Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Friday, January 06, 2006

Vil ég vera ríkur?

Það fór ekki framhjá mér í jólafríinu hversu gott það er að hafa svona starfslokasamninga á hreinu. Ýmsar skoðanir eru á málinu þó yfirleitt heyrast óænægjuraddir. Þar sem þetta FL group (er til leiðinlegra nafn?) á að heita einkafyrirtæki (eða hvað sem þessir fjármálamenn kalla þetta) þá finnst mörgum bara allt í lagi að forstjórar fái há laun og starfslokasamninga. Þetta er auðvitað ekkert eðlilegt.

Þegar fyrrverandi forstjóri Flugleiða var enn að störfum var dýrara að fljúga til Íslands frá Kaupmannahöfn en að fljúga til Indlands. Gróðinn á þessari fjárkúgun, sem oftar en ekki bitnaði á námsmönnum á leið heim úr jólafríi, fer nú mikið til í starfslokasamning. Það er í alla staði andmannúðlegt að gefa þessum manni 160 milljónir.

Hvað varðar laun núverrandi forstjóra fyrirtækisins þá tæki það hann einungis hálftíma að vinna sér inn flugmiðann minn til Íslands og heim aftur. Hann er rétt búinn að geyspa og fá sér einn “latte” þennan fyrsta hálftíma í vinnunni. Laun hans er þó eflaust eins og gengur og gerist í hinum stóra fjármálaheimi. Þau eru einnig bara dropi í hafið miðað við laun knattspyrnuhetjunnar Eiðs Smára. Engum virðist finnast athugavert að knattspyrnumenn, sem eru einungis að gera það sem þeim finnst skemmtilegast, fái öll þessi laun.

Engu að síður, gríðarlegur ójöfnuður. Þó hann geri einhverja gríðarstóra samninga þá finnst mér ekki mikið til þess koma. Miklu mikilvægari er vinna fólks í félagsmálum svo dæmi sé tekið. Samningar af þessu tagi gagnast einungis hluthöfum í viðkomandi fyrirtæki í að græða meiri pening. Og hvað getur maður gert ef maður er ríkur? Einn ágætur vinur minn svaraði spurningunni á þessa leið: “maður gæti átt risastórt baðkar með froðu í, kampavíni og tveim blondínum”.

Þessum útrásarforstjórum hefur gjarnan verið hampað fyrir stóra og djarfa samninga. Hafa jafnvel verið settir í dýrlingatölu fyrir vikið. Það er því fagnaðarefni að landinn sé loksins búinn að átta sig á hlutunum, þó fyrr hefði verið. Nú er bara að vona að peningaisminn leggi upp laupana og húmanisminn taki við.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home