Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Monday, June 02, 2008

Bíódagar

Um daginn fórum við við Björn bróðir að sjá myndina Indiana Jones. Myndin var ágæt en Háskólabíó olli vonbrigðum. Gríðarlegum vonbrigðum alveg hreint. Skoðum málin.

Búið er að færa miðasöluna til, svo nú er í raun gengið inn bakdyramegin í bíóið. Mér leið svolítið eins og ég ætti að skammast mín þegar ég fór inn. Vanalega hefur verið gengið inn um aðalinngang byggingarinnar. Byggingin sem slík hefur nefnilega afskaplega flotta aðkomu, með glæsilegri lýsingu sem undirstrikar gildi þess að fara á virðulega kvikmyndasýningu. Nú er þó raunin önnur.

Þegar búið er að kaupa sér miða, fyrir litlar 1000 krónur, þá fær maður í hendurnar bíómiða á formi undirskriftarstrimils. Þetta er ekki miði sem hægt er að rífa af, þess í stað lítur illa tilhafður unglingur áhugalaus í átt að miðanum. Svo er komið inn í rýmið á undan kvikmyndasalnum sem er álíka aðlaðandi og biðrýmið á BSÍ (altsvo rútubílastöðin í Reykjavík). Uppi um alla veggi eru plaköt af væntanlegum myndum sem undirstrika mikla deyfð í íslenskri bíómenningu um þessar mundir.

Svo er myndin sýnd, þó ekki í stóra salnum eins og í gamla daga. Myndin virtist ætla að ganga þokkalega í gegn, þangað til það fór að bera á hljóðtruflunum. Hljóðið datt út nokkrum sinnum í mesta hasarnum. Það er óásættanlegt. Ég minni á á bíómiðinn kostar 1000 krónur.

Það er fátt eins sorglegt en að horfa upp á góða hluti daga upp í íslenskri meðalmennsku. Ástæða þessarar hnignunar kvikmyndahúsa-menningar má líklega rekja til markaðsaflanna. Sami eigandi á svo til öll kvikmyndahús landsins. Fyrir vikið er stefnt að hámarks arði. Það er sparað og sparað, en líka okrað og okrað. Nú nenni ég ekki að hlusta á unga frjálshyggjupúkann sem segir að þetta sé það sem markaðurinn vilji. Það er ekkert eðlislægt manneskjunni að vilja upplifa hnignun siðmenningar.