Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, February 22, 2007

Nói á Indlandi

Var að tala við einn indverskan kunningja minn á msninu um daginn. Hann spurði mig hver væri uppáhalds íslenska kvikmyndin mín. Svaraði eins og skot að það væri Nói albínói. Nokkrum dögum seinna talaði ég svo aftur við hann og þá hafði hann náð að útvega sér myndina og séð hana. Gaf henni góða dóma en var nokkuð ringlaður hvað varðar endinn. Ég var á aftur á móti hinn ánægðasti yfir áhuga hans á íslenskri menningu.

Stuttu seinna töluðum við svo aftur saman. Þá hafði hann sýnt allri fjölskyldu sinni myndina sem og hálfum skólanum sínum. Endirinn var gjarnan ræddur en fólk var almennt mjög hrifið. Athyglisverður samanburður tveggja menningarheima hafði einnig átt sér stað.

Get ekki gert að því en mér finnst eitthvað stórmerkilegt við þetta allt saman. Þetta er kannki ekkert svo merkilegt? Veit ekki? Eitt er þó víst að Íslendingar elska að láta taka eftir sér út í hinum stóra heimi. Það er þó venjulega í gegnum umfjöllun fjölmiðla og komu frægra einstaklinga til landsins. Þetta er eitthvað annað. Fólk sem hefur ekki nokkurn einasta kost á að tjá sig á opinberum vettvangi og hvað þá að heimsækja allt í einu landið er þessa stundina að skeggræða örlög hins seinheppna Nóa.

Monday, February 12, 2007

12. febrúar 2006

Fyrir ári síðan starði ég á sjónvarpsskjá í breiðþotu á vegum þýska flugfélagsins Lufthansa. Þar bar að líta flugvél fljúga yfir lönd eins og Afghanistan, Pakistan og loks Indland. Stefndi svo óðfluga á Nýju-Dheli og þá leist mér ekki á blikuna. Uppgötvaði svo að skjárinn væri ekki einungis fyrir afþreygingu, hann var líka að gefa mér vísbendingu um að ég væri satt best að segja að fara til Indlands. Varð dauðhræddur og óskaði þess helst að hún sneri við og flygi beina leið til Íslands.

Sá það ekki gerast og mannaði mig upp í að líta út um gluggann. Eyðimörk, einhverjir bæir en hvar var allt fólkið? Vélin lækkaði flugið, flaug yfir ýmis mismunandi hverfi og loks var hún nógu neðarlega til að augað gæti skynjað fólk. Flaug hratt yfir fátækrahverfi og í einni svipan bar að líta mauraþúfu af fólki. Ég var þó enn í flugvélinni, óhultur í vestrænni menningu. Þegar flaugin var lent fylgdist ég með lífinu á flugvellinum. Flugvellir eru sjaldnast ætlaðir lífi og það er reyndar harðbannað með öllu. En Indverjarnir létu það ekki stoppa sig, gengu þarna um eins og ekkert væri sjálfsagðra.

Flugstöðin var í talsverðri niðurníslu en skilaði þó sínu. Fórum þar í nokkurs konar banka að skipta peningum. Síðan út þar sem var aragrúi af Indverjum með nafnskilti þar sem var m.a. að finna nöfnin okkar. Á leiðinni að bílnum sem var annars skítug og óreiðukennd heyrðum við fuglasöng. Sáum ekki fuglana fyrir vegg en heyrðum að þeir voru margir. Eitt af því sem indverski kennarinn minn, Singh, hafði sagt okkur stoltur um landið sitt var einmitt að þar væri krökkt af fuglum.

Keyrðum frá óreiðukenndu bílastæðinu og lá leiðin beint að hótelinu. Keyrðum langan spöl á hraðbraut þar sem var líf í tuskunum. Ásamt bílum og n.k. hjólabílum var mikið um manninn. Einnig brá fyrir fílum og öpum. Fólk var út um allt en það var erfitt að átta sig á hvað það var að gera. Það ráfaði um, eins og það væri í miklum vangaveltum um lífið og tilveruna. Algengara var þó að sjá konur gera eitthvað sem þjónaði tilgangi, eins og að bera einhver ósköp á höfðinu með nokkur börn í kringum sig. Fylgdist spenntur með öllu úr bílnum. Ég var inni, fólkið var úti.

Hrökk svo við þegar skyndilega var bankað á rúðuna hjá mér. Kona, með barn í fanginu, að betla. Barnið var með risastórt sár á höfðinu og skiljanlega angist í andlitsdráttum konunnar. Eins og hver annar vesturlandabúi varð ég hræddur og vandræðalegur og fór að spá hvort að konan myndi opna hurðina og setjast inn í bílinn. Hún gerði það ekki. Ég horfði þó, að mér fannst í óralangan tíma, eins og lítið hrætt barn á konuna sem stóð þarna hinum megin við bílrúðuna.

Við keyrðum áfram í gegnum lífið á Indlandi og ég upplifaði að minnsta kosti 6 sinnum á mínútu. Það er þó ekkert í samanburði við ýmsa tölfræði Indlands. Á meðan ég upplifði 6 sinnum þá dóu 60 manns þessa sömu mínútu en 180 börn komu í heiminn.

Alls staðar þar sem við keyrðum var glundroði í byggð sem þéttist og þéttist. Umferðin var mikil en gékk nokkuð hratt fyrir sig, hún virtist hreyfast áfram eins og fuglahópur á flugi. Við keyrðum inn í glundroðann og hugsaði ég fyrst með mér að bílstjórinn væri að stytta sér leið. En þá stoppaði hann. Átti ég bara að fara út? Jú, við vorum komnir á hótelið. Steig út og var allt í einu hluti af óreiðunni. Þó ekki lengi, við fórum inn á hótelið að skrá okkur inn og leggja okkur. Seinna um daginn fórum við út og vorum í þessu öllu.

Sunday, February 11, 2007

Meira um samkeppni á Selfossi

Svona í beinu framhaldi af síðustu færslu þá langar mig að gefa upp link á heimasíðu Arkitektaskólans þar sem nú er að finna pdf skjal af samkeppnistillögu okkar um miðbæ Selfoss. Klikkið þar sem stendur, hér. Ykkur lesendum gefst nú kostur á að skoða tillöguna okkar gaumgæfulega, þar sem unt er að “zooma” inn og út í acrobat reader.

Ennfremur langar mig að gefa ykkur link á tillögurnar sem komust á verðlaunapall. Ljómandi gaman að skoða þessar tillögur og bera saman við okkar. Vinningstillagan er að mínu mati sú besta. Margt í henni líkist okkar en ég verð þó að segja að hún er betur unnin. Í öðru sæti var hinn sjóðheiti rithöfundur, Andri Snær Magnússon, meðal höfunda. Þau buðu upp á ljóð á upphenginu og vel skrifaða greinargerð með margar góðar vangaveltur. Þriðja sætið er sömuleiðis nokkuð gott.

Nú svona eftir á hefðum við viljað gera margt betur. Engu að síður nokkuð sáttur við árangurinn. Reyndar mjög ánægður með margar af hugmyndum okkar þegar litið er tilbaka.

Sunday, February 04, 2007

Ný önn

Já það hefur lítið átt sér stað á þessu bloggi. Það er skólinn. En líka áhugaleysi tilkomið vegna blogga í tengslum við mbl.is. Það er ekki sniðugt fyrirbæri. Þegar ég les fréttirnar þá hef ég engann áhuga á að vita hvað einhver jón eða jóna úti í bæ finnst um málið. Að sjálfsögðu les ég ekki þessar skoðanir fólks um fréttina en það er nógu pirrandi að sjá fyrirsagnirnar.

En nóg komið af pirringi og fréttirflutningur af sjálfum mér. Við, sem myndum fjöllistahópinn “Party of five” erum orðin fræg í sveitafélaginu Árborg. Okkur leiðist það ekki og tölum við mikið um það okkar á milli en leyfum einnig öðrum að skyggnast inn í hinn margbreytilega hugarheim okkar. Bíð spenntur eftir að keyra í gegnum Selfoss, stoppa á Bæjarins bestu og gefa pyslumanninum (eða pylsukonunni) eiginhandaráritun.

Það sem skaut okkur svo skyndilega upp á stjörnuhimininn var þátttaka okkar í samkeppni um nýjan miðbæ á Selfossi. Þar hlutum við verðlaun, reyndar ekki þau fyrstu og heldur ekki 2. verðlaun. Ekki heldur 3. verðlaun heldur 1. innkaup. Það eru eiginlega 4. verðlaun, svona eins og íslenska handboltalandsliðið þegar það er upp á sitt besta. En þetta er engu að síður mikill heiður. Tillagan er sem sagt keypt inn og þá verður hugsanlega eitthvað af henni notað.

Annars er byrjuð ný önn í arkitektaskólanum. Sú níunda og næst síðasta önnin. Þeirri áttundu lauk núna síðastliðinn miðvikudag með kritik. Þar var mikið um hrós og margt flott sagt. Stoppa hér svo þetta fari nú ekki út í tómt mont. Engu að síður ánægjulegt og hvetjandi.

En árið í ár er það síðasta þar sem ég er ekki-arkitekt. Eftir það verð ég skilgreindur það sem eftir er ævi minnar. Spáið í því.