Auglýsingar í sjónvarpinu
Í allri gúrkutíðinni á sumrin er oft mun áhugaverðara að horfa á auglýsingar en fréttir. Margar, af þessum auglýsingum, ná þó ekki til manns og yfir þeim steinar maður einfaldlega. Sumar er því miður af verri endanum og þeim bölvar maður óspart í hljóði. Lítum á nokkur dæmi.
Oft á tíðum eru fyrirtæki að styrkja einstaka dagskrárliði og þá kemur einhvers konar auglýsingaskot á undan. Actavis er eitt þessara fyrirtækja. Í þeirra skoti eru glaðar fígúrur að berja trommur sem líta út eins og pillur. Hver er boðskapurinn? Munið eftir okkur, við gefum (seljum ykkur á okurverði) pillur svo þið verðið glöð! Þetta er auðvitað viss útúrsnúningur hjá mér. Vil heldur ekki gera lítið úr noktun lyfja, þau eru nauðsynleg eins og margt annað. Að auglýsa lyf almennt, er hinsvegar á gráu svæði.
Samkvæmt lögum virðist lítið vera sett út á auglýsingar á lyfjum. Annað er hinsvegar upp á tengingnum með áfengi sem er einfaldlega bannað að auglýsa. Það er þó fremur auðvelt að snúa á lögin í þessu samhengi með því að bæta við smáletri þar sem stendur “léttöl”. Hef í rauninni lítið á móti áfengisauglýsingum. Útfærslur þeirra eru þó oft nokkuð naumar. Í einni auglýsingunni er hljómsveit að spila í fallegu félagsheimili fyrir gamalt fólk úti á landi. Tónlistin breytist í rokk, gamlingjarnir flýja og unga fólkið dansar og drekkur bjórinn sem það hafði smyglað inn rétt áður. Þetta er hvorki fyndið né sniðugt og er í raun illgjarnt. Ef stjórnmálamennirnir vilja gera eitthvað fyrir gamla fólkið, eins og það talar svo mikið um, þá eiga þeir að banna þessar auglýsingar. Þarna er verið að efla fórdóma í gróðaskyni. Hér má finna auglýsinguna og einstaklega dræma útskýringu á henni. http://www.sagafilm.is/is/framleidsla/grein/store4/item1273/
Versta auglýsing sumarsins er álíka andsamfélagsleg og bjórauglýsingin. Þetta er auglýsingakeðja Byko. Gæinn sem þarf að alltaf að fá lánað frá nágrannanum. Fyrir vikið er hann dæmalaust hallærislegur og nágrannarnir fyrirlíta hann og reyndar fjölskylda hans líka. Hér eru hugmyndaleysinu og heimskunni engin takmörk sett. Hvað er af því að fá lánað hjá nágranna sínum? Hvað er að því að lifa í samfélagi við annað fólk? Hvers á fólkið að gjalda sem hefur ekki efni á því að kaupa sér borvél eða að kaupa eitthvað yfirleitt? Byko segir okkur að svoleiðis fólk sé púkó.
Þrátt fyrir að ofantaldar auglýsingar fari mikið í taugarnar á mér þá verð ég alltaf jafn glaður þegar ég sé auglýsingarnar frá Icalandair, með landsliðsmanninum í knattspyrnu. Hvert einasta skot er útpælt og einnig tónlistin. Snilld. Hér er nefnilega ekki reynt að höfða til veikleika eða fordóma fólks. Hvað okkur dreymir um er stóra spurningin. http://www.kvikmynd.is/
Það ætti að endurskoða hvað má auglýsa og ekki síður, hvernig má auglýsa . Nú mundi einhver skamma mig fyrir að virða ekki tjáningarfrelsið. Það er hinsvegar ekkert frelsi fólgið í auglýsingum sem ala á fordómum. Ef lélegum vinnubrögðum yrði settar einhverjar skorður í auglýsingagerð þá er engin spurning að skapandi vinnubrögð fengju að njóta sín og meira bæri á skemmtilegum auglýsingum.
2 Comments:
Icelandair auglýsingin er góð en ekki eins góð og auglýsingin frá Kjarnafæði. Fyrirsætan sem kynnir rafrænu kjötsneiðarnar er þær flæða ljúflega yfir skjáinn undir seiðandi tónlistinni skapa áreynslulausa en jafnframt ógleymanlega samlíkingu.
July 13, 2006 at 9:10:00 PM GMT+2
Sammála þér. Byko auglýsingarnar eru fáránlegar. Ég gerðist meira að segja svo djarfur að hringja í þann sem ber ábyrgðina á þessari auglýsingu og sagði að vegna þessarar auglýsingar myndi ég hugsa mig tvisvar um áður en ég verslaði í Byko. Þessi auglýsing ber ekki bara slæman boðskap heldur er hún illa gerð og illa leikin. Það versta er að hún hefur almennt mælst vel fyrir hjá fyrirtækinu sem lét framleiða hana og þar virðast allir hæstánægðir með hana. Þessi aðili sem ég talaði við ákvað að slíta samtalinu þegar ég spurði hvort honum fyndist ekki rétt að draga auglýsinguna í efa út frá siðferðilegum sjónarmiðum, og þá sérstaklega með tilliti til náungakærleiks. Aðilinn sagðist ekki hafa tíma til að ræða þetta, hann hafði eitthvað þarfara að gera við tímann, sennilega eitthvað sem býr til nógu mikla peninga.
Kveðja,
--Sverrir.
July 15, 2006 at 11:56:00 PM GMT+2
Post a Comment
<< Home