Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, March 11, 2007

Stigagangurinn

Í umræðum, t.d. um stjórnmál rétt fyrir kosningar, gleymist oft að skyggnast inn í samfélagið í nærmynd. Súlurit fá aukið gildi sem og ómálefnaleg gagnrýni og útúrsnúningar á kostnað nýrra hugmynda (á sérstaklega við um sitjandi ríkisstjórn). Það er þó ekki ætlunin að gleyma sér í stjórnmálum. Lítum nánar á tröppuganginn minn hér á Rødkløvervej 8.

Í morgun hringdi dyrabjallan. Þetta var kona á sextugsaldri, gráhærð, stuttklippt, með gleraugu, íbúi á efstu hæð. Hún vildi minna okkur á að þrífa tröppurnar sem tilheyra okkar hæð sem og að fara út með öll fríblöðin sem safnast þar fyrir. Áður en lengra er haldið er betra að setja lesendur inn í aðstæður. Það eru einungis þrjár hæðir. Við erum á þeirri fyrstu og eru tröppur til okkar frá aðalinngangi. Frá aðalinngangi eru einnig tröppur niður í kjallara þar sem eru geymslur og þvottaaðstaða.

Við höfðum þannig séð ekkert á móti því að þvo tröppurnar en aftur á móti fannst okkur að það þyrfti að leysa fríblaðavandann öðruvísi. Inngangurinn er sameiginlegt vandamál sem allir ættu að taka þátt í. Ennfremur ætti frekar að leyta rót vandans, koma í veg fyrir að fríblöðin komi á annað borð. Þessi fríblaðabylgja, þökk sé íslenska Baugi, hefur skapað mun meiri pirring en gleði meðal Dana. Pirringurinn er skiljanlegur, þessi blöð eru illa skrifuð og það skín í gegn að þau eru fyrst og fremst auglýsingabæklingar.

Nóg um það, ég tók mig til og fór að þrífa tröppurnar. Á meðan á þrifum stóð rann það upp fyrir mér að ég hafði aldrei (þessi þrjú ár sem ég hef búið þarna) farið ofar en upp á mína eigin hæð. Uppgötvaði líka að hæðin fyrir ofan er ekkert alltaf að skúra. Ég er að skúra fyrir alla en enginn skúrar fyrir mig. Þarna fannst mér viss pottur brotinn í stjórnkerfi stigagangsins.

Það sem er eflaust verra er hversu lítil tengsl eru milli fólks í einum stigagangi. Þarna vil ég kenna um skorti á arkitektónískum úrlausnum. Stigagangar vilja oft gleymast þegar talað er um mikilvægi þess að þétta byggð. Þetta er einmitt sameiginlega rýmið í byggingunni sem hefur tök á að binda fólk saman og skapa tengsl. Ef gangarnir eru óaðlaðandi, eins og í okkar tilfelli, þá hefur fólk ekki sama áhuga á að staldra við og ræða um daginn og veginn eða að skapa notelegt umhverfi fyrir framan dyrnar hjá sér. Ferðin, frá einni íbúð til annarrar, er þar af leiðandi jafn löng og vegalengd milli bæja, ef farið er á hesti.

Í mörgum stigagöngum eru málin rædd í svokölluðu húsfélagi. Það er reyndar ekki húsfélag hjá okkur en í staðinn hefur konan á efstu hæðinni skipað sjálfa sig sem eftirlitsmanneskju okkar óskilgreinda samfélags. Ég er síður en svo hrifinn af húsfélögum og tel ekki að það sé lausnin í okkar tilfelli. Aftur á móti hefði verið mögulegt að koma í veg fyrir ýmsar nágrannaerjur ef sameignin er notaleg og hvetjandi. Það hefði eflaust kostað pínulítið meira þegar húsið var hannað en hefði skilað sér strax í virkara samfélagi þar sem miðstýring væri óþörf. Allt spurning um að gefa sér tíma til að hugsa áður en að framkvæmd kemur til. Skoða samfélagið í nærmynd, þó það taki lengri tíma en að skoða súlurit.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Welcome to the real world mr. bjarkitekt! Svona er þetta bara og þess vegna þarf að stofna húsfélög þannig að eitthvert vit sé í samskiptum fólks í nábýli og að allar skyldurnar lendi ekki á einum en annar sé stikk frí.
Ég get þó nefnt þér til samanburðar að í mínum stigagangi koma íbúarnir sameiginlega að því að mála og laga stigaganginn - og hafa gaman af!

gamli

March 13, 2007 at 4:11:00 PM GMT+1

 
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Já, stigagangurinn ykkar er líka mjög góður og hlýlegur. Hvítir veggir, teppi og pínulítið meira rými á millipalli þar sem hægt er að koma fyrir blómapotti hefur sitt að segja. Það þarf ekki svo mikið til.

March 13, 2007 at 10:40:00 PM GMT+1

 

Post a Comment

<< Home