Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, March 13, 2005

Fermingardagurinn

Það ætti ekki að fara framhjá neinum lesanda mbl.is að fermingar eru í nánd. Þar hafa lesendur getað séð auglýsingar, frá sitthvorum bankanunum, þar sem sjá má uppáklædda fermingardrengi. Annar, strákurinn með síða hárið, (sem ég kannast einhvers staðar við?) er alveg hissa. Gæti verið að segja, með unglingatón: "díses kræst?" Í hinni auglýsingunni, frá Landsbankanum, má sjá mynd af mér fyrir 10 árum. Fölur og frár með síþreytta fermningargerfibrosið.

Hérna endurspeglast fermingar nútímans í öllu sínu auglýsingavaldi. Það þarf enginn að efast að fermingar hafa fyrir löngu glatað sínu upprunalega gildi. Allir vita að flest af þessum börnum fermast út á gjafirnar, meðan þau ættu í raun að kasta öllu veraldlegu frá sér og íhuga boðskap kristinnar trúar.

Mesta tvíhyggjan er þó örugglega borgaraleg ferming. Hún gengur meira út á klisjuna "að vera komin/nn í fullorðinna manna tölu". Að einu leyti er þetta s.s. alveg rétt, það er á þessum aldri sem börn byrja að stunda heimskupör fullorðna fólksins og verða unglingar. Ég get bara ekki séð að þetta nokkurt fagnaðarefni. Og það að gefa gjafir rugla krakkana alveg í ríminu.

En þar sem um þúsund aðrir hafa vælt yfir þessum kapítalísku fermingum, þá ætla ég að hætta vælinu hér og kíkja á jákvæðu hliðarnar. Ef áðurnefndar auglýsingar eru bornar saman ber nefnilega margt áhugavert á góma. Þær endurspegla, fyrst og fremst, andstæður þessa tíma. Sum fermingarbörn eru orðnir óþolandi unglingar á meðan önnur er enn voða mikil börn.Í Landsbankaauglýsingunni má sjá fermingarbarnið sem enn er barn. Alveg undarleg þessi mynd af stráknum. Eiginlega svolítið kaþólskt yfirbragð yfir honum, eins og hann sé klipptur út úr einhverri helgimynd. Gæti líka verið enskur kórdrengur. En maður fær það virkilega á tilfinninguna að hann sé að fara að ganga í gegnum eitthvað heilagt. Svo þegar það er búið getur hann sparað og kannski unnið fartölvu. KB banki stílar aftur á móti inn á fermingarbörn sem eru orðin unglingar.

Það sem er samt skemmtilegasta við þetta allt, er að unglingarnir/börnin eru sett inn í allt annað samhengi en er þeim eðlilegt. Þau eru klædd upp eins og fullorðið fólk og eiga nú að temja sér siði fullorðna fólksins. Sem og þau líka gera á sjálfum fermingardeginum. Fólk, sem þau þekkja ekki neitt og vita ekkert af hverju er í veislunni, gefur þeim gjarnan gríðarleg heilræði. Og börnin kinka kolli án þess að hafa hugmynd um hvad þessi gestur er að meina. Taka svo kurteislega á móti gjöfum, ganga svo um með gestabók og bókstaflega allir gefa ráð.

Daginn eftir er svo öllum sama um þessi grey, þau verða unglingar aftur, fara í skólann þar sem þau eru skömmuð fyrir að vera unglingar. Eitthvað minna um heilræðin þá. Skil vel að börn á þessum aldri botni ekkert í hlutunum. Ekki geri ég það.

Að klæða barn upp sem fullorðið er eins og einhver vísindaleg tilraun. Mjög spennandi tilraun. En það er gaman að fylgjast með. Sérstaklega þegar börnin lifa sig inn í hlutverkið. Og þó að hinn upprunalega tilgangur týnist einhvers staðar, þá er líf og kærleikur yfir þessum degi. Það er gott.

3 Comments:

Blogger mariaogn said...

bjarki bara fyrirsæta, ert það þú sem ert í rauðu "bleiku" jakkapeysunni. ég ætla sko að monta mig af því að þekkja þig !

March 13, 2005 at 10:32:00 PM GMT+1

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Hm, nei. Ég var nú bara að grínast með að þetta væri ég. En ég var rauðhærður, fölur í framann og barnalegur þegar ég fermdi mig, líkt og strákurinn í auglýsingunni. Hef nú ekki orðið svo frægur að verða fyrirsæta, enn!

March 14, 2005 at 6:18:00 PM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

Þessi strákur í KB banka auglýsingunni er Doddi litli strákurinn hans Palla Kr. Bjatki minn.

March 14, 2005 at 7:50:00 PM GMT+1

 

Post a Comment

<< Home