Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, March 29, 2007

Svona hitt og þetta

Það koma stundum svona kvöld þar sem allur vindur er þotinn úr manni. Þreyta á alla kanta og engin orka til að gera neitt sniðugt. Þá verður internetið fyrir valinu og maður byrjar að lesa eitthvað ótrúlega leiðinlegt, eins og um stjórnmál á Íslandi. Geispa enn einni golunni og álpast inn á vefritið deiglan.com. Þar eru allir ungu frelsispostularnir saman komnir að furða sig á íslenskum kjósendum þessa dagana.

“Hvernig stendur á því að kjósendur hneigjast til vinstri á einu mesta hagvaxtar- og velmegunarskeiði íslandssögunnar”? Svona spyr önnur hver deigluspíran. Botna bara ekkert í þessu. Ja, hérna! En að sjálfsögðu eiga þeir svör á reiðum höndum. “Undirritaður telur að aukin áhersla á jöfnuð sé að hluta til fram komin vegna öfundar, svo það sé sagt hreint út”. Svo hálf þjóðin er bara að deyja úr öfundsýki. Jájá. Akkúrat í augnablikinu hef ég ekki hugmyndaflug til að finna upp á jafn barnalegri röksemdafærslu sem þessari.

Ég nenni heldur ekki að tjá mig um efni af þessu tagi lengur. Kominn með nóg af stjórnmálum og þá sérstaklega hægrimennsku. Nenni ekki að lenda í rökræðum sem enda oftar en ekki á því að ég er spurður: En hefur þú það ekki gott? Kosningarnar snúast einfaldlega ekki bara um mig. Það eru þrjúhundruð þúsund aðrar hræður þarna úti.

En að öðru, mun skemmtilegra. Var að uppgötva nýjan hæfileika í fari mínu. Ég hef alveg rosalega gott viðbragð. Uppgötvaði þetta um daginn þar sem ég sat niðri í skóla að vinna í verkefni. Allt í einu rek ég mig í flösku, fulla af vatni. Tek eftir flöskunni vera að detta í “slowmotion” og sé fram á vatnselg flæða yfir fögru teikningarnar mínar. Sé svo flöskuna stoppa á leið sinni, í ca. 45 gráðu halla, og þá bara reisi ég flöskuna við í mestu makindum.

Magnað að sjá flöskuna stoppa. Á þessu eru reyndar til vísindalegar skýringar sem ég nenni ekki að fara út í hér. En svo ég komi nú enn og aftur að vísindum þá var ég að lesa mig til um vísindakirkjuna, hina einu sönnu, á sjálfum vísindavefnum. Þar kemur fram að við manneskjurnar erum hvorki hugur né líkami, heldur þetanar. Þetanar að deyja úr öfundsýki. Við erum samt eiginlega ekki þetanar, það eru einfaldlega andlegar verur sem hafa sest í okkur eftir að geimvaran Xenu sendi þá til jarðarinnar. Bara svo við höfum það á hreint.

Annars var danskur félagi minn að segja mér frá merkustu uppfinningu mannkynssögunnar. Margur myndi nefna tölvu eða internet en nei. Ekki nálagt því. Það er bárujárn. Bárujárnið er nefnilega mjög nytsamlegt í fjölmörgum fátækrahverfum heimsins. Var sömuleiðis gríðarlega mikilvægt á Íslandi á sínum tíma. Bárujárnið, það er lúmskt.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Til hamingju með spurningakappann bróður þinn!

April 2, 2007 at 12:36:00 PM GMT+2

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Takk fyrir thad. Thetta var svaka flott hja theim. Stori brodirinn er mjøg stoltur.

April 4, 2007 at 10:51:00 AM GMT+2

 

Post a Comment

<< Home