Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Tuesday, October 31, 2006

Farinn í klaustur

Við gerum ýmislegt sniðugt í arkitektaskólanum. Næstu þrjár vikurnar verðum í Øreslvev klaustri, munum við mæla það upp og fleira í þeim dúr. Upprunalegt hlutverk klaustursins sem samastaður trúaðra munka er þó horfið. Þess í stað getur hinn almenni borgari komið þangað upp eftir og einbeitt sér að ákveðnu verkefni, t.d. ljóðskáld sem vill fá frið og ró til að semja ljóðabálk. Notagildið er að því leytinu til varðveitt upp að vissu marki.

Síðustu daga hefur þó verið ágreiningur, af faglegum toga, í tengslum við þessa ferð. Faglegur ágreiningur er örugglega einkenni arkitektaskólans. Það er ekkert nema jákvætt þar sem hver og einn verður að vera á tánum og taka afstöðu. Yfirleitt er hægara sagt en gert að útskýra faglega afstöðu til leikmanna og getur það reynst mörgum arkitektum dýrkeypt. Þar af leiðandi langar mig að spreyta mig á því í þessari færslu.

Arkitektónískur menningararfur, er deildin mín. Varðveislugildi bygginga og byggðar, hvernig nýtt er í samhengi við gamalt og hvernig viðhald eldri bygginga er háttað er megin viðfangsefni deildarinnar. Á deildinni eru þrjár undirdeildir; restaurering, transformation og kulturmiljø. Á kulturmiljø er varðveislugildi byggðar og umverfis (borg og/eða dreifbýli) í brennidepli. Restaurering fæst aðallega við endurgerð og viðhald bygginga sem skv. skilgreiningu eru varðveittar á einn eða annan hátt. Transformation, deildin mín, miðar að því að gefa byggingum sem ekki hafa varðveislugildi skv. skilgreiningu nýtt gildi, með nýrri notkun og/eða útlitsbreytingum.

Nemendur sem heyra undir restaurering munu gera n.k. skýrslu um klaustrið þar sem gaumgæfulega verður farið í saumana á sögu þess og byggingafræði. Skýrslur af þessum toga eru yfirleitt yfir hundrað síður á lengd og mun þessi skýrslugerð taka þrjá mánuði. Kennarinn sem er ábyrgur fyrir restaurering vill ólmur að við sem heyrum undir transformation tökum þátt í þessari skýrslugerð. Í byrjun annarinnar hafði hann þó sagt að við hefðum tilturlega fríar hendur þegar við völdum að fara með í klaustrið.

Skýrslugerð af þessu tagi er eflaust lærdómsrík. Hef þó lítinn áhuga á að eyða svo löngum tíma í slíka vinnu. Tel sömuleiðis að svo mikil nákvæmnis-rannsóknarvinna geti sett sköpunargáfunni hömlur þegar komið er út í hönnunarvinnuna. Hef allavega mjög oft séð það gerast hjá nemendum. Rannsóknarvinna og hugmyndavinna á miklu frekar að haldast í hendur. Þegar hugmynd er byrjuð að gerjast í maganum þá kemur hún iðulega af stað fróðleiksþörf á viðfangsefninu.

Markmið mín, fyrir núverrandi önn, voru að tileinka mér nákvæmari vinnubrögð. Leggja minna upp úr að þróa hugmynd en einbeita mér þess í stað að arkitektónískum smáatriðum. Uppmælingar eru góð leið til að læra um eðli bygginga, hvernig þær eru skrúaðar saman og hvernig þær eldast. Svipað og ef læknisfræðinemi yrði smækkaður i stærð frumu og fengi tækifæri til að fara inn í sjálfann líkamann.

Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri kunnáttu sem restaurerings-arkitektar búa yfir. Hún er í raun mjög mikilvæg þegar varðveita á byggingar sem hafa táknrænt gildi, eins og kirkjur. Umfram allt hef ég þó mestan áhuga á skapandi hugmyndavinnu, sérstaklega í tengslum við menningararf. Transformation er þar spennandi kostur, leggur meira upp úr skapandi nálgun á varðveislugildi, sögu og fagurfræði. Gott dæmi er Hafnarhúsið, teiknað af Studio Granda. Byggingin sem áður hýsti skrifstofur og vörugeymslu hefur öðlast nýtt gildi með annarri notkun, listasafn. Lögð var áhersla á að varðveita upprunalegt útlit hússins. Örlitlar útlitsbreytingar fanga þó athyglina og þá tekur maður eftir húsi sem býr yfir mikilli fegurð.

Mun eflaust blogga meira um afstöðu mína til arkitektúrs. Nú er ég þó farinn í klaustur.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Vá en spennandi deild og þá sérstaklega transformationhlutinn

October 31, 2006 at 12:33:00 AM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

Það eru liðnar þrjár vikur Bjarki og þú ert kominn heim .... Við viljum fréttir!

November 30, 2006 at 12:22:00 PM GMT+1

 

Post a Comment

<< Home