Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, December 03, 2006

Kominn úr klaustri

Það hefur verið mikið um að vera síðasta mánuðinn. Hélt m.a. fyrirlestur, mældi upp gamlan kjallara og tók þátt í samkeppni. Skiluðum inn í samkeppnina síðastliðinn föstudag. Vann þar með frábæru fólki, Íslendingunum Helga og Ástríði og Dönunum Uffe og Morten. Mikið verð ég glaður þegar fólk vill gera skemmtilega hluti og hafa gaman í leiðinni. Eins og gengur og gerist var mikil spenna síðasta daginn og svefnlaus nótt í kjölfarið. Ástríður fær svo fullt hús stiga fyrir framtaksemi sína á föstudaginn. Stóð fyrir huggulegum hádegisverði og líka kvöldverði þar sem ég reyndar steinsofnaði. En svona góð hópavinna er svolítið eins og handboltalandsliðið, mikil stemning þar sem öll þjóðin spilar með. Þegar við höfðum skilað kom í kjölfarið hið stórgóða Vangelis lag/þema úr myndinni Chariots of Fire, upp í hugann.

Þriggja vikna dvöl í klaustri var einnig upplifun. Mikill lærdómur felst í að mæla upp gamlan kjallara og það tekur sinn tíma. En aðeins um klaustrið. Þetta var ekki munkaklaustur, eins og kom fram í síðustu færslu, heldur nunnuklaustur. Þarna hafði undirritaður verið of fljótur á sér, ekki nógu gott. Þetta var þó ekki lengi nunnuklaustur, þær hurfu við siðaskiptin og danskir aðalsherrar tóku við og umbreyttu klaustrinu í herragarð. Danskir restaureringsarkitektar falla einhverra hluta vegna kylliflatir fyrir herragörðum og gera allt til að varðveita þá. Aðalsherrarnir gerðu þó ekkert til að varðveita 300 ára sögu nunnuklaustursins á sínum tíma svo þessi óstjórnlega virðing gagnvart þeim er fremur undarleg. En nóg um það.

Klaustrið er í dag staður til að vinna í friði og ró. Fólk lokar sig af í nokkrar vikur frá umheiminum og vill ekki heyra eitt einasta hljóð. Nema þegar það fer inn í eldhús að búa sér til mat, þá talar það hvort við annað. Þó var ég aldrei var við að það eldaði saman, það var of upptekið við að vera eitt í friði. Fólk var þarna í ýmsum tilgangi, sumir að vinna rannsóknarverkefni en aðrir sömdu ljóð og voru skapandi. Þarna var eitt ljóðskáld sem samdi ljóð um hitt fólkið í klaustrinu. Danir hafa það gott.

Kaupi þennan einstaklingsmiðaða frið ekki alveg, a.m.k. ekki fyrir sjálfan mig. Þegar ég sofnaði í kvöldverðaboðinu, eftir að við sem hópur unnum linnulaust saman gott verkefni, þá fann ég svo sannarlega friðinn. Friðurinn getur líka verið í samfélagi með öðru fólki. Það er snilld.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þú ert snilld!
Hvað er fullt hús stiga mörg points? Skildi ég vera komin yfir 50 eða kannski 100, vá!

Ástríður

December 4, 2006 at 5:49:00 PM GMT+1

 

Post a Comment

<< Home