Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Friday, February 22, 2008

Lokaverkefnið: Íslenskt fjölskyldusetur

Hef lengi æltað að blogga um lokaverkefnið en hef verið upptekinn við annað. Á þennan link hér er hægð að sjá brot úr verkefninu á heimasíðu arkitektaskólans. Til að sjá myndirnar stærri er hægt að klikka á þær. Textinn útskýrir verkefnið í megindráttum og mun ég þess vegna ekki útskýra verkefnið sjálft í þessari færslu. Mun frekar koma inn á forsendur verkefnisins, ferli þess og almennar vangaveltur.

Verkefnið heitir: “Et islandsk familiested – mødet mellem det menneskeskabte og naturen”

Í verkefninu vann ég með landskika sem ég og einn frændi minn munum erfa af ömmu okkar. Landið er í Ölfusi, sunnan við Ingólfsfjall og þjóðveg nr. 1. Á landinu var eitt sinn lítill kofi en annars var þetta auður melur. Með tímanum var svo veittur lækur inn á landið og trjám var plantað til að skerma á móti sterkum norðanvindi.

Á svæðinu í kring eru nokkrir litlir sumarbústaðir. Flestir þeirra líta þó frekar fátæklega út þar sem lítið er gert til að halda þeim við og nútímavæða þá. Þeir hafa færstir hverjir rafmagn eða heitt vatn og eru blessunarlega lausir við heita, ameríska nuddpotta. Sömuleiðis er lítið gert til að halda gróðri í skefjum. Þessi vanræksla á gróðri og húsum gefur svæðinu þó dulúðarfulla stemningu. Svæðið er á vissan hátt eins og hús gamallar konu sem öll börnin í hverfinu eru hrædd við (eins og í myndinni “Stand by me” að mig minnir).

Hafði gengið með þetta verkefnaval lengi í maganum, allt síðan ég var að ferðast á Indlandi fyrir tveimur árum. Það sem gerði verkefnavalið spennandi var að hafa þennan landskika þar sem ég gæti í fljótu bragði gert hvað sem er, þar sem ég var eigandi landsins. Með verkefninu gat ég virkilega spurt sjálfan mig hvað ég eiginlega vildi með arkitektúr?

Fljótlega var þó eitt af markmiðum verkefnisins að stúdera íslenska arkitektasögu, frá landnámi til dagsins í dag, til að átta sig á hvað væri einkennandi fyrir íslenska byggingararfleið. Ennfremur var það veigamikill þáttur að átta sig á íslenskri sumarbústaðarmenningu, þar sem landskikin var skilgreindur sem sumarbústaðarland.

Verkefnið gékk svo í stuttu máli út á að þróa stað fyrir íslenska fjölskyldu yfir langan tíma. Lesið nánar á heimasíðunni hér.

Eitt af því sem heillaði mig hvað mest við tilhugsunina um fjölskyldustað var hvernig mismunandi kynslóðir gátu séð sama staðinn á mismunandi hátt. Sterk upplifun frá ættarmóti einu, þar sem gömul kona sagði frá heimkynnum sínum. Á meðan hún mundi hvernig allt var áður fyrr þá urðum við, yngri kynslóðin, að ímynda okkur fortíðina út frá frásögn hennar og hvernig við sáum staðinn með okkar eigin augum í dag. Frásagnir gömlu konunnar af einhvers konar gjörningi, eins og að hlaða upp steinum sem enn standa í dag, gaf staðnum gildi fyrir hvern og einn.

Verkefnið sýndi fram á nokkurs konar nýja hugmynd að sumarbústaðarlandi. Allt landið er tekið með inn í myndina á löngu tímabili, í stað þess að planta byggingu, með nuddpotti og gasgrilli, einhvern veginn í landslagið, eins og algengt er í dag. Það er gjarnan talað um að vernda eigi lítil hús á Laugavegi, á sama tíma og íslenskt landslag á undir högg að sækja gagnvart fyrirferðarmiklum og þéttum sumarbústaðarhverfum.

Vona að lesendur hafi áttað sig á verkefninu. Ef ekki, þá endilega að varpa fram spurningum.

Friday, February 01, 2008

Gamalt og nýtt

Á fimmtudaginn í síðustu viku litu hlutirnir ekki vel út fyrir Íslendinga. Handboltalandsliðið olli vonbrigðum og borgarstjórnin í Reykjavík var Íslendingum til skammar. Það sem þjóðin þó ekki vissi var að hún hafði eignast nýjan arkitekt þennan sama dag sem var enginn annar en ég. Fyrsta vikan í fullorðinna manna tölu hefur vægast sagt verið góð. Á næstu dögum verður nánar greint frá lokaverkefninu hér á blogginu. Fyrst er það mál málanna, friðun gamalla húsa við Laugaveg.

Ólíkt mörgum Íslendingum hef ég tekið mér langan tíma í að mynda mér skoðun á málinu, það er jú ekki allt sem sýnist. Í stuttu máli voru áður ófriðuð hús friðuð, síðar voru þau aftur ófriðuð í kjölfar þess að borgin keypti þau, reyndar ekki með aflsætti, svo þau yrðu endurgerð. Lítum á málið frá byrjun.

Húsafriðunarnefnd endurskoðar afstöðu sína til þessara húsa. Það er í sjálfu sér ekki gagnrýnisvert þar sem viss vitundarvakning hefur átt sér stað síðari ár hvað varðar íslenska borgarmenningu og umhverfi. Það sem vantaði í þessu samhengi var skýr hugmyndafræðileg sýn á friðun almennt og það sem koma skal í þessum málum í framtíðinni.

Stærsta spurningin er þó eflaust sú, hvort rétt sé að friða þessi hús? Á vefritinu um daginn las ég áhugaverðan pistil þar sem gömlu húsunum var líkt við handritasafn Árna Magnússonar. Árni safnaði hverju einasta handriti, ekkert var of ómerkilegt til að vera með í þessu safni. Allt safnið, “drasl” eða fagurbókmenntir, myndaði eina heild sem bæri að varðveita. Á sama hátt ætti að varðveita allt gamalt á Laugaveginum þar sem þetta gamla myndar svipaða heild og handritasafnið.

Þessi líking er á vissan hátt mjög samúðarfull og falleg. Handrit og byggingar eru þó í eðli sínu tvennt ólíkt. Handritin eru upplýsingar um líf fólks, áður fyrr, á meðan byggingar eru rammi um líf fólks, nú í dag. Starf arkitekta felst í að gera þennan ramma sem mest lifandi og auka þannig vellíðan fólks í daglegru lífi. Friðun gamalla húsa, götumynda og umhverfis, getur gegnt veigamiklu hlutverki í að skapa þennan ramma. Sögulegt umhverfi getur göfgað andann og skapað þannig vellíðan. Það sem vill þó gleymast er að fallegt nýtt umhverfi getur gert það sama, sérstaklega ef það er í góðu jafnvægi við það gamla.

Ef það verður stefna borgarinnar að endurgera öll gömul hús í upprunalegri mynd, hversu langt á þá að ganga? Verður það ekki til að ýta enn meira undir glundroðan sem nú er á Laugaveginum eða mun þá jafnvel enda með að öll hús frá 20. öldinni verði rifin og húsin sem stóðu þar áður, byggð í staðinn? Getum við kannski í framhaldinu byggt Disneyland í eitt af nýju úthverfunum og farið þannig alla leið í tálsýninni?

Samt sem áður er nokkuð ljóst að gefin hefur verið heimild fyrir of mörgum niðurrifum á sínum tíma og þess vegna mikilvægt að endurskoða málin að svo stöddu. Til dæmis skýtur það skökku við að leyfa niðurrif á húsum eins og þar sem skemmtistaðurinn Sirkus hefur aðsetur. Þar er svo sannarlega menning og líf á ferð sem vert er að varðveita. Það er nefnilega fyrst og fremst mikilvægt að varðveita það líf sem Laugavegurinn býður upp á í dag og vinna út frá því.

Þetta er ekki flókið en í sömu andrá og maður nefnir þetta við margt fólk á Íslandi fær maður annað hvort svör um að íslenskir arkitektar séu lélegir eða þá að fjarfestar vilji byggja ódýrt með skyndigróða í huga. Ef einhver var í vafa þá eru íslenskir arkitektar mjög góðir. Aftur á móti er margt til í þessu með fjárfestana. Þó eiga sér stað einum of miklar heimsendaspár ef eitthvað nýtt er byggt. Því er svo kastað fram að þetta gamla sé það eina sem “blivar”. Skýrasta dæmið er án efa Torfusamtökin. Markmið samtakanna, að stuðla að betri miðbæ, er að sjálfsögðu frábært. Undirtóninn, að friðun þess gamla bjargi öllu, er þó í alla staði vafasamur og illa ígrundaður. Að eyða allri orku sinni og orku annarra í þessi tvö hús er virkilega gott dæmi um hvernig hægt er að týna sér í smáatriðum.

Það sem vantar er borgarstjórn sem hefur heyrt um orðið framtíðarsýn. Sýn sem fæli meðal annars í sér að blása til samkeppni þar sem heildrænt skipulag á Laugavegi væri rækilega tekið í gegn. Út frá einni verðlaunatillögu yrði unnið deiliskipulag þar sem ekki einungis nýtingarhlutfall kæmi fram, útlit og rými væri sömuleiðis veigamikill þáttur sem fara ætti eftir þegar kæmi að hönnun á byggingarstigi. Undantekningar, vegna tengsla borgarfulltrúa við verktaka, mættu ekki eiga sér stað. Borgarfulltrúar yrðu að vinna fyrir borgina, í stað sinna eigin hagsmuna, þó er það sé nú eflaust bara draumsýn.