Blogg frá Íslandi
Allt var til staðar; hægindastóll, stofuborð, bækur, teiknigræur og tölva. Fyrir utan tilveruna í herberginu var velferðarparadísin Danmörk; sól úti, körfuboltaiðkun, græn svæði og falleg borg. Hefði viljað sofa ögn lengur í sósíalíska fallega draumaheiminum. Er þó enginn Dani og ekkert SU sem leyfir mér að slóra. Varð að vakna og fara í vinnuna, á Íslandi.
Þegar ég vaknaði var flugvélin komin langleiðina til Keflavíkur. Þar var kalt, gróðurlaust og grátt. Að vanda var ég litinn grunsemdaraugum af tollvörðunum sem tóku farangurinn í skoðun. Þegar komið var til Reykjavíkur var búið að leggja svona þýska hraðbraut inni í miðja borg. Móðir mín var þó snjöll að náði að fínna leið út úr Þýskalandi og inn til hjarta höfuðborgarinnar. Þar tók ég minn fyrsta bita af Íslandi, á Bæjarins Bestu. Ekki slæmt.
Nei, alls ekki svo slæmt hér á Íslandi. Búið að vera rigning og kuldi en samt ekkert svo slæmt. Reyndar er ég ekkert búinn að gera neitt merkilegt en það er eflaust bara ágætt. Á heldur lítinn sem engan pening og neyðist til að vera sparsamur. En alveg ótrulegt hvað hægt er að gera mikið þegar maður hefur lítið milli handanna.
Nú má ekki skilja mig sem svo að peningar og eignir séu böl. Þvert á móti. En það er hægt að komast af með miklu minna en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Eina stóra eignin mín er þessi gríðarháværa tölva mín. Þrátt fyrir það er hún ansi fjölhæf. Aðgangur að bókum er líka mikilvægur og blað til að teikna á. En þá er það upptalið af veraldlegum hlutum.
Samt sem áður er þetta ekki bara ég sem er nægjusamur. Er einfaldlega ótrúlega heppinn með hvað það er mikið að góðu fólki í kringum mig, í báðum löndum. Svo einfalt er það. Draumurinn virkar í báðar áttir. En er ég þá búinn að leysa gátuna um lífið aðeins 23 ára gamall? Held ekki en þó skref í áttina. En hvert er næsta skrefið? Eflaust að reyna bæta heiminn svo sem flestum geti liðið eins vel og mér. En hvernig fer ég að því?
1 Comments:
Velkomin á klakann kappi, svona er þetta bara.....
Verðum að klára úr einni krús eða svo við tækifæri.
Kv. Siggi Freyr
July 17, 2005 at 10:54:00 PM GMT+2
Post a Comment
<< Home