Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, February 20, 2005

Tölvutal

Um daginn gerðist svolítið undarlegt. Ég kveikti á tölvunni, skrifaði leyniorðið, sá bakgrunnsmyndina koma upp og fallega windowslagið var spilað en svo ekkert meir, bara stop! Slökkti og kveikti aftur en, nei. Hringdi í norska vin minn, Magnús, sem kom og varð hissa. Þetta var á sunnudegi og ég gat ekkert gert. En þvílíkir duttlungar í tölvunni, spila þetta lag alltaf hreynt, sýna mér bakgrunninn en hætta svo bara, svona alveg í miðjum klíðum! Og ekkert að gefa neinar útskýringar. Dramadrottning.

Daginn eftir fór ég svo til tölvugúruanna í skólanum. Þeir vildu kíkja á málið og sögðu að þetta væri tæplega stórmál. Tóku tölvuna í sínar hendur og sögðu mér að koma seinna að ná í hana. Fékk hana föstudaginn eftir. Og það var eiginlega ekkert að, henni hafði bara ekki tekist að “uppgradera sig” almennilega og í kjölfarið bara nennti hún ekki!

Já tölvur, þar skortir mig skilning! Lærði smá tölvunarfræði i menntó, en þar virkaði allt mjög rökrétt. Bara 0 og 1, boolean algebra, kíló-,mega- og gígabæt og þá var þetta komið. En svo þegar maður eignast tölvu þá þarf maður samt að hugsa um hana eins og hundinn sinn, annars bara allar líkur á hún nenni ekki! Mér finnst tölvur vera duttlungafullar. Þær eiga ekki að geta hugsað sjálfstætt en gera það samt! Svo er verið að þróa gervigreind hjá tölvum. Þær eru löngu búnar að tileinka sér sjálfstæði. Framtíðarsýnin úr Kubrick myndinni, 2001, er runnin upp.

Eða kannski er það bara ég sem er að ímynda mér? Tölvufræðingar myndu eflaust túlka vandann öðruvísi. Þeir reyna ekki að skilja tölvuna sem slíka heldur alla rökfræðina á bakvið. Í því er kunnátta þeirra fólgin. En fyrir vikið kunna þeir líka að “prógramera” duttlungafullar tölvur. Að búa til vírus er víst ekkert geðveikt flókið, hef ég heyrt. Sem betur fer eru fæstir tölvugúrúar þannig innrættir að þeir vilja skemma fyrir öðrum. En þeir hafa svo sannarlega valdið til þess. Gúrúarnir í skólanum mínum eru t.d. ótrulega mikilvægir, en að sama skapi vanmetnir. Þeir gætu eflaust auðveldlega sent út vírus til allra nemanda skólans og farið svo í verkfall. Fá örugglega ekkert sérstaklega vel borgað hjá svona ríkisreknum skóla.

En nú er skólinn minn bara lítið samfélag. En hvernig standa málin þá í stóru samfélagi? Í vestrænum heimi er gríðarlega margt háð tölvum. Bankar, verslunarkeðjur, innra net hins opinbera og svona má lengi telja. Það er því nokkuð ljóst að mikilvægar móðurtölvur mega síður komast í rangar hendur. Móðurtölva! Undarlegt orð. Magnað að persónugera hlut á þennan hátt. Orðið tölva líka athyglisvert, samansett úr orðunum tala og völva (spákona). Útpælt.

Tölvur eru líka ótrulega einstaklingsbundnar og persónulegar. Þar af leiðandi getur einkalíf fólks farið úr skorðum. Nefnilega ófáir sem eiga í ástarsambandi í gegnum “laptoppinn” sinn! Svo ég tali nú ekki um þá sem stundar veruleikaspil á netinu. Félagsleg tenging við tölvur er orðin ótrúlega sterk. Svo þegar einhverjir tölvuþrjótar ná að brjótast inn i einkatölvur, sem er víst líka alveg mögulegt, þá eru þeir gjarnan að klippa á mikilvæg tengsl við umheiminn. Félagsfræðileg tölvunarfræði, er nýtt fræðiorð.

Tölvur eru ekki bara dauður hlutur, þær eru fyrirbæri sem ber að umgangast með fullri virðingu. Líka nokkuð ljóst að þeir sem búa yfir tölvukunnáttu eru að verða hornsteynar samfélagsins. Þá ber að virða. Þeir verða líka að bera virðingu fyrir kunnáttu sinni og mikilvægi hennar. Tölvusiðfræði! Það ætti að vera meira í umræðunni. Gott og illt í tölvuheiminum. En þegar á botninn er hvolft er eflaust mikilvægast að vera óháður tölvum. Geta fleygt laptoppnum í höfnina, gengið á næsta bar og bara verið kúl!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home