Formaður og geitungur
Netið er loksins komið í lag. Þar af leiðandi er ég búinn að athuga hvað hefur gerst á Íslandi síðustu vikur. Ekkert hefur gerst en ýmislegt hefur gerst hjá mér.
Fyrir það fyrsta er ég orðinn formaður körfuknattleiksliðsins okkar. Nú fæ ég loksins tækifæri til að leggja upp með dagsorden og biðja einhvern um að taka niður referat. Set sömuleiðis markið hátt fyrir liðið okkar og stefni jafnvel á að það spili einhvern leik. Þetta blogg mun því hugsanlega breytast í nokkurs konar íþróttablogg, tölfræði leikmanna verða gerð góð skil og jafnvel verður leikskipulag tekið til umræðu, eða réttara sagt; sett á dagsorden.
Um daginn gerði ég nokkuð sem alla hefur dreymt um, fór einn í bíó. Tilfinningin var áhugaverð og góð. Aftur á móti varð ég hálf skelkaður þegar hurðinni var lokað og ég tók eftir að ég var aleinn inni í salnum. Fékk auk þess hálfgert samviskubit yfir hvort þeir væru bara að setja myndina í gang fyrir mig. Engu að síður tók ég þá dramatísku ákvörðun, í fyrsta skipti á ævinni, að ganga út áður en myndinni lauk. Myndin var ekki skemmtileg.
Lenti svo upp á kant við geitung nú á laugardaginn. Svo vildi til að hann og reyndar annar flugu inn í eldhús, í algjöru leyfisleysi. Félagi hans sá þó að sér og flaug út, á meðan hinn þrjóskaðist við. Flaug bara um og hafði gaman af. Vegna dæmalausrar fóbíu var mér ekki skemmt. Tók dagblað og setti mig í stellingar. Ég varð að grípa til minna ráða. Flugan er tákn alls sem ég er hræddur við.
Þessi dýr búa þó yfir yfirburða flugtækni og sálfræðilegri herkænsku. Kalt stríð einkenndi því fyrri hluta orrustunnar. Siðferðisleg álitamál skutu einnig upp kollingum, er rétt að gera flugu mein? Setti siðferðina þó til hliðar, lagði til atlögu og sló til geitungsins. Hann haggaðist hvergi og það þurftu fleiri högg. Undir lokin var flugan orðin veikburða og mér leið reyndar ekkert allt of vel yfir því. Betra var þó að klára verkefnið.
Geitungar eru annars stórmerkileg dýr. Eru í raun svo lítil en samt svo valdamikil. Suð, gulur og svartur og flugan hefur heiminn í hendi sér.
5 Comments:
gott hjá þér að stúta þessu ógeði.
ég hef aldrei verið neitt hrikalega hrædd við geitunga , en var stundin af einum slíkum um daginn og guð minn hvað það var vont. hélt barasta að það þyrfti að taka handlegg af við öxl til að létta á verkjunum.
fyrir mer mega þeir allir deyja.
hs
September 12, 2006 at 11:20:00 AM GMT+2
Gott að heyra að körfuhnattlið AAA sé komið í ábyrgðafullar hendur. Ætlaru að endurraða uppsetningunni eitthvað? Henda Magnúsi í vörn og kvetja Jóhann til að taka fleirri sjálfstæð skot?
ég fylgist spennt með...
September 17, 2006 at 4:50:00 AM GMT+2
haha þessi geitungasaga er kostuleg, en á hvaða mynd fórstu? Ég hefði fengið samviskubit að ganga út af henni víst bíoið var að hafa fyrir því að setja hana á...
September 18, 2006 at 1:06:00 AM GMT+2
Gott hjá þér þetta með körfuboltaliðið - ef þig vantar góð ráð frá einum reyndum liðstjóra, framkvæmdastjóra, fyrirliða, leikstjórnanda, taktískum og strategískum stjórnanda í leikskipulagi - then feel free to call me.
Skilo reyndar ekki alveg þessa flugnafóbíu - segir reyndar í dr Faustus eftir Goethe, "Þú herra flugna,flóa og lúsa" og á þá við skolla sjálfan. Kannski er eitthvað díabólískt við geitunga eftir allt saman...
gamli
September 20, 2006 at 3:25:00 PM GMT+2
Veistu, í raun eru geitungar ósköp vitlausir þó þeir séu ógnandi á köflum.
Síðasti vinnudagurinn minn í Fossvogskirkjugarði í sumar einkenndist af miklu góðviðri. Þá var nestið borðað úti og sóttu geitungar í það. Það endaði með því að mér tókst að fanga einn geitung í skyrdollu og gaf svo flokkstjóra mínum hann sem gæludýr í kveðjugjöf.
Hver segir svo að geitungar geti ekki verið krúttlegir (að því gefnu að þeir fljúgi ekki um frjálsir)?
September 22, 2006 at 12:00:00 AM GMT+2
Post a Comment
<< Home