Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Wednesday, July 08, 2009

Íþróttahornið

Það kemur fyrir að ég detti á KR-leiki í Frostaskjólinu og um daginn var það KR-Breiðablik. Lúmskur fótboltaáhugi en líka eitthvað meira en það. Það er svo afslappandi að fylgjast með leik, vitandi að þeir breyta ekki gangi himintunglanna – eða setja þjóðina á hausinn með einu sjálfsmarki. Það er líka sama hversu allt gengur ógeðslega illa. Fréttatímarnir enda alltaf á íþróttafréttum. Eftir hatdræma kreppufrétt kemur íþróttafrétt frá Árbæ. Fylkir rétt marði Keflavík en FH heldur toppsæti deildarinnar.

Hef mikið velt þessu fyrir mér með íþróttafréttir. Svona hundómerkilegar en samt svo mikilvægar. Af hverju? Jú, sjáum til. Eftir hverja einustu íþróttafrétt byrja dagdraumar. Ég er frægur atvinnumaður í knattspyrnu með engar fjárhagslegar áhyggjur. Arkitektinn á miðjunni hjá Liverpool og fyrirliði íslenska landsliðsins sem vegna snerpu minnar, innsæis og úthalds er komið í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins. Á sama augnabliki og ég skora sigurmarkið er Icesave gleymt og grafið.

Þegar líður á leik KR og Breiðabliks fer að gæta fyrir nokkru óöryggi hjá hinum unga bakverði KR-inga hægra megin. Hann er líklega ekki að upplifa dagdrauma sína inni á vellinum þar sem honum er bölvað, af eigin stuðningsmönnum, í sand og ösku þrátt fyrir aðeins tvær feilsendingar. Ég velti því fyrir mér hvernig mér sjáflum mynda reiða af í þessari stöðu og hvar raunverulegir fótboltahæfileikar mínir liggja miðað við leikmennina á vellinum. Næði ég að koma einhverri sendingu áleiðis eða myndi ég bara sparka af öllu afli í boltann til að hreinsa frá?

Svo koma dagdraumarnir aftur. Atvinnumennskan. Frægðin. Heimsmeistaramótið. Allur pakkinn. Þá kemur allt í einu annað sjónarhorn á hlutina. Það hefði verið erfitt að samræma atvinnumennskuna með arkitektaskólanum. Hefði ég þá verið í fjarnámi við Arkitektaskólann í Árósum en búið í Liverpool? Hvað hefði þá orðið um Blade Runner kvöldin (myndin er jú til í 8 útgáfum) með útlensku vinum mínum Mads, Magnus, Jacob og Niels?

Þegar stórbrotnir dagdraumar ná ekki að slá út aðstæður mínar í dag, atvinnuleysið, þá er maður staddur á mjög réttri hillu. Það nægir mér að fara á KR-leikina og lifa augnablikið 3-2 í uppbótartíma gegn Breiðablik, þó að FH sé eiginlega að fara að taka titilinn. Ég vona svo sannarlega að fleiri en ég hafi þetta svona. Íþróttafréttir í lok hvers fréttatíma er góð leið út úr kreppunni.