Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Tuesday, May 30, 2006

Arkitektónískar stjórnmálaskýringar

Allir unnu einhvern veginn í kosningunum á laugardaginn, meira að segja Framsóknarmenn. Það sem stendur þó upp úr er tvímælalaust gott gengi Vinstri-grænna en fylkingin er á uppleið á flestum vígstöðvum. Sú staðreynd, að kjósendur séu orðnir meira meðvitaðir um umhverfismál en áður, er ekkert nema jákvætt. Sjálfstæðismenn hafa á sama tíma ekki aukið fylgi sitt að ráði, þrátt fyrir að vera “bjargvættir” Íslands með Kárahnjúkavirkjun og stóriðju.

Annars er mikið rætt um svokallað “pólitískt landslag” þessa dagana sem er n.k. túlkun á súluritum, gjarnan tveggja turna tal. Í þessu samhengi er þó mun áhugaverðara að velta fyrir sér pólitísku landslagi í arkitektónísku samhengi. Er fylgi milli ákveðinnar gerðar bæjarmyndar og einstakra flokka í kosningum?

Í Gallup könnun, sem kynnt var í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins síðastliðinn föstudag, var greint frá fylgi flokka ef miðað væri við búsetu í einstökkum hverfum í Reykjavík. Þar kom margt áhugavert fram. Einungis þriðjungur kjósenda í 101 kjósa Sjálfstæðisflokkinn á meðan Vinstri grænir koma sterkir inn og fá atkvæði fjórða hvers íbúa. Í Grafarvogi er þó eitthvað annað upp á teningnum en þar eru hátt í 60 prósent íbúa sem merkja við D á meðan aðeins um 5 prósent merkja við V. Framsóknarmenn skjóta langt yfir í Vesturbænum með lítil 2 prósentustig en fara upp í ellefu prósent í nýjustu hverfum borgarinnar.

Framsóknarmenn sem flytjast á mölina eru greinilega frekar efins með þann ráðahag og millilenda í svefnhverfunum, í útjaðri borgarinnar. Vilja vera nálægt sveitinni og náttúrunni sem er s.s. alls ekkert óeðlilegt.

Sjálfstæðismenn hafa greinilega lítið á móti borg bílsins sem er dreifbýl, með eitt einbýlishús á hverri lóð en án hefðbundins miðbæjar. Því til stuðnings er gott gengi þeirra í Garðabæ sem er í fljótu bragði einn kuldalegasti bær landsins. Aftur á móti eru þar mörg flott hús og jafnvel spennandi dæmi um arkitektónískar tilraunir.

Þrátt fyrir fáein, spennandi einbýlishús er malbik-bæjarmynd Sjálfstæðismanna heldur þunglamaleg, sé miðað við helstu vígstöðvar vinstrimanna í þéttbyggðri miðborginni. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í kosti slíkrar borgarmyndar sem því miður er of lítið af á Íslandi.

Allir vilja hafa fallegt og notalegt í kringum sig en fagurfræðileg nálgun virðist þó gróflega skiptast í tvennt eftir stjórnmálaskoðunum. Hægrisinnaðir fagurkerar sem byggja sér einbýlishús leggja mikla áherslu á vandaðar og glæsilegar útfærslur í minnstu smáatriðum. Um vönduð vinnubrögð er ekkert nema gott að segja. Glæsileika fylgir þó oft megn peningalykt sem getur eyðilagt fyrir fegurðinni. Vinstrimenn sjá aftur á móti fegurðina í stærri heild og vitneskjunni um samfélag.

Hvað varðar rýmistilfinningu þá vilja hægrimenn hafa skýrt, afmarkað rými í kringum sjálfa sig og sína fjölskyldu á meðan vinstrimenn vilja hafa þetta rými stærra og deila því með fleirum. Nýtt og glæsilegt yfirbragð er hægrimönnum að skapi á sama tíma og aldur umhverfis og húsa skipa stóran sess hjá vinstrisinnum, svo ekki sé minnst á sterk tengsl við ósnerta náttúru. Það athyglisverðasta í þessu er hvað form og litir skipa í raun lítinn sess, á meðan huglæg tilfinning um fegurð er í sterkara samhengi við stjórnmálaskoðanir.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

skemmtileg greining!!

gamli

May 31, 2006 at 11:37:00 AM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home