Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Wednesday, August 02, 2006

Indland: Ranga upplifunin

Ég gat endalaust fabúlerað yfir vestrænum ferðamönnum sem voru bara að upplifa Indland í botn. Fólk að setja sig í hippalegar stellingar, var ekki óalgeng sjón. Það vildi upplifa eitthvað, hvort sem það voru litirnir, klæðnaðurinn, trúin, margmegðin, heilugu kýrnar og svona má lengi telja. Einhverra hluta vegna var ég ótrulega jarðbundinn til að byrja með. Var líka pínulítið hræddur við þetta allt. Að ferðast talaði hreinlega ekki til mín í fyrstu. Engu að síður áhugavert en upplifunin lét á sér standa. Fannst ég ekki búa yfir tilheyrandi dýpt né skilning á aðstæðum. Leið alltaf eins og ég væri að horfa á sjónvarp.

Þegar við byrjuðum á arkitektanemanámskeiðinu sem ég var á, fólst fyrsta verkefni okkar á að útskýra upplifun okkar á Indlandi. Flestir upplifðu landið í botn, allavega samkvæmt myndum þeirra og frásögnum. Upplifun þeirra var gríðarlega jákvæð. Talað var um brosandi fátæklinga, en prófessorarnir höfðu einmitt tekið okkur í fátækrahverfi þar sem fólk brosti. Þegar ég talaði um upplifun mína æpti stéttaskipting á mig. Utan um öll hverfi voru múrar, til að koma í veg fyrir að mismunandi stéttir blönduðust. Sem vestrænn arkitektanemi velti ég því fyrir mér hvernig þjóðfélagið yrði ef múrarnir hyrfu á brott.

Þessar vangaveltur áttu svo sannarlega ekki uppi á pallborðið hjá prófessorunum. Ég hafði upplifað landið rangt. Þó var það kannski fyrst þarna sem ég fór að upplifa landið og eðli Indverja. Menntaðir Indverjar dásumuðu landið sitt. Hver einasti fyrirlesari talaði um "diversity into unity" og áttu þeir þá við mismunandi og fjölbreytilega menningu í samfélagi sem stæði saman. Allir komu með eitt og sama dæmið, indverskur diskur þar sem mögulegt var að blanda mismunandi matartegundum saman á fjölbreyttan hátt. Á meðan voru evrópskir diskar aðeins með einn rétt í einu.

Enginn þessara prófessora setti neitt út á viðvarandi stéttakerfi eða reyndi að koma með hugmyndir um hvernig væri unt að afnema það. Þegar þeir voru spurðir út í viðvarandi aðgerðaleysi komu oft undarleg svör þar sem þeir vörðu sig með mismunandi menningarheima-klisjunni. Gott dæmi var einn skeggjaður prófessor sem lét nágranna sína pirra sig af því þeir borðuðu fisk en sjálfur var hann grænmetisæta. Þrátt fyrir þennan rosalega ósóma sagðist hann samt vera reiðubúinn að skutla syni þeirra á spítala ef bráð veikindi kæmu upp. Þetta var í hans huga einstakt dæmi um samúð og samstöðu Indverja.

Annar prófessor var þó með tromp í erminni þegar hann talaði um lifnaðarhætti Indverja. Hafði þar mikinn skilning og dýpt sem er auðvitað gott mál. Hann gat þó ekki fyrir nokkra muni skilið hvernig fólk gæti búið á Íslandi! Hló svo og hristi hausinn.

Þó var einn arkitekt sem talaði af einhverju viti. Hann hét Doshi og var stofnandi teiknistofunnar sem stóð fyrir námskeiðinu. Hann hafði verið náinn aðstoðarmaður LeCorbusier, einum merkasta arkitekt síðustu aldar, og fyrir vikið orðið fyrir jákvæðum áhrifum frá Evrópu. Þarna vottaði fyrir skapandi hugsunarhætti og framtíðarsýn fyrir Indland. í kjölfarið var hann tekinn í guðatölu af hinum prófessorunum. Allir í kringum hann virtust hætta að hugsa og létu hann um stóru pælingarnar, í stað þess að þróa oft góðar hugmyndir hans með gagnrýnum augum.

Hugarfar menntaðra Indverja olli mér því vonbrigðum. Gagnrýnin hugsun, líkt og tíðkast í Danmörku, skortir. Þetta bil, milli menntunar og gagnrýnnar hugsunar, er eflaust eitt af stærstu vandamálum Indlands.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Vá, þetta er aldeilis merkilegt. Glöggt er gests augað. Ætli prófessorarnir hafi verið að reyna að horfa framhjá vandamálum Indlands og ekki viljað ræða fátæktina opinskátt? Það eru líka aðeins þeir efnuðu sem geta sagt frasa á borð við "diversity into unity".

--Sverrir.

August 3, 2006 at 9:41:00 PM GMT+2

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Segja má að þeir hafi valið sér sjónarhorn á fátæktina, þ.e. að fátækir geta brosað þrátt fyrir að eiga ekki neitt. Það er auðvitað athyglisverður punktur og jákvætt að sjá fólk sem brosið þótt á móti blási.

Fátækt er samt auðvitað ekki bara brosandi andlit. Þeir töluðu ekkert um mæðurnar sem betluðu og voru fullkomlega heimilislausar. Allt fólkið sem vantaði á útlimi. Heldur ekki um afleiðingar fátæktar sem eru t.d. barnaþrælkun og vændi. Gríðarlega mikið af þessu tvennu.

Svo það er rétt, þeir vildu ekki tala um fátæktina og hina raunverulegu gerð þjóðfélagsins opinskátt. Og það er bara alls ekki nógu gott.

August 4, 2006 at 5:40:00 PM GMT+2

 
Anonymous Anonymous said...

Þú verður bara að fara aftur til Indlands og upplifa landið rétt. :)

August 8, 2006 at 6:19:00 AM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home