Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Monday, March 21, 2005

Að borga eða borga ekki í strætó?

Ferðast með strætó, er stór þáttur í daglega lífinu hér í Aarhus. Strætókerfið hér er heldur ekki til að hlæja af, eða gráta yfir, eins og í Reykjavík. Útpælt og hraðvirkt kerfi sem svínvirkar. Hinsvegar ruglandi þegar taka á strætó í fyrsta skipti, það er nefnilega gengið inn að aftan. Þar kaupir maður miða í sjálfsala eða stimplar þar fyrirframkeypt kort. Hvort tveggja gildir í tvo tíma. Svo er farið út að framan. Engin samskipti við strætóbílstjórann, nema að segja: "Farvel".

VIð þetta kerfi hefur margur Íslendingurinn, sem vanur er gríðarháum strætógjöldum í Reykjavík, sett spurningamerki við: "Er ekki hægt að taka strætó án þess að borga?" Svarið er jú, það er gjarnan hægt, en ekki alltaf. Það eru nefnilega heilmargir í vinnu við að ganga upp í strætóana til að athuga hvort fólk hafi borgað. Ef maður hefur asnast til að borga ekki, þá fær maður 500dkr. í sekt ( ca. 6000 kr. íslenskar).

En valið, til að borga ekki, er svo sannarlega fyrir hendi. Nennir maður virkilega að borga þegar maður fer út eftir 3 mínútur? Hverjar eru líkurnar á að það komi einhver vörður kl. 10 á laugardagskvöldi? Svona er endalaust hægt að hugsa. Hinsvegar fremur heimskulegt að hugsa svona. Ef maður sleppir einu stimpli þá jafngildir sektin 50 stimplum! En það eru ótrúlega margir sem láta glepjast. Örugglega heldur ekki mestu peningafólkið sem tekur strætó. Fólk sem á lítinn pening tekur strætó. Og af hverju á það lítinn pening? Jú, af því það asnast m.a. til að fá strætósektir.

Hinsvegar fremur athyglisvert að sveitarfélagið skuli reyna að græða á óskynsemi borgaranna. Er það alveg siðferðilega rétt? Já, ef á heildina er litið þá er almenningur frekar að græða á þessu en tapa. Þarf frekar fáa sauði til að margfalda peningana á þennan hátt. En meirihlutinn er tvímælalaust að græða. Afleiðingin er skilvirkt og gott strætókerfi sem allir geta nýtt sér.

Annað athyglisvert, sem þetta kerfi býður upp á, er fólk sem borgar ekki en reynir að tala sig út úr sektinni. Þetta er vettvangur fyrir fólk til að athuga hversu gott það sé að ljúga og tala sig úr vandræðum. Sumir, gjarnan Íslendingar, eru oft gríðarlega sleipir. Tala einhvers konar brogað mál og segjast vera nýkomnir til landsins. En Danir kunna hinsvegar ekki svona. Gott dæmi er ein bekkjarsystir mín sem sagði við vörðinn: "Ég gleymdi stimpilkortinu heima!" Hlýtur hreinlega að vera drepfyndið fyrir verðina að heyra svona vitleysu.

En hvaðan er þessi manneskjulega þörf, að reyna að leika á kerfi, uppruninn? Félagsfræðileg ráðgáta, eða hvað? Segja má að hér sé fólk að svindla í litlum mælikvarða, ólíkt sumum skattsvikurum og þess háttar öpum. Ef maður kemst upp með að borga ekki í strætó, þá er það ekki hundrað í hættunni fyrir sveitafélagið. Reyna að spara tíkall, hræðilegt. En þetta kerfi er stórsnjallt. Það leikur á fólk sem reynir að leika á kerfið. Það leikur sér að svindlurunum í samfélaginu. Spurningin er hvort unt væri að gera það sama í stærra samhengi?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home