Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Saturday, February 04, 2006

Arkitektúr og skipulag: Rem Koolhaas til Íslands

Síðustu áratugi hefur gengið frekar illa að skipuleggja Reykjavík. Núverandi borgaryfirvöld fá þó prik í hattinn fyrir að fá einn áhrifamesta arkitekt nútímans til að hjálpa sér, sjálfann Rem Koolhaas. http://en.wikipedia.org/wiki/Rem_Koolhaas Stórfréttir. Hlutverk hans er að vera sérlegur ráðgjafi í sambandi við uppbyggingu Vatnsmýrarinnar.

Spennandi verður að sjá hvað Rem mun hrista fram úr erminni. Það er nefnilega ekki víst að það verði það sama og kaffihúsadýrin í 101 munu ímynda sér. Án þess að verða of fræðilegur ætla ég að reyna að gefa lesendum örstutta innsýn í hugmyndafræði Koolhaas.

Hugtakið “borg” er talsvert öðruvísi hjá Koolhaas. Heimurinn verður ein stór borg. Borgarmynd, þar sem bílar og verslunarmiðstöðvar eru allsráðandi, er það sem koma skal. Í stað þess að vinna á móti áhrifum markaðsafla á borgarskipulag tekur hann beinlínis útgangspunkt í þessi öfl. Yen, Euro og Dollars verður að formúlunni YES. Heimsvæðing er það sem koma skal. Hlutverk arkitektsins er að vinna eftir þörfum markaðsaflanna án þess að reyna að breyta heiminum. Þannig hafa skýringarmyndir (diagrams) verið afgerandi þáttur í hönnun. Hlutverk arkitektsins sem listamanns á þarna ekki upp á pallborðið.

Flugvellir spila stórt hlutverk í hugmyndafræði Koolhaas. Í heimi þar sem allt gengur út á viðskiptaferðalög mun fólk eyða gríðarmiklum tíma á flugvöllum. Samkvæmt því á flugvöllurinn að vera n.k. miðpunktur hverrar borgar. Fólk sem lifir og hrærist í heimsvæðingunni þarf ekki á heimili að halda, frekar bækistöð nálægt flugvelli. Fólk sem vill koma sér upp heimili getur svo búið í úthverfum, í nægilegri fjarlægð, þar sem það getur grillað lambalærið sitt í friði.

Samkvæmt þessum fræðum er alveg eins líklegt að Koolhaas muni leggja til að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað. Ef hann kemur með þá hugmynd verður spennandi að sjá hvernig hann hugsar landið allt og tengsl þess við Reykjavík. Ef hann hinsvegar kaupir hugmyndir borgaryfirvalda um að láta völlinn fara, þá er alveg eins líklegt að Vatnsmýrin verði að einni stórri viðskiptamiðstöð með himinháum blokkum og með nóg af verslunarmiðstöðvum. Reykjavík mun eiga sitt “Wall Street”. Annar miðbær, eins og við þekkjum hann í dag, mun ekki verða að veruleika.

Eins og staðan er í dag er almennt álitið að byggð í Vatnsmýrinni sé hin endanlega lausn fyrir Reykjavík, n.k. töfralausn. Risavegir eins og Miklabraut og stóru blokkirnar í Breiðholtinu voru ekki ósvipaðar töfralausnir á sínum tíma. Þrátt fyrir að hugmyndafræði Koolhaas sé á margan hátt spennandi og eigi vel við í dag, þá er hún ekki endilega lausnin í Reykjavík. Í því samhengi hefði ekki verið vitlaust að leita til danska arkitektsins Jan Gehl. http://en.wikipedia.org/wiki/Jan_Gehl Í hugmyndafræði hans kemur fólkið fyrst og svo bíllinn.

Það er alveg ljóst að landið allt verður að taka með inn í reikninginn hvað varðar færslu flugvallarins úr Vatnsmýri. Þess vegna er það einlæg von mín að Rem Koolhaas muni staldra við og sjá í gegnum töfralausnir, spyrja stærri spurninga en gert er í dag og sjá landið í heild sinni í stað þess að einblína á Reykjavík. Það er kominn tími til að Íslendingar staldri við og hugsi málið, í stað þess að stökkva á töfralausnir.

9 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Flott grein..!!!

February 5, 2006 at 7:39:00 PM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

mjuög upploýsandi og vel skrifað. Mér finnst að þú ættir að senda þetta í Fréttablaðið eða Moggann, því greinin er mjög upplýsandi fyrir umræðuna um þróun miðborgarinnar.

gamli

February 6, 2006 at 12:04:00 PM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

finasta fint... i prent medda

gunni

February 6, 2006 at 3:19:00 PM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

Gaman að lesa þetta.

Loksins virðast þessir R-listamenn vera að vakna til lífsins. Þvílík hörmung sem nýja Hringbrautin er. Vonandi leggur arkítektinn til að flugvöllurinn (sem er fáránlegur á þessum stað að mínu mati) víki fyrir fallegu hverfi.

Flugvöllinn burt.
R-listann burt.
Hvort tveggja úrelt og úr sér gengið, sérstaklega R-listinn.


Kveðja, Sverrir.

February 7, 2006 at 12:58:00 AM GMT+1

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Takk öll fyrir jákvæð og uppbyggjandi athugasemdir.

Annars held ég, síður en svo, að Sjálfstæðisflokkurinn verði einhver töfralausn í komandi kosningum. Man ekki til þess að einhver Sjálfstæðismaður hafi hrópað hátt yfir Hringbrautinni þó það hafi fyrir löngu verið augljóst að stefnt hafi í óefni. Held það sé ekki endilega málið að kenna ákveðnum flokkum um að borgarskipulagið hafi þróast í óefni.

Stærsta vandamálið, hjá stjórnmálamönnum beggja fylkinga, hefur verið þessi töfralausnaárátta. Þess vegna fagna ég komu Koolhaas, því ég held að hann muni fá fólk til að hugsa lengra, án þess að stökkva á töfralausnir.

February 7, 2006 at 3:20:00 PM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

Ég held því ekki fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé töfralausn í borgarmálunum. Ég held hinsvegar að Sjálfstæðisflokkurinn muni standa sig betur hvað varðar framkvæmdir og endurskipulagninu borgarinnar sem þarf svo sannarlega andlitslyftingu. Mér finnst stjórnartíð R-listans hafa einkennst af lágdeyðu og framkvæmdaleysi sem endaði með fljótfærnislegri ákvörðun sem átti að heilla borgarbúa upp úr skónum. Nýja Hringbrautarskrímslið er viðbjóður og er til skammar fyrir borgina.

Kveðja, Sverrir.

February 9, 2006 at 5:44:00 PM GMT+1

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Það er rétt. R-listinn hefur ekki staðið sig sérstaklega vel í skipulagsmálum og Hringbrautin er hræðileg. Ef Sjálfstæðisflokkurinn vinnur, þá allavega vona ég að þeir geri betur. Því má þó ekki gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn hefur langmest verið við völd og á þeirra valdatíma voru þeir svo sannarlega ekki að gera rósir í skipulagsmálum. Stærsta vandamálið í gegnum tíðina hefur þó verið skortur á uppbyggjandi umræðu um skipulagsmál. Það er ekki fyrr en nú að fólk er byrjað að ræða þetta af einhverju viti.

Annað vandamál við sem ég hef tekið eftir er hvernig unnið er að málum í skipulagsráði. Ef lesnar eru fundargerðir frá þessum fundum þá líkjast bókanirnar helst morfís kappræðum þar sem allt gengur út á að kafa andstæðinginn í kaf, einungis til að kafa hann í kaf. Þetta á við um báðar fylkingar.

Það er kominn tími til að stjórnmálamenn Reykjavíkur fari hreinlega að temja sér einhvern vott af þroska og auðmýktar, í stað þessarar endalausrar sjálfsupphafningar alltaf hreint.

Ég auglýsi því eftir breyttu og þróaðra hugarfari hjá stjórnmálamönnum beggja fylkinga. Með breyttu hugarfari geta báðar fylkingar gert góða hluti.

Kv. Bjarki

February 9, 2006 at 7:05:00 PM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

Ég var einmitt að ljúka kúrs sem heitir Human Dimension þar sem Jan Gehl var aðal fyrirlesari og hann minntist einmitt oft á Rem Koolhaas og að maður ætti ekki að taka hann til fyrirmyndar, hann tók einmitt lika Reykjavík oft sem dæmi um lélegt skipulag,, kemur ekkert á óvart.
svoldið sein að commenta en þú skrifar hvort sem er svo sjaldan ;)

March 23, 2006 at 11:48:00 PM GMT+1

 
Anonymous Anonymous said...

Sael Svava. Jan Gehl er mjog godur. Hann aetti ad koma til Reykjavikur og taka til hendinnar likt og hann gerdi i Sydney. Thad er mikilvaegt ad baeta nuverrandi byggd Reykjavikur. Byggd i Vatnsmyrinni mun ekki leysa skipulagsleg vandamal Reykjavikur i heild sinni. Thetta er spurning um sma forgangsrodun.

Og ja, eg skal fara ad skrifa eitthvad fljotlega.

Kv. Bjarki

April 1, 2006 at 1:56:00 PM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home