Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Tuesday, July 24, 2007

Ægisíða og Faxaskjól

Þar sem Ægisíða mætir Faxaskjóli er grasvöllur með fótboltavelli og styttu. Hef ekki orðið var við að völlurinn sé mikið notaður. Vellir af þessu tagi þykja ekki svalir eftir að KSÍ taldi sér trú um að svokallaðir sparkvellir gætu fleytt Íslendingum á topp hundrað lista yfir góðar þjóðir í fótbolta. Um daginn var þó svo sannarlega vottur um líf á þessum velli. Fjöldi Indverja hafði yfirtekið völlinn. Mörkin voru þó ekki notuð, enda óþörf með öllu í kriket.

Var nú heldur betur hissa en svo sannarlega glaður í bragði. Fékk mig til að hugsa um liðna tíma á Indlandi þar sem kriket var oftar en ekki áberandi. Nú voru þeir bara mættir, á Ægisíðuna okkar.

Gæti fabúlerað um þetta en vel að gera það ekki.

Thursday, July 19, 2007

Hvatning í atvinnuleysi

Las á textavarpina áðan að Akureyrarbær óskaði eftir tafarlausum viðræðum við ríkisstjórnina sjálfa. Þungar áhyggjur af þorskaleysi og fleira í þeim dúr. Þessi ályktun var meira að segja samþykkt samhljóða í bæjarstjórn sem þykir bara tíðindum sæta í stjórnmálum í dag.

Hér er á ferðinni gríðarlegar áhyggjur yfir gangi mála sem er á vissan hátt skiljanlegt. Hinsvegar ætti þessi heimsendatónn að vera óþarfur. Það boðar heldur ekki gott að ganga með heimsendinn í maganum þegar ræða á hvað á að koma í stað þorsksins. Hugmyndir eins og álver og olíuhreinsanir verða í þess konar andrúmslofti fljótar að skjóta upp kollinum.

Önnur nálgun er nauðsynleg. Sé ekki ríkisstjórnina fyrir mér “brainstorma” með mislituðum tússpennum á stóran pappa, á sama hátt og gert er í arkitektaskólanum. Skapandi hugmyndavinna og stjórnmál haldast því miður lítið í hendur. Ungu hægrimennirnir fá þó hrós fyrir mikla bjartsýni þessa dagana. Hér er allt morandi í peningum og kakan stækkar. Stærri kaka leiðir til stærri velferðarbita og samkvæmt því munu allir hafa það geðveikt gott.

Möguleikarnir sem ég sé í velferðarbitanum er meira fjármagn fyrir tímabundið atvinnuleysi. Þeir sem missa vinnuna fá eins og gefur að skilja atvinnuleysisbætur. Ólíkt venjulegum bótum munu þessar þó eiga þess kost að hækka hjá hverjum og einum. Það sem fólk þarf að gera er að koma með hugmyndir að nýrri atvinnustarfssemi. Þegar hugmyndir að arðvænni starfssemi hafa náð fram að ganga minnkar ríkisframlag til atvinnuleysisbóta í takt við það.

Þeir sem eru almennt á móti of góðu velferðarkerfi draga oft fram þau rök að gott kerfi geti virkað letjandi og til þess fallið að fólk svindli á því. Í álveri getur þó líka komið upp sú hætta að einhver reyni að taka sér lengri kaffihlé og fleiri veikindadaga. Það er mikil hætta á hvers konar svindli. Þó er líka hætt við því að bætur gefi fólki svigrúm til að hugsa málið í góðu tómi og hrapa niður á góða hugmynd. Hugmynd sem risti miklu dýpra en töfralausn frá ríkisstjórn.