Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, April 29, 2007

Ítalía og Ísland

10 daga námsferð til eins flottasta lands Evrópu lauk í gær. Rauðvín, ostar og ólífur, pasta og parmaskinka, arkitektúr og hönnun. Ítalir eru heimsmeistarar í þessu öllu ásamt mörgu öðru. Er andlega endurnærður eftir frábært ferðalag í rótgrónni, ítalskri menningu.

Íslenska hjartað tók þó kipp þegar fáninn okkar sýndi sig á jakka einum. Eigandi jakkans, miðasali í rútu, hafði komið til Íslands og sá ekki sólina fyrir fallega landinu okkar. Mikill heiður að manneskja frá jafn mögnuðu landi og Ítalíu skyldi bera land okkar augum. Eftir að viðkomandi hafði tekið sér góðan tíma í að heillast yfir Íslandi tók þó annað verra við. Virkjunin, bölvuð virkjunin. Á ensku með ítölskum hreim var sagt: “Af hverju? Af hverju? Af hverju?” Þarna var maður sem sagt skammaður. Kem nefnilega frá landi með ríkisstjórn sem hugsar ekki langt, ef hún hugsar. Kann einungis að verða manni til skammar í útlöndum.

Áður en Ítalinn hafði farið að skamma mig hafði hann sýnt mér myndir frá Íslandi. Á “desktopinu” var mynd af Lækjartorgi. Magnað að vera umvafinn menningararfi í fallegu Flórens á meðan græna kebabhúsið, litli arfurinn okkar, stendur í björtum logum. Já, þetta er synd. Útlistanir Egils Helgasonar á stöðu mála er þó ekki til að bæta úr skák og enn síður athugasemdir allra meðfylgjandi kverólanta á umræðuvef í kjölfarið. Skoðanir þessar eru ekki bara hrokafullar og niðurdrepandi, einnig mjög hugmyndalausar. Það sem átti sér stað í þessum húsum var hluti af íslenskri menningu og um leið rammi um daglegt líf fjölda fólks. Pulsurnar í Ungfrú Reykjavík voru þó greinilega ekki nógu fínar fyrir heimsborgarann Egil.

Nú er þó um að gera að horfa fram á veginn. Tilvalið væri að efna til opinnar arkitektasamkeppni um hvað eigi að gera í stöðunni. Hvernig er hægt að lífga upp á torgið og hugsa það upp á nýtt? Á að endurreisa húsin í sömu mynd eða byggja ný? Hvaða/Hvernig sögu á að varðveita og hvernig er slíkt gert? Þessar og fjölmargar fleiri spurningum væri unt að fá svar við í slíkri samkeppni. Ennfremur væri unt að draga skoðanir almennings inn í myndina. Tillögur gætu þannig verið til sýnis í ráðhúsinu þar sem fólk gæti komið og kosið um bestu tillöguna og gert grein fyrir skoðun sinni á kjörseðlinum. Um leið væri dómnefnd sem ynni eftir hefðbundnum samkeppnisreglum. Með þessu móti væri unt að koma af stað umræðu sem risti dýpra en gengur og gerist á íslenskum vefmiðlum.

Fallegur arkitektúr og hugmyndaauðgi í matargerð er einkennandi fyrir Ítalíu. Það eru engu líkara en einhvers konar djúpstæður sköpunarmáttur búi í menningu þeirra.Glöggt er þó gests augað, ítalska augað getur á sama hátt séð allt það góða á Íslandi. Það virðir það sem er/var á Lækjartorgi og gleðst yfir því, í stað þess að álíta það púkalegt eins og áðurnefndur Egill Helgason. Ísland verður aldrei Ítalía og heldur engin þörf á því. Ef Íslendingar færu að temja sér meiri sköpunargleði á kostnað skoðunargleði, eru góðar líkur á að menningin haldi áfram að blómstra.

Sunday, April 15, 2007

Þarf alltaf að hrópa hátt?

Var að lesa athyglisverða grein á Vefritinu.is sem bar yfirskriftina: “Togstreita frekjunnar”. Þar veltir greinarhöfundur því fyrir sér í hvers konar leikskóla hún vill að barnið sitt fari í og kemst hún að því að það verði sá leikskóli þar sem kyn skiptir máli. Þar virðist viðkomandi eiga við leikskóla þar sem stelpur fá að orga jafnhátt og drengirnir. Þegar barnið gengur í grunnskóla þá býður ríkið hinsvegar ekki upp á skóla þar sem kyn skiptir máli. Þess vegna verður hún að íhuga einkaskóla sem val, þvert á hennar hugmyndir um jöfnuð.

Nú er ég, líkt og greinarhöfundur, bæði hlynntur jafnrétti og jöfnuði. Engu að síður skil ég ekki alveg hvað hún á við með “kyn skiptir máli”. Eftirfarandi dregur þó upp mynd af hugmyndum hennar um gang mála: “Frá fæðingu er stúlkum kennt að þegja, vera rólegar, stilltar og prúðar meðan drengir er hvattir til að hafa hátt og láta mikið fyrir sér fara.”

Aldrei nokkurn tímann, á skólagöngu minni, minnist ég þess að þetta hafi verið viðhorfið. Ef einhver var með kjaft, hvort sem það var í litla Flúðaskóla eða stóra Hagaskóla, þá átti viðkomandi stelpa/strákur að þegja. Þessi árátta, að láta mikið fyrir sér fara, er hér stillt upp sem einhverri samfélagslegri dyggð og þá vakna stórar spurningar um það hvers konar samfélag það er sem við lifum í og hvernig fólk upplifir það. Að skapa fyrirferðamikla einstaklinga á svo sannarlega ekki að vera markmið í sjálfu sér. Eitt af grunngildum jafnaðarsamfélags hlýtur að vera að hver og einn geti tjáð sig, án þess að þurfa að vera hávær í eðli sínu.

Í lokin veltir greinarhöfundur eftirfarandi fyrir sér: “Á ég að láta femínistann í mér ná yfirhöndinni og velja einkarekinn skóla, þar sem börnin mín fá menntun við mitt hæfi á kosnað heildarinnar eða á ég að þagga niður í femínistanum, blása lofti í jafnaðarkonuna og halda mig við þá staðreynd að það sé hagur heildarinnar að allir sæki nám í ríkisreknum skólum og börnunum mínum á ekki að vera gert hærra undir höfði einfaldlega af því ég vil það og ég á pening fyrir því.”

Hérna endurspeglast viss ofurtrú á skóla sem uppalanda, tilhneiging sem virðist verða algengari. Hvað er foreldrahlutverkið í þessu samhengi? Hefur það hvarlað að viðkomandi að ala barnið sitt upp sjálf?

Það er enginn spurning að skólagangan skipar stóran sess í að móta einstaklinginn. Börn verða þátttakendur í samfélagi og það er í raun ein námsgrein í sjálfu sér. Það má sömuleiðis alltaf skeggræða hvar áhærsurnar eiga að liggja; meiri áhersla á list, minni einkunnarárátta og svona má lengi telja. Skóli, ríkisrekinn eða einkarekinn, má þó aldrei verða sá “stóri bróðir” sem sker úr um hvort einstaklingur verði fyrirferðamikill eða rólegur. Þar verða foreldrarnir að koma inn í myndina. Ef viðkomandi greinarhöfundur vill að barnið sitt hrópi hátt (eins undarlegt og það nú hljómar) þá er það hennar (vanda)mál.

Greinin er þó á margan hátt áhugaverð, sérstaklega hvernig jafnrétti og jöfnuði er stillt upp sem andstæðum pólum, ólíkt því sem gengur og gerist. Ennfremur vakna upp ótal margar áhugaverðar spurningar um manns eigin skólagöngu og uppeldi. Hvenær, hvernig og hvar byrjaði gagnrýnin hugsun? Í mínu tilfelli var það daginn sem kennslukonan okkar í 8 ára bekk hvatti okkur strákana til að fara í dúkkuleik.

Tuesday, April 10, 2007

Flokkun á fréttum

Er í sakleysi mínu að lesa fréttirnar á mbl.is í dag þegar ég tek eftir frétt um arkitektúr. Sænskir arkítektar unnu samkeppni um nýjar höfuðstöðvar Glitnis Upplýsandi frétt og áhugaverð. Tek svo allt í einu eftir að fréttin er flokkuð sem viðskiptafrétt. Það er mjög athyglisvert.

Í fyrsta lagi er nokkuð skondið að sjá hinar fyrirsagnirnar í viðskiptadálkinum: Gengi hlutabréfa Sainsbury lækkaði um 4%, Krónan veiktist í dag, Lítilsháttar lækkun á hlutabréfaverði. Þetta er greinilega sálfræðilega viðskiptafréttin. Bankinn er með þessari framtíðarsýn að sýna mátt sinn og styrk. Það eru ekki allir bankarnir sem geta státað af þessu.

Hinsvegar spyr maður sig af hverju þetta sé ekki ein af innlendu fréttunum? Hér er á ferðinni nokkuð stór breyting á ásýnd borgarinnar við norðurströndina, gulu almenningsvagnarnir munu víkja fyrir tignarlegum byggingum eins íslenska bankarisans. Er það eitthvað minni frétt en það að Framsóknarflokkurinn vilji stuðla að atvinnuuppbyggingu eða að sótt sé um leyfi fyrir áfengi í Herjólfi? Það er líka nokkuð athygisvert að enginn skuli tjá skoðun sína á frétt sem þessari líkt og á við um aðrar fréttir. Til dæmis eru heil 5 moggablogg sem velta fyrir sér áfengi um borð í Herjólfi. Sérstakt.

En þetta framtak hjá Glitni verður að teljast nokkuð jákvætt, sérstaklega í ljósi þess hversu illa hefur verið staðið að málum á nálægu svæði, norðanvert við Borgartúnið. Einnig er áhugavert að velta fyrir sér þessari vinningstillögu sem unt er að lesa um hér. Í fljótu bragði ber að líta nokkuð lifandi ásýnd stakstæðra bygginga. Innra rými aðalbyggingar virkar mjög spennandi í sínum einfaldleika, hreyfing upp á við í átt til himins. Aftur á móti hefur maður ekki séð aðrar tillögur sem bárust inn í samkeppnina. Þar hefur vafalust margt flott borið á góma.