Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Saturday, September 30, 2006

Indland: Veikindin í Pushkar

Eftir ca. vikudvöl á Indlandi vorum við Johan á leiðinni frá borginni Jaipur til lítils hindúabæjar sem heitir Pushkar. Í lestinni fann ég fyrir líkamlegum óþægindum. Lagði mig og dreymdi að ég væri orðinn geislavirkur. Var allur svona grænglóandi. Heilastarfssemin var orðin helst til of flippuð fyrir minn smekk.

Eftir 6 tíma í lest og þrem korterum með rútu, þar sem var fleira fólk en nokkrar hræður, vorum við komnir til Pushkar. Í bænum er að finna hof hindúaguðsins Brahma, guð sköpunar. Fyrir vikið er bærinn og vatnið sem hann stendur við mjög helgur meðal hindúa og koma þeir til bæjarins í stórum stíl. Ennfremur var vart þverfótað fyrir heilögum kúm sem og vestrænum túristum. Túristar þessir voru helst til of flippaðir fyrir minn smekk. Draugskakkir, illa klipptir og langt á eftir sinni hippatíð. Get alveg sagt að aðstæður voru framandi.

Fundum svo loksins hótelið. Kannski ekki eins fínt og SAS hótelið en gott útsýni yfir vatnið. Var orðinn fárveikur og hélt að lífdagar mínir voru taldir, þarna í glundroða hindúatrúar. Þar sem ég horfi yfir vatnið kemur nokkurs konar starfsmaður á hótelinu og byrjar að hvísla einhverju að mér. Hann var að reyna að selja mér hass. Sagði nei og fór inn í herbergi að leggja mig. Vakna svo allt í einu þegar gaurinn kemur inn, sigrihrósandi og dregur fram bjór. Langaði ekki í bjór. Gæinn verður seint sakaður um að skilja aðstæður of vel en fær þó prik fyrir viðleitni.

Í ógleði minni og verkjum fær læknasonurinn Johan þá ágætu hugmynd að gefa mér verkjalyf. Fæ litla töflu sem gott orðspor fór af. Sofna, síðan kemur félaginn með mat og vekur mig. Er mjög þreyttur en reyni að borða, sofna samt iðulega í miðjum bita. Reyni líka að tala aðeins en það gékk illa. Varð einhvers konar blanda af dönsku, ensku, íslensku og hindú. Ég sofna aftur.

Vakna um miðja nótt, heyri tónlist. Einhvers konar tónlist, hraður taktur en markviss, angurvær og dulúðarfullur söngur. Veit ekki hvaðan tónlistin kom en fannst hún nálgast mig. Var samfærður um að það ætti að nema mig á brott. Fór út á verönd og sá bæinn við vatnið.

Þegar við vöknuðum um morguninn fundum við okkur stað til að borða morgunmat. Leið enn illa og jafn sannfærður um að dagar mínir væru taldir. Þá uppgötvaði Johan að taflan sem ég hafði fengið hefði verið svefntafla. Það útskýrði ýmislegt undarlegt kvöldið áður. Seinnipartinn sama dag var ég orðinn mun betri. Sá kýr og menn verða að einu afli. Staðurinn var fallegur og eitthvað gott var á sveimi.

Þrátt fyrir ótrúlega vanlíðan í framandi umhverfi hefði ég ekki vilja missa af veikindunum. Upplifun af neikvæðum toga skilur nefnilega mun meira eftir sig. Þrátt fyrir að teljast neikvæð þá er hún samt uppbyggjandi. Skilningur á gleði, fegurð og kærleika jókst til muna. Veikindin voru góð.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hvernig komst gæinn inn í herbergið þitt?

October 4, 2006 at 10:40:00 AM GMT+2

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Hurðin var ekki alveg lokuð, svona til að fá smá gegnumtrekk. Þó svo, að hurðin hefði verið lokuð, þá hefði hann örugglega samt einhvern veginn galdrað sig inn.

October 4, 2006 at 6:00:00 PM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home