Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Saturday, June 18, 2005

Draumar

Stundum dreymir mig hálfundarlega drauma. Þetta er ekki sami draumurinn en sama uppbyggingin og þemað. Ég hef aldrei heyrt um drauma af þessu tagi og þess vegna langar mig að varpa þessu fram.

Draumurinn gengur út á að leysa af hendi nær ógerlegt verkefni. Þá er ég ekki bara að tala um að fá 10 á prófi eða hlaupa maraþon. Meira svona stórverkefni eins og að telja öll grasstrá sem vaxa í heiminum eða púsla heiminum saman, í fullri stærð, í þrívíðu púsluspili.

Fæ hálfgerða klígjutilfinningu við tilhugsunina og hraðan hjartslátt í draumnum. Þegar ég vakna þá er tilfinningin oft ennþá til staðar og ég þarf smá tíma til að jafna mig. Þessir draumar koma þó yfirleitt bara fram þegar ég er veikur en streita getur líka haft sitt að segja. Samt athyglisvert hvað draumar geta haft mikil áhrif á líkamsástandið. Ætli maður geti látist af völdum draumfara, dreymt eitthvað hræðilegt, orðið hræddur og fengið hjartaáfall?

En til hvers að vita hve mörg grasstrá séu í heiminum? Eins og það sé einhver óður tölfræðifasisti sem stendur á bakvið þetta. Tilgangsleysi þessara verkefna er algjört og kvalirnar enn meiri fyrir vikið. Ef helvíti er til þá er það eitthvað í þessa áttina.

Hef samt litlar áhyggjur yfir svona draumförum. Spennandi vangaveltur engu að síður. Svo ef einhver kannast við svona drauma þá endilega látið mig vita.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home