Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, May 14, 2006

Ljósmyndir af dýrum eða mönnum?

Til að byrja með fannst mér óviðeigandi að taka myndir af fólki, nema það bæði sérstaklega um það. Spurningin var hvort við gætum bara mætt til framandi landa og hegðað okkur eins og í einni stórri “safari” ferð? Gátum við verið áhorfendur af öðru fólki?

Annað kom á daginn. Framandi útlit okkar, rauða hárið mitt og krullurnar hans Johans, vöktu gríðarmikla athygli. Indverjarnir tóku gjarnan myndir af okkur eins og við upplifðum einn daginn í bænum Mount Abu. Vorum á ganga á vegi við stöðuvatn þegar það stoppar bíll sem átti leið um. Út koma tvö ung pör. Biðja okkar að koma með sér að vatninu. Tala ekki beint við okkur en vísa okkur á stað sem heppilegur er til myndatöku. Mynd, með fallegt vatn í baksýn, er tekin. Sagt er: “Thank you” með bros á vör og þau hverfa jafnskjótt og þau birtust.

Þarna vorum við skildir eftir, eins og hundar með skottið milli lappanna. Útlit okkar eitt var áhugavert, ekki við. Okkar fannst þetta pínulítið barnalegt en þetta var þó lítið mál. Ljósmyndir við vatn skaða engann.

Um einum og hálfum mánuði seinna lenti Johan í því að verða veikur og fara á spítala. Til að gera langa sögu stutta neyddist Johan til að fara heim til Danmerkur í kjölfarið, honum líður þó vel núna og allt í góðum málum. Spítalavistin hans var þó í meira lagi athyglisverð. Þegar honum batnaði var hann fluttur inn á n.k. lúxus-sjúkraherbergi, þar sem hann lá einn með tveim sjónvarpstækjum og baðherbergjum. Á fimm mínútna fresti kom svo annað hvort sjúkraliði eða hjúkrunarfræðingur til að glápa á nýju dýrategundina á spítalanum.

Einhvern veginn finnst manni að fullorðið, menntað fólk verði að gera betur en þetta. Hélt að það væri einn af grunnþáttum kurteisinnar að glápa ekki á aðra. Indverjar hika hinsvegar ekki við að stara eftir hvítu fólki, kalla á eftir þeim eða trufla á einhvern ótrúlegan hátt. Þetta er þó lítið mál ef miðað er við nýlendufurstana sem voru þarna forðum. Í þeirra augum voru íbúar n.k. dýr sem unt var að ráðgast með.

Það virðist vera að þegar öðruvísi fólk ber á góma og ekki myndast tenging fljótt, þá myndast gjá skilningarleysis (sama skilningaleysi og ríkir milli manna og dýra) í staðinn. Sjálfum leið mér undarlega þegar allt fólkið var orðið að dýrum í mínum huga. Gat ég leyft mér að hugsa svona? Það var ekki spurning hvort ég gæti það, ég gerði það og í undirmeðvitundinni hafði ég eflaust hugsað svona lengi áður en ég fór út. Hugsunin sem slík var og er því ekki röng. Sökum skilningsleysis míns á tilveru þessa fólks kom hugsunin einfaldlega fram.

Það er hinsvegar mikilvægt að fólk minni sjálft sig á að þarna er fólk á ferðinni. Annars gæti farið á sama veg og gerðist á nýlendutímanum. Ennfremur verðum við Vesturlandabúar að átta okkur á að við erum líka dýr í þeirra augum og það framandi tegundir. Við erum ekki áhorfendur í þessum löndum heldur erum við aðal viðfangsefnið. Aðeins að því leyti erum við stórmerkilegar verur.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Flottar pælingar, ég hef aldrei pælt í þessari nálgun á sambandi manna og þjóða áður.

May 18, 2006 at 4:47:00 PM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home