Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Tuesday, July 18, 2006

Öðruvísi virkjun

Las um daginn bókina Draumalandið eftir Andra Snæ. Mögnuð bók. Í megindráttum er hvatt til þess að á Íslandi verði hugmyndaríkt og skapandi atvinnulíf sett á oddinn, á meðan töfralausnum á borð við stóriðju er kastað fyrir borð. Ætla þó ekki að gera bókinni nánari skil þar sem vel hefur tekist til við að gera það hér: http://www.tmm.is/default2.asp?strAction=getPublication&intPublId=323 Hinsvegar hvet ég alla og þá sérstaklega þá sem eru fylgjandi virkjunarframkvæmdum að lesa þessa bók.

Það skemmtilegasta við bókina er hvernig hún ýtti undir skapandi hugsun hjá sjálfum mér. Þarna var nefnilega heilmikið af spennandi hugmyndum sem væri áhugavert að fara með lengra. Ein hugmyndin (án þess að ætla að kjafta of mikið frá) er sú að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fylla eigi í lónið þegar stíflan er tilbúin. Snilld.

Gríðarleg orka, af öðrum toga, myndi leysast úr læðingi ef lónið yrði tómt. Það yrði með eindæmum áhrifaríkt að horfa á jafn stóra stíflu, sem tók mörg ár í framkvæmd með tilheyrandi miklu vinnuafli, ekki í notkun. Virkjunin yrði stærsta tákn í heimi fyrir skammsýni og þröngsýni áhrifamikilla manna, á meðan tómt lónið vegi þyngra sem sigurtákn skapandi hugsunar yfir hin neikvæðu öfl.

Manngerð fyrirbæri, af stærðargráðu á við Kárahnjúkavirkjun, eru ótrúlega áhugaverð. Virkjunin gæti í því samhengi verið hugsuð sem n.k. skemmtigarður þar sem hugtakið ”stærð” er rækilega tekið fyrir. Unt væri að leyfa almenningi að ganga inn í göngin þar sem vatnið hefði átt að renna og fleira í þeim dúr. Fólk gæti í þessu samhengi kynnst verkfræðilegu hugviti mannsins.

Þarna í kring yrði þjónusta við ferðamenn styrkt til muna. Staðurinn allur og náttúran yrði enn eitt aðdráttaraflið fyrir erlenda gesti, jafnvel það stærsta og myndi undirstrika gildi ferðamennsku á Íslandi.

Það er ótrúlega margt áhugavert í stöðunni. Kjörinn vettvangur fyrir opna hugmyndasamkeppni.

Engu að síður átta ég mig á því að þessar hugmyndir eru í djarfari kantinum. Sérstaklega á meðal hagkvæmnishneigðra. Fjármagn er þó hægt að endurheimta, ólíkt nátttúrunni sem færi undir vatn. Einnig væri mögulegt að komast til móts við kreppuhræðslupúkana, sem ríkisstjórn landsins amast við að búa til. Virkjunin yrði vogaskál á raunverulega neyð, mögulegt væri að nota hana ef alvöru kreppa kæmi upp. Hugtakið kreppa, sem er svo gríðarlega ofnotað þessa dagana, yrði hugsað upp á nýtt.

Skapandi hugsun verða einkunnarorð Íslands. Hugsunin gæti haft margföldunaráhrif út í hinn stóra heim. Þarna er alvöru útrás á ferðinni.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home