Osló
Lagðist í víking til framandi landa í haustfríinu. Noregur og Svíþjóð. Fór reyndar ekki út úr rútunni þegar hún var í landi Svía. Get þó sagt að vegakerfið virkaði sem skildi. Svíar hafa stjórn á hlutunum. Ferðalagið var þó helgað Noregi og höfuðborginni Osló.
Á margan hátt var Osló hugguleg borg, ýmis notaleg hverfi og fallegir garðar. Hinsvegar er nokkuð óljóst í hvorn fótinn hún vill stíga. Á köflum var nefnilega nokkur stórborgarbragur yfir henni með háum byggingum en þó á mjög takmörkuðu svæði. Einnig var ein aðalgata og það fór ekkert á milli mála, gríðarlega löng og stór og náði hún alla leið að konungshöllinni. Skemmtilegur stórhugur.
Ráðhúsið var sömuleiðis gríðarlega stórt og tignarlegt. Klukkuhringing á slaginu sex en aðeins af öðrum toga. Klukkuhringjarar Noregs eru nefnilega gríðarlega nýjungagjarnir og spila þeir gjarnan þekktar laglínur, eins og "Hit me baby one more time" með Britney Spears. Sköpunarkraftur og metnaður í nýju ljósi.
Skuggalegar götur eru oftar en ekki vel faldar í evrópskum, nútímavæddum borgum. Það á þó ekki við um Osló. Einn daginn gékk ég allt í einu í götu þar sem einn var að sprauta sig og tveir aðrir kveiktu sér í frumstæðum pípum. Þetta var óþægileg sjón. Í annarri götu var vart þverfótað fyrir ógæfufólki í samningaviðræðum. Annað hvort er eiturlyfjavandi margbrotið fyrirbæri eða þá að Norðmenn eru að standa sig skammarlega illa hvað varðar forvarnir.
Þrátt fyrir stórborgarbrag með langri göngugötu og stóru ráðhúsi þá er erfitt að velja út sérstakt kennileyti eða benda á hvað er einkennandi við borgina. Hún er einfaldlega höfuðborg Noregs. Þá spyr maður sig: hvað er einkennandi fyrir Noreg og norska menningu? Það fyrsta sem mér datt í hug voru þessar skemmtilegu peysur þeirra og svo brúnostur. Sá samt ekkert af því. Það er s.s. ómögulegt að draga fram eitthvað dæmigert norskt. Þess vegna er landið spennandi.
Þetta voru frábærir dagar í Osló, þökk sé ágætri borg en mest skemmtilegu vinafólki mínu sem býr í borginni.
1 Comments:
Já ég veit ekki alveg hvað mér finnst um Osló. Ég sá kannski ekki mikið af henni í sumar en ég held að þetta sé ekki borg sem maður heimsækir af því bara. Grönnelukka og Grænland voru samt skemmtileg hverfi.
Og já ég er ekki alveg að fatta hve Norðmenn elska mikið brúnost.
October 30, 2006 at 10:01:00 PM GMT+1
Post a Comment
<< Home