Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, April 15, 2007

Þarf alltaf að hrópa hátt?

Var að lesa athyglisverða grein á Vefritinu.is sem bar yfirskriftina: “Togstreita frekjunnar”. Þar veltir greinarhöfundur því fyrir sér í hvers konar leikskóla hún vill að barnið sitt fari í og kemst hún að því að það verði sá leikskóli þar sem kyn skiptir máli. Þar virðist viðkomandi eiga við leikskóla þar sem stelpur fá að orga jafnhátt og drengirnir. Þegar barnið gengur í grunnskóla þá býður ríkið hinsvegar ekki upp á skóla þar sem kyn skiptir máli. Þess vegna verður hún að íhuga einkaskóla sem val, þvert á hennar hugmyndir um jöfnuð.

Nú er ég, líkt og greinarhöfundur, bæði hlynntur jafnrétti og jöfnuði. Engu að síður skil ég ekki alveg hvað hún á við með “kyn skiptir máli”. Eftirfarandi dregur þó upp mynd af hugmyndum hennar um gang mála: “Frá fæðingu er stúlkum kennt að þegja, vera rólegar, stilltar og prúðar meðan drengir er hvattir til að hafa hátt og láta mikið fyrir sér fara.”

Aldrei nokkurn tímann, á skólagöngu minni, minnist ég þess að þetta hafi verið viðhorfið. Ef einhver var með kjaft, hvort sem það var í litla Flúðaskóla eða stóra Hagaskóla, þá átti viðkomandi stelpa/strákur að þegja. Þessi árátta, að láta mikið fyrir sér fara, er hér stillt upp sem einhverri samfélagslegri dyggð og þá vakna stórar spurningar um það hvers konar samfélag það er sem við lifum í og hvernig fólk upplifir það. Að skapa fyrirferðamikla einstaklinga á svo sannarlega ekki að vera markmið í sjálfu sér. Eitt af grunngildum jafnaðarsamfélags hlýtur að vera að hver og einn geti tjáð sig, án þess að þurfa að vera hávær í eðli sínu.

Í lokin veltir greinarhöfundur eftirfarandi fyrir sér: “Á ég að láta femínistann í mér ná yfirhöndinni og velja einkarekinn skóla, þar sem börnin mín fá menntun við mitt hæfi á kosnað heildarinnar eða á ég að þagga niður í femínistanum, blása lofti í jafnaðarkonuna og halda mig við þá staðreynd að það sé hagur heildarinnar að allir sæki nám í ríkisreknum skólum og börnunum mínum á ekki að vera gert hærra undir höfði einfaldlega af því ég vil það og ég á pening fyrir því.”

Hérna endurspeglast viss ofurtrú á skóla sem uppalanda, tilhneiging sem virðist verða algengari. Hvað er foreldrahlutverkið í þessu samhengi? Hefur það hvarlað að viðkomandi að ala barnið sitt upp sjálf?

Það er enginn spurning að skólagangan skipar stóran sess í að móta einstaklinginn. Börn verða þátttakendur í samfélagi og það er í raun ein námsgrein í sjálfu sér. Það má sömuleiðis alltaf skeggræða hvar áhærsurnar eiga að liggja; meiri áhersla á list, minni einkunnarárátta og svona má lengi telja. Skóli, ríkisrekinn eða einkarekinn, má þó aldrei verða sá “stóri bróðir” sem sker úr um hvort einstaklingur verði fyrirferðamikill eða rólegur. Þar verða foreldrarnir að koma inn í myndina. Ef viðkomandi greinarhöfundur vill að barnið sitt hrópi hátt (eins undarlegt og það nú hljómar) þá er það hennar (vanda)mál.

Greinin er þó á margan hátt áhugaverð, sérstaklega hvernig jafnrétti og jöfnuði er stillt upp sem andstæðum pólum, ólíkt því sem gengur og gerist. Ennfremur vakna upp ótal margar áhugaverðar spurningar um manns eigin skólagöngu og uppeldi. Hvenær, hvernig og hvar byrjaði gagnrýnin hugsun? Í mínu tilfelli var það daginn sem kennslukonan okkar í 8 ára bekk hvatti okkur strákana til að fara í dúkkuleik.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Góðar pælingar hérna á ferð, þ.e. hjá þér frændi góður. Tek undir reynslu þína af skólakerfinu.

Stelpan er á hinn bóginn ekki að mínu skapi, a.m.k. ekki þessar hugmyndir hennar um jöfnuð.

En jæja, nú er það bara komið á hreint að ég mun skunda um götur Köben nk. haust og því glittir jafnvel í að ég geti uppfyllt loforð mitt, gefið fyrir all löngu, um að heimsækja þig.

April 17, 2007 at 7:22:00 PM GMT+2

 
Anonymous Anonymous said...

Bjarki er à italiu, thannig ad hann mun svara thessu kommenti eftir thann 27. april kaeri fraendi hans Bjarka.
Kv.
Astridur skolasystir hans

April 22, 2007 at 8:20:00 PM GMT+2

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Sæll Siggi.

Líst vel á að fá þig hingað í jafnaðarparadísina í Danmörku og þú ert hjartanlega velkominn í heimsókn.

Jöfnuður er af hinu góða en einmitt þess vegna er undarlegt að þurfa að hrópa hátt og í raun mótsagnarkennt.

Kv. Bjarki.

April 28, 2007 at 6:32:00 PM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home