Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Monday, May 16, 2005

Ferjan

Ferðalagið allt, tók gríðarlegan tíma. Eftir að hafa gist eina nótt í Aþenu og gengið 20 sinnum í kringum Parthenon var haldið af stað til Lesbos. Ferjan átti að sigla af stað kl. 18 svo við komum tímanlega eða klukkutíma á undan. Fyrir vikið gátum við fylgst með fjölmörgum sígaunum reynandi að smygla sér um borð, æpandi hafnarstarfsmönnum, flautandi bílum og gömlum Grikkjum. Einhverra hluta vegna lagði ferjan ekki af stað fyrr en 7, en þá var hún orðin pakkfull af allra þjóða kvikindum.

Til að stytta stundirnar var ýmislegt gert. Meðal annars farið út á þilfar til að bera Aþenu augum úr fjarlægð. Mögnuð sjón. Hvítt munstur sem breiðir úr sér upp í fjallshlýðarnar. Minnir helst á einhvers konar örvérusamfélag séð úr smásjá. Þegar borgin var úr augsýn tók við lestur úr nýjustu bók hins stórgóða rithöfundar, Haruki Murakami. “Kafka on the shore” heitir bókin og mæli ég með henni, sem og fleiri bókum eftir sama höfund.

Þar sem reynt er að hafa námsferðir eins ódýrar og mögulegt er þá voru engin svefnherbergi pöntuð heldur urðum við sjálf að reyna að finna svefnpláss á gólfinu. Eina rýmið fyrir það var kaffistofa ætluð fyrir almenning. Ég fann smá smugu á gólfinu sem ég leit gríðarlega vel út í fyrstu. Kaffistofan var þó ekki reyklaus, sem var ókostur( þessir frelsisreykingapostular á Íslandi ættu held ég bara flytjast í þessa ferju). Á næsta borði, í allri þvögunni, voru nefnilega tveir svona líka duglegir reykingamenn. Í hvert skipti sem ég var að detta í draumalandið heyrðist kveikjarahljóð og sígarettukapphlaupið hélt áfram. Mikil örvænting yfir þeim. Hlógu svona beavis&butthead hlátri inn á milli innsoga.

Ekki bætti úr skák að það var stormur úti svo bátnum ruggaði all verulega og sjónvarpsmarkaðurinn skrúaður upp í sjónvarpinu. En þrátt fyrir reyk, rugg og nýjastu magavöðvauppfinninguna tókst mér að sofna seint um síðir með hjálp Moon Safari með Air.

Þegar við stigum út úr ferjunni var fjöldinn allur af fólki sem hrópaði hvert ofan í annað og reyndu að komast inn í ferjuna. Lítið gékk þó fyrir aumingja fólkið þar sem vopnuðu hermenn stóðu vörð um ferjuinnganginn. Gríðarlega örvæntingafull stemning. Hef aldrei skilið alveg hvað þarna var í gangi en hef heyrt að þetta sé algengt ástand við komu ferjunnar. Svona nett heimsendastemning.

Fundum svo gulan leigubíl með grísku útgáfunni af Dany De Vito sem bílstjóra, með sígarettu í munnvikinu. Hinsvegar hefði mátt halda að þarna hefði sjálfur James Bond verið að keyra. Hef aldrei keyrt í bíl með bílstjóra sem keyrir svo hratt við hættulegar aðstæður en samt svo öruggur. Leigubílstjóri af lífi og sál. Tek ofan af fyrir því.

Svo lentum við á hótelinu, í Plomari, þar sem við áttum að vera næstu 5 nætur. Þar var fallegt og gott að vera.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

úff hvað svona ferjuferðir geta verið erfiðar. Við vorum svo kræfar á interrailnum að reyna einu sinni að sofa úti á þilfari yfir nóttina. Það var kalt. Maður venst þessu samt ein og öllu öðru og lærir fljótt að sofna við allar aðstæður

May 23, 2005 at 10:13:00 PM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home