Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, February 09, 2006

Er að fara til Indlands

Næstkomandi sunnudag er ég að fara til Indlands. Hvorki meira né minna. Þar verð ég í tvo og hálfan mánuð. Ferðast í tvær vikur og verð svo á alþjóðlegu arkitektanema-workshop í tvo mánuði í borginni Ahmedabad. Ferðast ásamt dönskum félaga mínum, Johan, sem einnig fékk hinn ágæta ferðastyrk (leiðist ekki að koma koma þessu að). Já, það eru spennandi tímar framundan.

Síðustu mánuði hef heyrt ógrynnin öll af reynslusögum frá Indlandi, jafnvel frá fólki sem hefur alls ekki verið þar. Fæ ósjaldan að heyra að mér muni verða illt í maganum. Einnig á ég að varast börn sem vantar á útlim en þau koma gjarnan upp að ferðafólki að biðja um pening. Hugsa sér að fá svona ráð. Met það mikils að fá góð ráð og veit að fólk meinar gott eitt með þessu. En er til meiri mótsögn, forðast börn sem í þokkabót vantar á útlimi? Auðvitað er þetta tekið úr samhengi hjá mér. Í því felst þó eflaust upplifunin í ferðalagi sem þessu, í þessu tilviki frekar neikvæð.

Samt sem áður vonast ég til að koma heim með reynslusögur af betri toga. Það þýðir ekki alltaf hreint að koma til baka og tala um hvað heimurinn sé ómögulegur. Við vitum öll að það er fátkækt á Indlandi. Annað sem ég ætla EKKI að gera er að er að taka andlitsmynd af fátæku barni. Er til meiri klisja? Fólk sem á pening fer til fátækralanda að horfa á fólk sem á ekki pening og tekur svo myndir af því.

Þetta kann að hljóma tilfinningasnautt og eflaust ósanngjarnt af mér að segja þetta. Ég hef jú ekki verið þarna ennþá og get þar af leiðandi ekki sett mig í spor þeirra sem taka myndir af fátæku fólki. Hver veit nema ég muni upplifa einhverjar tilfinningar sem fá mig til að gera slíkt hið sama? Ef þannig færi, þá er samt ekki þar með sagt að ég þurfi að sýna neinum þessar myndir. Þær yrðu fyrir mig einan og engann annan. Ég er fyrst og fremst að ferðast fyrir sjálfann mig, meira en að ferðast til að koma með ferðasögur.

Þess vegna er hætt við því að þetta blogg mitt muni eitthvað leggjast í dvala. Hef ekki nokkurn einasta áhuga á að þetta verði blogg með ferðasögu: “Dheli var stórbrotin borg, mikið af fólki. Ég sá mann spila á flautu með tilheyrandi slöngu dansandi upp úr körfu og blabla...” Vil þó ekki útiloka neinar færslur, ef mér dettur eitthvað sem mér finnst eiga heima á blogginu og er í sömu mund nálægt interneti, þá getur allt gerst.

Það er ótrulega spennandi tilhugsun að fara í allt annan menningarheim núna eftir örfáa daga. Frábært að maður skuli fá tækifæri til að gera svona lagað. Þetta verður snilld.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Haltu þér bara frá fuglaflensunni..

February 23, 2006 at 6:27:00 PM GMT+1

 
Blogger hs said...

annars væri ótrúlega huggulegt ef þú bloggaðir frá indlandi.
fyrir okkur hin að anda léttar og jafnel að njóta góðra frásagna.

knus
hs

February 26, 2006 at 1:39:00 AM GMT+1

 

Post a Comment

<< Home