Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, June 23, 2005

Krítik

Eitt dramatískaskta fyrirbærið í arkitektaskólanum er krítikin. Í stuttu máli fer hún þannig fram að nemandi kynnir verkefni sitt fyrir kennurum og bekkjarfélögum, kennarar spyrja svo út í verkefnið og segja svo skoðun sína að lokum. Nánast öll verkefni enda á kritík en fyrir vikið eru engin próf þreytt í skólanum. “Nú hva? Bara prófalaust nám!! Ekkert mál það” myndi margur segja. En hvað er eiginlega auðvelt í þessu samhengi?

Í prófum þarf viðkomandi oft að læra utan að hluti sem ekki eru áhugaverðir. Að því leytinu til eru próf mjög erfið. Þegar komið er í próf situr maður við borð í ákveðinn tíma, einn með sjálfum sér og prófinu.Utanað komandi aðili býr til prófið úr fyrirfram ákeðnu efni, sem nemandinn lærir utan að eftir bestu getu. Álagið er gríðarlegt, það þekkja allir. Þessi athöfn er þó á vissan hátt einkamál. Enginn þarf að vita hvernig gengur nema maður sjálfur opinberi sig. Viðkomandi þarf einungis að sannfæra sjálfann sig um hvað hann kann. Enginn þarf að vita neitt. Ef illa gengur þá er ekki hópur af fólki sem beinlínis horfir á hamfarirnar. En ef vel gengur þá er einungis nóg að sýna ákveðinn tölustaf og allir eru sannfærðir um ágæti viðkomandi manneskju.

Upphengið, sem nemandi kemur með i kritik, er á vissan hátt prófið. Í þessu tilviki er það þó nemandinn sem býr til sitt eigið próf, sem getur oft tekið fleirri mánuði. Svo kemur að munnlega þættinum. Nemandinn útskýrir sitt eigið próf en svarar því líka í leiðinni. Nú er nemandi þó ekki í sínum eigin heimi, það eru nefnilega allir að horfa á og hlusta. Fullkomin opinberun á sér stað. Kann viðkomandi fræðin á bakvið til að búa til prófið (sem er að finna vandamálið) og getur hann svo svarað því (lausnin á vandamálinu; skipulagið, húsið eða stóllinn)? Svarið getur verið rétt á marga vegu, en hversu spennandi er svarið (sköpunarkrafturinn)? Og síðast en ekki síst, getur hann tjáð sig um þetta allt saman svo aðrir skilji?

Gjarnan hef ég heyrt að krítik sé ekki persónuleg heldur sé verið að gagnrýna verkefni hvers og eins á faglegum nótum. En svona einfalt er þetta nú bara ekki. Verkefni hvers og eins endurspeglar persónulega sýn á arkitektúr og lífið almennt. Tímabundið er verkefnið eins og barn sem maður elur upp. Kritíkin er eins og foreldraviðtal þar sem maður talar mál barn síns, þegar barnið hefur stofnað til mótmæla í skólanum á hendur yfirvöldum. Allar tilfinningarnar, í sjálfri krítikinni, gera aðstæðurnar erfiðar, sérstaklega þar sem maður þarf að deila þeim með ókunnugum.

Vegna tilfinningana má segja að krítik sé erfiðara en próf. Samt sem áður mun áhugaverðari hlutur og meira gefandi. Ef vel gengur þá er erfiðið ekki til einskiss og aðrir fá að njóta gleðinnar með manni. Sjálfur verð ég glaður þegar ég sé góð verkefni og upplifi spennandi arkitektúr. Þegar aðrir verða jafn glaðir við að sjá mitt verkefni, þá er líka virkilega gaman.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home