Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Tuesday, June 06, 2006

Hugsum stærra

Það er ótrulega auðvelt að bölva stjórnmálaflokkum á Íslandi og reyndar er ýmis aðfinnsla það auðveldasta sem til er. Hvar eru skilin milli aðfinnslu og gagnrýni? Hverjar einustu kosningar eru á einhvern hátt sögulegar. Hvernig getur það staðist? Þessar kosningar voru ekkert merkilegar. Allir krakkaormarnir fá leikskólapláss og ef fólk hefur þurft að borga fyrir barnið sitt, þá bara ýkt óheppið að eignast barn!

Ég veit að þetta hljómar á hálf neikvæðu nótunum og það er á spurning hvort ég sé að gagnrýna eða finna að. Hef heldur ekkert á móti gjaldfrjálsum leikskólum og er almennt mjög hlynntur skandinavísku velferðarkerfi. Aftur á móti er þetta offramboð á fjölmiðlum sem fjalla um það sama þreytandi. Erum við Íslendingar ekki pínulítið að hjakka í sama farinu? Upplýsing er góð fyrir samfélagið en hún missir eflaust marks þegar það verður of mikið af henni.

Megin ástæða þessa pirrings í mér er þó eflaust “flashback” sem ég fékk um daginn frá Indlandi. Eitt kvöldið í Nýju-Delhi vorum við að reyna að finna veitingastað í nálægð við “vestræna” hverfið en þar mátti finna McDonalds, Debenhams og allar hinar keðjubúðirnar. Ef við hefðum dottið inn á McDonalds þá hefði útsýnið verið fátækar mæður að betla fyrir sig og börnin sem eru á sama tíma skríðandi í götukantinum. Ekki beint aðlaðandi leikskóli.

Nú er ég orðinn enn verri. Matandi bloggið mitt með “heimurinn er ömurlegur” skrifum. Hætti því og varpa fram hugmynd sem er þessi: Dagblöðin verða sameinuð í eitt stórt blað og NFS leggur sig niður (fréttirnar þar eru hvort sem er annað hvort þær sömu og hjá RÚV eða þá um sjálfa fréttamennina og eigendur). Þess í stað verður eitt af indversku blöðunum dreift frítt inn á heimilin.

Íslendingum gefst þar með kostur á að fylgjast með þjóðfélagsumræðu af allt öðrum toga. Í kjölfarið verður mögulegt fyrir fólk að bera saman tvær ólíkar þjóðfélagsumræður. Gildi upplýsingarinnar er komið á æðra plan. Á hverjum einasta degi hefur fólk möguleikann á að sjá lifið í allt öðru ljósi og læra af því. Á sama tíma og fólk fylgist með kosningabaráttu í Reykjavík getur það fylgst með framvindu mála í hinni áralöngu deilu Indverja við Pakistana svo dæmi sé tekið. Í bland rekst það á framandi fyrirsagnir eins og “Apavæðing í stórborgum” eða getur lesið einkamáladálkinn, þar sem fólk tekur sérstaklega fram að stétt skipti ekki máli.

Með tíð og tíma færu eldheitir Íslendingar að blanda sér í umræðuna á Indlandi og jafnvel skrifa þar í blöðin. Indverjar fengju þar með ferska sýn á sitt eigið samfélag sem gæti vonandi skilað sér í þróun samfélags þar í landi. Hjálparstarf í formi hugmynda. Fjármagn til Indlands myndi aukast vegna vaxandi ferðamennsku sem og hugsanlegra peningagjafa í hjálparstarf.

Hinsvegar þarf einnig að huga að rekstrargrundvelli slíkrar blaðaútgáfu. Blaðinu yrði dreift með þessu eina stóra dagblaði okkar Íslendinga. Eini umtalsverði kostnaðarliðurinn yrði útprentun á blaðinu sem væri hugsanlega unt að fjármagna með umfram auglýsingjatekjum frá dagblaðinu stóra. Annars er ég opinn fyrir fleiri góðum rekstrarhugmyndum þar sem kunnátta mín á þessu sviði er takmörkuð.

Allt offramboðið á upplýsingum hér á landi er mjög jákvætt að einu leyti. Það endurspeglar mikinn áhuga á þjóðfélaginu sem og mikinn áhuga á að móta það í umræðum. Hæfileikarnir og hugmyndirnar eru til staðar. Þess vegna væri einmitt kjörið að nota þessa krafta í stærra samhengi í stað þess að einblína alltaf á Ísland. Það eru lönd þarna úti sem þurfa á ferskum hugmyndum og eldmóði Íslendinga að halda.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home