Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, December 28, 2006

Ársins

Hef mismikið álit á fyrirbærinu manni ársins. Tímaritið Nýtt Líf valdi Dorrit Moussaieff konu ársins. Þá er manni spurn: hvað voru íslenskar konur að gera árið 2006? Að sjálfsögðu ber að hrósa forsetafrúnni fyrir framlag sitt til góðgerðamála. Efast þó um að hún sé sú eina sem hafi veitt lítilmagnanum athygli. Hún hefur hinsvegar greiðari aðgang að fjölmiðlum en aðrir og henni leiðast þeir ekki.

Þó má segja að ýmsir sem hljóta nafnbót af þessu tagi eigi hana skilið. Líka góð dægurfluga í skammdeginu. Nauðsynlegt er að dreifa athygli fólks frá hinu endalausa myrkri sem nú sveimar yfir. Maður spyr sig samt af hverju val af þessu tagi þarf alltaf að vera svo persónubundið. Er það ekki frekar ein sterk heild sem stuðlar að velgengni frekar en eitt stykki Hannes Smárason? Er ekki líka kominn tími á eitthvað nýtt “ársins”? Hvað er arkitektúr ársins 2006?

Hvað stendur upp úr í umhverfi okkar á þessum tíma góðæris? Erfitt er að öðlast yfirsýn á nýjum arkitektúr þessa árs og þess vegna auglýsi ég eftir tilnefningum í athugasemdakerfinu að neðan. Þetta getur verið gott borgarskipulag, landslagsarkitektúr, einstakar byggingar eins og stórt verlsunarhús og allt niður í fuglahús úti í garði. Þarf ekki endilega að hafa verið tilbúið nákvæmlega á árinu, aðalmálið er að draga fram eitthvað gott í umhverfi okkar síðustu ára.

Nú er bara málið að koma með tilnefningar í athugasemdakerfið eða senda mér tölvupóst á bjarkigh hjá gmail.com. Verðlaunaafhending auglýst síðar. Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Ég ætla að íhuga þetta...
Takk fyrir síðast, það var stuð á kaffi, ertu búin að kíkja á myndina á blogginu "okkar" ?
Kv.
Ástríður

December 29, 2006 at 3:53:00 AM GMT+1

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Takk sömuleiðis. Já, þessi mynd er all sérstök.

December 29, 2006 at 6:05:00 PM GMT+1

 

Post a Comment

<< Home