Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Wednesday, February 01, 2006

Frelsi til að hugsa sjálfstætt

Rakst á umhugsunarverða grein eftir Bolla Thoroddsen, formann Heimdallar. http://www.frelsi.is/greinar/nr/3698 Í greininni lýsir hann ánægju sinni yfir auknum áhrifum Sjálfstæðismanna í framhaldsskólum landsins. Ég, aftur á móti, lýsi yfir mikilli óánægju minni og eiginlega áhyggjum yfir þessari þróun.

Áhyggjur mínar beinast þó ekki einungis að áhrifum Sjálfstæðisflokksins sem slíkum. Er almennt á móti afskiptum stjórnmálaflokka í framhaldsskólunum. Á MR árunum fann ég sem betur fer ekki fyrir þessari stjórnmálabylgju. Þar hafði fólk einfaldlega frelsi til að leita uppi sín áhugamál án afskipta stjórnmála. En þegar Sjálfstæðisflokkurinn rembist með sínar hugsjónir í menntaskólana, þá eru eru þeir (sjálfskipaðir boðberar frelsis) að svipta nemendur frelsi til að þroska sig sjálfstætt og velja sína eigin leið.

Bolli hefur hinsvegar ekki mikla trú á að unga fólkið geti hugsað sjálfstætt og tamið sér gagnrýna hugsun án þátttöku í stjórnmálum. Hann skrifar:

Þátttaka í stjórnmálum er einstakt tækifæri fyrir ungt fólk til að læra, þroskast, kynnast öflugu fólki og ekki síst skemmta sér. Um leið og fólk tekur aukinn þátt fer það að lesa blöðin með gangrýnni hætti, fylgjast betur með fréttum, læra að efast og taka meiri þátt í stjórnmálaumræðum við eldshúsborðið heima.

Óhugnanlegast í greininni er þegar hann talar um ungliðahreyfingar sem æfingabúðir og n.k. skóla.

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka eru þegar vel tekst til í senn æfingabúðir, skólar, uppspretta nýrra hugmynda og afþreying. Þær eiga að vera skólar þar sem nýjar hugmyndir eru þróaðar og prófaðar, haldnir eru fyrirlestar og fram fer rökræða, jafnt um grundvallargildi stjórnmála, sem dagleg úrlausnarefni þeirra.

Stærsta vandamál þessara hugmynda er eflaust sú trú hans að maður geti lært og lesið sér til um hvernig samfélagið eigi að vera. Í þessu samhengi er miklu mikilvægara að fólk fari út í samfélagið og upplifi það, t.d. þegar það fer að vinna á sumrin. Einnig verður að hafa það í huga að langflestir menntaskólanemar búa í vernduðu umhverfi foreldrahúsanna. Það hefur ekki prófað að lifa sjálfstætt og komast þannig í samband við kerfið. Að búa sjálfstætt er miklu meiri prófsteinn á að kynna sér samfélagið en að heyra um það hjá einhverjum ungliðahreyfingum.

Nú veit ég að það eru komin foreldrafélög í menntaskólana. Það er vonandi að þau taki við sér og mótmæli þessari þróun. Menntaskólanemar nútímans verða að fá tækifæri til að hugsa sjálfstætt án afskifta stjórnmálaflokka.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home