldur engin spurning að landið allt er gríðarlega spennandi. Það verður að taka með í reikningin þegar hugsað er til færslu flugvallarins. Stjórnmálamenn og aðrir verða opna hug sinn og koma með fleiri og skemmtilegri hugmyndir fram á sjónarsviðið. Hér er ein hugmynd, vonandi koma fleiri.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

ég segi að þú sért crazy...... þangað til ég fæ að heyra "lengri" útgáfuna ;-)

Skemmtilegar pælingar en...... kaupi ekki strax

November 9, 2005 at 2:50:00 PM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

Já skemmtileg hugmynd, svo væri kjörið að láta grænakortið gilda hvort sem er í strætó eða með flugi. En ég heyrði að það hefði verið stungið upp á því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál..

November 13, 2005 at 5:29:00 PM GMT+1

 

Post a Comment

<< Home