Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Tuesday, March 13, 2007

Alheimurinn og ég

Í gegnum aldirnar hefur ávallt verið uppi einhvers konar grundvallarmisskilningur um eðli heimsins og tilvist mannsins í alheiminum. Oftar en ekki er hent gaman af þessum misskilningi og er flata pönnukökuheimsmyndin gott dæmi um það. Þegar vísindasagan er nánar skoðuð þá voru þeir sem vissu betur oftar en ekki stimplaðir sérvitringar og hent jafnvel gaman af þeim. Sagan endar hinsvegar ekki í dag svo það er næsta víst að við núlífandi grey göngum með einhvern allsherjar misskilning í maganum. En hvað skyldi það nú vera?

Margir mundu benda á tilvist Guðs og að trúarbrögð almennt væru alveg að mis. Við lifum á gervihnattaröld þar sem vísindaleg rökhyggja er prófsteinn alls. Því er hægara sagt en gert að sanna tilvist æðri máttarvalda. Sannanir eru þó ekki allt, við mannfólkið erum líka tilfinningaverur. Ég get ekki sannað trú mína á Guð en get miðlað af persónulegri reynslu, t.d. frá barnæsku sem og trúarupplifun á Indlandi. Vísindaleg nálgun á allt mögulegt er eflaust einn grundvallarmisskilningur á okkar tímum? Annars bendi ég fólki á að lesa áhugaverða grein á vísindavefnum í þessum efnum: “Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?”

Svo eru alltaf einhverjar vangaveltur um hvar við stöndum í alheiminum. Eru geimverur til? Er til líf á öðrum hnöttum? Algengar spurningar sem erfitt virðist að fá svar við. Í þessum efnum erum við sífellt að bíða eftir tækniframförum til þess að okkar efniskenndu líkamar geti drifið sig á lappir og kannað málið. En erum við hugsanlega að gleyma einhverjum vísindum í þessu samhengi, t.d. draumvísindum? Var að lesa um n.k. draumlíkama og skírdreymi hér á vísindavefnum. Þegar maður veit að manni dreymir þá getur maður stjórnað líkama sínum, hreyft sig í draumi þó maður viti að maður liggji sofandi. Flippaða vísindatillaga mín gengur sem sagt út á að ferðast til annarra plánetna í draumi. Já.

Samt. Af hverju köfum við ekki dýpra í rannsóknir á 6. skilningarvitinu? Af hverju ættu draugar ekki að vera til? Af hverju skilgreinum við heiminn einungis frá því sem við örugglega vitum? Af hverju höllum við okkur svo fast upp að þekktum stærðum, lögmálum og sönnunum á sama tíma og við finnum eitthvað á okkur án þess að vita af hverju?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home