Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Monday, February 12, 2007

12. febrúar 2006

Fyrir ári síðan starði ég á sjónvarpsskjá í breiðþotu á vegum þýska flugfélagsins Lufthansa. Þar bar að líta flugvél fljúga yfir lönd eins og Afghanistan, Pakistan og loks Indland. Stefndi svo óðfluga á Nýju-Dheli og þá leist mér ekki á blikuna. Uppgötvaði svo að skjárinn væri ekki einungis fyrir afþreygingu, hann var líka að gefa mér vísbendingu um að ég væri satt best að segja að fara til Indlands. Varð dauðhræddur og óskaði þess helst að hún sneri við og flygi beina leið til Íslands.

Sá það ekki gerast og mannaði mig upp í að líta út um gluggann. Eyðimörk, einhverjir bæir en hvar var allt fólkið? Vélin lækkaði flugið, flaug yfir ýmis mismunandi hverfi og loks var hún nógu neðarlega til að augað gæti skynjað fólk. Flaug hratt yfir fátækrahverfi og í einni svipan bar að líta mauraþúfu af fólki. Ég var þó enn í flugvélinni, óhultur í vestrænni menningu. Þegar flaugin var lent fylgdist ég með lífinu á flugvellinum. Flugvellir eru sjaldnast ætlaðir lífi og það er reyndar harðbannað með öllu. En Indverjarnir létu það ekki stoppa sig, gengu þarna um eins og ekkert væri sjálfsagðra.

Flugstöðin var í talsverðri niðurníslu en skilaði þó sínu. Fórum þar í nokkurs konar banka að skipta peningum. Síðan út þar sem var aragrúi af Indverjum með nafnskilti þar sem var m.a. að finna nöfnin okkar. Á leiðinni að bílnum sem var annars skítug og óreiðukennd heyrðum við fuglasöng. Sáum ekki fuglana fyrir vegg en heyrðum að þeir voru margir. Eitt af því sem indverski kennarinn minn, Singh, hafði sagt okkur stoltur um landið sitt var einmitt að þar væri krökkt af fuglum.

Keyrðum frá óreiðukenndu bílastæðinu og lá leiðin beint að hótelinu. Keyrðum langan spöl á hraðbraut þar sem var líf í tuskunum. Ásamt bílum og n.k. hjólabílum var mikið um manninn. Einnig brá fyrir fílum og öpum. Fólk var út um allt en það var erfitt að átta sig á hvað það var að gera. Það ráfaði um, eins og það væri í miklum vangaveltum um lífið og tilveruna. Algengara var þó að sjá konur gera eitthvað sem þjónaði tilgangi, eins og að bera einhver ósköp á höfðinu með nokkur börn í kringum sig. Fylgdist spenntur með öllu úr bílnum. Ég var inni, fólkið var úti.

Hrökk svo við þegar skyndilega var bankað á rúðuna hjá mér. Kona, með barn í fanginu, að betla. Barnið var með risastórt sár á höfðinu og skiljanlega angist í andlitsdráttum konunnar. Eins og hver annar vesturlandabúi varð ég hræddur og vandræðalegur og fór að spá hvort að konan myndi opna hurðina og setjast inn í bílinn. Hún gerði það ekki. Ég horfði þó, að mér fannst í óralangan tíma, eins og lítið hrætt barn á konuna sem stóð þarna hinum megin við bílrúðuna.

Við keyrðum áfram í gegnum lífið á Indlandi og ég upplifaði að minnsta kosti 6 sinnum á mínútu. Það er þó ekkert í samanburði við ýmsa tölfræði Indlands. Á meðan ég upplifði 6 sinnum þá dóu 60 manns þessa sömu mínútu en 180 börn komu í heiminn.

Alls staðar þar sem við keyrðum var glundroði í byggð sem þéttist og þéttist. Umferðin var mikil en gékk nokkuð hratt fyrir sig, hún virtist hreyfast áfram eins og fuglahópur á flugi. Við keyrðum inn í glundroðann og hugsaði ég fyrst með mér að bílstjórinn væri að stytta sér leið. En þá stoppaði hann. Átti ég bara að fara út? Jú, við vorum komnir á hótelið. Steig út og var allt í einu hluti af óreiðunni. Þó ekki lengi, við fórum inn á hótelið að skrá okkur inn og leggja okkur. Seinna um daginn fórum við út og vorum í þessu öllu.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home