Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Tuesday, April 05, 2005

Fordómar

Hvað eru fordómar og hvernig koma þeir fram? Í dag lenti ég í aðstöðu þar sem einn aðili var e.t.v. með fordóma í minn garð. Samt ekki víst, því unt er að túlka hlutina á mismunandi vegu. Hér kemur reynslusaga.

Þessa vikuna er námskeið um arkitekta úti í raunveruleikanum. Tilgangur námskeiðisins að koma okkur niður á jörðina. Við erum ekki bara listamenn heldur munum við líka bera mikla ábyrgð. Hið skapandi ferli er bara örlítill hluti af öllu ferlinu frá því að hugmynd kemur á blað og þangað til hús er reist í öllu sínu veldi. Í því samhengi fáum við ýmsa fyrirlesara úr "alvörunni". Einn fyrirlesarinn er arkitekt, frá stórri teiknistofu í Árósum, sem er manna fróðastur um raunveruleikann. Í gær bað hann okkur að líta á heimasíðu, fyrir daginn í dag, en þar voru skaðabótamál vegna arkitekta tekin fyrir. Ég las samviskusamlega dóm í einu svona máli og verð ég að játa að ég hef lesið margt skemmtilegra. Þegar við komum svo í skólann í dag spurði hann eina stelpuna, sem heitir Sonja, hvort hún hefði lesið. Hún hafði, eftir minni bestu vitund, lesið það sama og ég. Svo spurði hann aðra stelpu. Sú hafði ekki náð að lesa svo hann hálfpartinn skammaði hana. Síðast spurði hann svo mig og ég sagðist hafa lesið það sama og Sonja. Þá sagði hann: "Gott svar hjá þér, ég hefði svarað því sama!" Leit svo spekingslega og stoltur yfir hópinn. Ég ypti bara öxlum. En það hefði ég samt ekki átt að gera. Hann hafði nefnilega gefið í skyn að ég hefði verið að ljúga. Ég fattaði það bara ekki alveg strax vegna morgunþreytu.

En voru þetta fordómar og ef svo var, af hverju?
Ég er hræddur um að svo var. Maðurinn hafði nefnilega, hvað eftir annað, tönnlast á hvað við nemendur vissum lítið. Ennfremur hafði hann svarað spurningum á niðrandi hátt, þannig að viðkomandi nemandi leit út fyrir að vita ekki neitt. Ég verð að játa ég leit ekkert sérstaklega gæfulega út þennan morgun, í rifnum gallabuxum, órakaður, þreytulegur með hárið út í loftið. Þegar hann spurði mig og stelpurnar leið mér eins og hann væri kennari í barnaskóla. Kennari sem spyr nemanda um eitthvað sem kennarinn veit að nemandinn veit ekki.

En af hverju er þetta að pirra mig?
Mér er þannig séð alveg sama hvað þessum ágæta manni finnst um mig. En mér er hinsvegar ekki sama um að bekkjarsystkini mín haldi að ég sé lygari. Ein stelpan sagði nefnilega að henni fyndist ómerkilegt af mér að hafa sagt það sem ég sagði. Virði þó að hún sé hreinskilin. En fyrir vikið hafa fordómar hér neikvæðar afleiðingar þar sem þær geta skert mannorð. Þó bara í örlitlum mæli og ég er eiginlega ekki pirraður lengur.

En hvað er hægt að læra af þessu?
Gríðarlega lærdómsríkt þetta litla dæmi úr tilveru minni, aðallega fyrir mig. Ég verð sjálfur að passa mig að dæma ekki þennan ágæta mann. Getur vel verið að hann hafi slæma reynslu af nýútskrifuðum arkitektum og þess vegna er hann aðeins of fljótur að draga ályktanir. Það er enginn laus við fordóma af einhverju tagi. Á þessu bloggi er örugglega unt að túlka einhverjar skoðanir mínar sem fordóma. Hvenær verða skoðanir að fordómum? Ég efast hinsvegar um að skoðanir mínar bitni á einhverjum einstökum aðilum. Vona allavega svo sannarlega að svo sé ekki. Það er hægt að hneykslast á ýmsu án þess að það séu endilega fordómar.

Annað sem unt að hafa í huga er að það er mörgum sem finnst arkitektar hálf steiktir. Svo ég á örugglega eftir að hitta fórdómafullt fólk í framtíðinni. En það þýðir ekki endilega að maður eigi að vera súr yfir svoleiðis. Frekar að hlæja. Og það er örugglega kjarni málsins.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þetta er athyglisvert.

April 9, 2005 at 3:30:00 AM GMT+2

 
Anonymous Anonymous said...

Var hann ekki bara með hroka..... en þú verður að kynnast þessari hreinskilnu snót betur ;-)

April 11, 2005 at 12:14:00 AM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home