Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, July 02, 2006

Kirkjan og ungt fólk

Var að lesa viðtal í Fréttablaðinu frá 1. júli við Sigurbjörn Einarsson, biskup, sem átti 95 ára afmæli um daginn. Virkilega umhugsunarvert margt af því sem hann segir og mæli ég eindregið með að fólk lesi þetta viðtal. Eins og gefur að skilja hefur íslenskt þjóðfélag breyst umtalsvert. Húslestrar voru í hans barnæsku vegamikill þáttur sem þjappaði fólki saman í fátæktinni. Það sama er hægt að segja um trúnna sem skipaði mun stærri sess en hún gerir í dag.

Trúin er hinsvegar ekki í tísku hjá ungu fólki í dag. Þetta var ein niðurstaðan í skemmtilegu spjalli í skemmtilegu partýi um daginn. Stelpan sem ég talaði við hafði eins og ég, aldrei lent í samræðum um trúmál í veislu áður. Athyglisvert.

Mjög margir, sérstaklega ungt fólk, hefur það gott í dag. Fylgifiskur góðæris virðist vera afskiptaleysi af trú. Maður heyrir fólk oft segja að það trúi á sjálft sig. Á sama tíma er mjög algengt hjá ungu fólki að vera þátttakendur í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka. Þrátt fyrir að vilja ekki trúa á neitt þá er fólk engu að síður komið í söfnuð. Í söfnuðum nútímans lærir þetta fólk að ”plotta”, ekki aðeins gegn pólitískum andstæðingum heldur líka gegn eigin fólki. Þegar það er ekki að plotta gefur það út innantómar ályktanir til að hafa áhrif í þjóðfélagsumræðunni.

Þegar heimasíður ungliðahreyfinganna er nánar skoðaðar, þá stendur ekkert um málefni Íslands hvað varðar þróunaraðstoð í 3. heiminum og almenn afstaða til mannúðarmála er fremur óskýr. Enginn virðist gefa því gaum hversu skammarlega lítið íslenska ríkið gefur til þróunarmála. Ég efast ekki um að það sé mikið af ungu, hæfileikaríku fólki í þessum ungliðahreyfingum. Kraftar þeirra eru einfaldlega illa nýttir á þessum vettvangi.

Þess vegna væri áhugavert ef ungt fólk færi að kynna sér góð störf kirkjunnar og s.s. annarra trúfélaga í auknum mæli. Sumar hugmyndir innan kirkjunnar virka oft gamaldags og í vissum tilfellum þröngsýnar. Þá er ekki þar með sagt að fólk þurfi að hafna henni og gildi trúar með öllu. Þarna er einmitt kjörinn vettvangur fyrir gangrýna hugsun ungs fólks. Á sama tíma má íslenska kirkjan vera duglegri að miðla hugmyndum sínum út á við.

Það er engin tilviljun að gamalt fólk sé trúrækið. Þetta fólk man eftir Íslandi sem fátæku landi, þar sem trúin var mikilvægur þáttur í að þjappa fólki saman. Trúin í dag getur gegnt öðru hlutverki. Þjappað fólki saman til að horfa út fyrir landsteinana og koma að gagni úti í hinum stóra heimi.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home