Rekinn
Hvaðan kemur þessi dramatíska setning: “Þú ert rekinn!” Er til fólk sem spilar á annað fólk með setningunni? Að reka, vera rekinn. Tengi þetta alltaf við þegar ég bjó í sveitinni og við vorum að reka kindur upp á fjall. Kindur eru nefnilega dýr sem ná alltaf að kreista fram ótrúlega skömmustulegan svip. Skrítið. Að vera rekinn úr vinnu er sem sagt að vera rekinn með skömm eins og kind. Eina sem mér dettur í hug.
Þegar ég vann á bensínstöðinni hér forðum fann ég fyrir sumum kúnnum sem reyndu að ógna manni með tilhugsunninni. Eitt kvöldið, skömmu áður en ég lokaði, var ég að skúra (eins og hinn útpældi gæðastaðlaða handbók starfmannsins ráðlagði mér að gera). Þá gékk inn maður, með góðærisbumbu og grátt í vöngum, inn á skítugum skónum og beint á nýbónað gólfið. Ég býð góða kvöldið. Hann ekki. Hrópar svo: “Bara verið að skúra?” Greinilega geðveikt sáttur við sjálfann sig sem kúnna sem á rétt á að ganga á nýskúruðu gólfi. Ég svara, með hlutlausu röddinni minni: “Já”. Ég stilli mig upp bakvið afgreiðsluborðið og bíð meðan hann hann skoðar þann hluta búðarinnar sem er búið er að skúra gólfið. Svo kemur hann upp að afgreiðsluborðinu. Afgreiðsluborðið er í ca. 120 cm hæð, sem þýðir að hann getur hallað sér yfir allt borðið, með allann sinn þunga, á þann hátt að hann er í hvíldarstöðu. Algeng líkamsbeiting hjá íslenskum körlum með góðærisbumbu. Fer hægt og rólega að segja mér sögu, í kemputóninum. “Ég hef komið hérna áður þegar verið var að skúra. Og það var eins og strákurinn sem var að vinna gengi á eftir mér með kústinn. Ég hringdi nú bara daginn eftir í markaðsstjórann og sagði honum nú bara frá þessu”. Smá þögn. Segir svo hárri röddu: “Og ég sá strákinn aldrei meir!” sagði svo ekkert meir, borgaði, gekk krókaleið út eftir öðru nýbónuðu gólfi og brunaði burt.
Ég byrjaði að skúra aftur í hlutlausa októberskapinu. Hugsaði aðeins um tilgang sögunnar. Tilgangurinn var að reyna að hræða mig, segja mér að ég gæti ekkert verið með neina stæla. Ég gæti átt á hættu að verða rekinn! Hann er kúnni og hefur þess vegna rétt fyrir sér í hvívetna. Greinilega mikill viskubrunnur að átta sig á hinum stórmerka rétti sínum. Ég get bara þakkað fyrir að hafa vinnu.
En af hverju vildi hann hræða mig? Var hann kannski að gera mér greiða? Ég, “unglingurinn” skyldi gjöra svo vel að læra goggunarröðina í samfélaginu. Á mér má gogga núna og ég má e.t.v. gera það sama þegar ég er kominn á hans aldur. Spennandi lífsheimspeki, af því ég er ósammála.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home