Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Sunday, January 29, 2006

Náttúrufræðihúsið II

Alltaf er ég að upplifa eitthvað nýtt. Í Aarhus er annað náttúrufræðihús. Það heitir “Naturhistorisk museum” og er líka í háskólagarðinum. Þar er gríðarlegur fjöldi af uppstoppuðum dýrum.

Fyrsti sýningasalur tilheyrði dýra- og lífríki Danmerkur. Þar var lögð rík áhersla á að sýna uppstoppuð dýr í einhverjum ákveðnum aðstæðum. Til að mynda var þarna villigöltur “dauður” á síðunni eftir að hafa verið drepinn með svona Hróa hattar ör. Einnig var þarna mús uppstoppuð við mismunandi aðstæður, m.a. klósettaðstæðum. Svo fylgdi með útskýring á orkuneyslu músa, s.s. mjög raunsætt og fræðandi.

Athyglisvert var einnig að sjá dýr sem aðlöguðu sig að byggingum. Maður pælir ekki mikið í því en hús almennt eru mikill dýragarður. Oft er þó um að ræða dýr sem við viljum ekki vita af, eins og rottur í kjallara eða minni dýr í eldhúsi og baðherbergi. Ný hugmynd að dýragarði er s.s. hús sem safnar öllum þessum dýrum saman í mismunandi rými og svo yrðu þau römmuð inn í gler. Nei, þessi hugmynd er fáránleg.

Á annarri hæð voru hinsvegar geitungar rammaðir inn í nokkurs konar glerkassa. Þar voru þeir önnum kafnir við að búa sér til bú. Frá búrinu var svo n.k. glerrör inn í vegginn. Sökum gríðarlegrar geitungafóbíu fannst mér þetta hálf óhgnanlegt, glerið má helst ekki bara allt í einu brotna. Engu að síður spennnandi. Geitungar eru nefnilega vinnusöm dýr og ekki svo vitlaus. Hver man ekki eftir geitungadansinum úr menntaskólalíffræðinni?

Annars mæli ég með þessu safni. Gríðarlega skemmtilegt og fræðandi.

Friday, January 20, 2006

Kaffihús og veitingastaðir

Eftir þrjú og hálft ár í Árósum er fátt nýtt sem ber á góma. Er orðinn rótgróinn borginni, finnst mér. Þekki miðbæinn, kaffihúsin, söfnin og alla menninguna. En svo uppgötvar maður nýjar hliðar á borginni eða borgum almennt. Kaffihús í tengslum við stórmarkaði.

Uppáhalds kaffihúsið mitt er inni í öðru húsi, verslunarmiðstöðinni Storcenter Nord. Samt ekki svona asnalegt og stórt rými eins og stjörnutorgið í Kringlunni. Meira eins og lítið kaffihús sem hefur verið flutt inn í bygginguna. Í rauninni eins og leiksvið, þar sem innréttingin er eins og um gamalt hús væri að ræða. Eina útsýnið er inn í einhverjar fatabúðir hinum meginn við ganginn. Þarna er líka alltaf gott veður og hlýtt. Allt iðar af mannlífi.

Það besta er að kaffihúsið er laust við alls kyns “wonabe” menningarvita (eins og “101 Reykjavík týpur”) og misskilda listamenn. Þarna kemur einfaldlega fólk af öllum stéttum. Markaðsöflin fá hér prik fyrir að takast að búa til gott og heilbrigt mannlíf.

Uppáhalds veitingastaðurinn minn, hér í Árósum, er mötuneytið í Ikea. Strætó upp í langt í burtu. Hringur í búðinni og kaup á einum uppþvottabursta. Kaupa svo eins og 10 sænskar kjötbollur og tilheyrandi kaffi og kökur á eftir. Það vill svo heppilega til að mötuneytið er staðsett á 2. hæð, rétt fyrir ofan innganginn, sem gerir manni kleift að fylgjast með alls konar fólki streyma inn og koma svo út með ýmis konar húsgögn.

Kaffihúsið er gott dæmi um eftirhermun á menningu. Það skemmtilega við menningarlega eftirhermun er að hver og einn getur ímyndað sér að hann/hún tilheyri einhverri annarri menningu. Ég virði þó menningarvitana sem halda fast í upprunalegu kaffihúsin í gamalli borgarmynd. Svíarnir í Ikea ganga þó skrefinu lengra, hugsa sína kjötbollumenningu saman við ódýr húsgögn fyrir fólkið. Það er eiginlega bara snilld.

Sunday, January 08, 2006

Kvikmyndahornið: Topp 10 listi

Topp 10 listar hafa gjarnan þótt vinsælir þó minna beri á þeim nú í dag. Eins konar 10. áratugar fyrirbæri. Á þeim tíma átti eg mér alls konar topp 10 lista og ávalt einn um kvikmyndir. Verð að játa að það er eitthvað skemmtilegt við svona listaáráttu. Skipuleggjarinn og alhæfarinn í manni fær hér að njóta sín. Því ákvað ég að prófa, í fyrsta skipti í mörg ár, að búa til kvikmyndalista.

Áður en ég byrjaði hugsaði ég mér þó um hvað ætti að ráða för. Eru myndirnar vel gerðar eftir fræðilegri forskrift eða einfaldlega bara grautur af einhverju gríðarlega skemmtilegu? Er þetta bestu myndir sem ég hef séð eða bara myndir sem ná á einhvern hátt til mín? Ég hef ákveðið að láta tilfinningarnar ráða ferðinni. Myndirnar eru eftirtaldar í stafrófsröð:

Apocalypse Now
The Birds
Blade Runner
Clockwork Orange
Crimes and Misdemeanors
Darkwater (japanska útgáfan)
Fantasia
The Fast Runner
Magnolia
Nói Albínói
Persona
Shawshank Redemption
2001: Space Odyssey

Hvað er svo hægt að lesa út úr svona lista? Er þetta framtíð mín eða lykillinn að sjálfum mér? Ef einhver veit svarið eða hefur einhverja hugmynd um eitthvað þá endilega gefið komment. Annars hvet ég fólk til að prófa að búa til topp 10 lista.

Friday, January 06, 2006

Vil ég vera ríkur?

Það fór ekki framhjá mér í jólafríinu hversu gott það er að hafa svona starfslokasamninga á hreinu. Ýmsar skoðanir eru á málinu þó yfirleitt heyrast óænægjuraddir. Þar sem þetta FL group (er til leiðinlegra nafn?) á að heita einkafyrirtæki (eða hvað sem þessir fjármálamenn kalla þetta) þá finnst mörgum bara allt í lagi að forstjórar fái há laun og starfslokasamninga. Þetta er auðvitað ekkert eðlilegt.

Þegar fyrrverandi forstjóri Flugleiða var enn að störfum var dýrara að fljúga til Íslands frá Kaupmannahöfn en að fljúga til Indlands. Gróðinn á þessari fjárkúgun, sem oftar en ekki bitnaði á námsmönnum á leið heim úr jólafríi, fer nú mikið til í starfslokasamning. Það er í alla staði andmannúðlegt að gefa þessum manni 160 milljónir.

Hvað varðar laun núverrandi forstjóra fyrirtækisins þá tæki það hann einungis hálftíma að vinna sér inn flugmiðann minn til Íslands og heim aftur. Hann er rétt búinn að geyspa og fá sér einn “latte” þennan fyrsta hálftíma í vinnunni. Laun hans er þó eflaust eins og gengur og gerist í hinum stóra fjármálaheimi. Þau eru einnig bara dropi í hafið miðað við laun knattspyrnuhetjunnar Eiðs Smára. Engum virðist finnast athugavert að knattspyrnumenn, sem eru einungis að gera það sem þeim finnst skemmtilegast, fái öll þessi laun.

Engu að síður, gríðarlegur ójöfnuður. Þó hann geri einhverja gríðarstóra samninga þá finnst mér ekki mikið til þess koma. Miklu mikilvægari er vinna fólks í félagsmálum svo dæmi sé tekið. Samningar af þessu tagi gagnast einungis hluthöfum í viðkomandi fyrirtæki í að græða meiri pening. Og hvað getur maður gert ef maður er ríkur? Einn ágætur vinur minn svaraði spurningunni á þessa leið: “maður gæti átt risastórt baðkar með froðu í, kampavíni og tveim blondínum”.

Þessum útrásarforstjórum hefur gjarnan verið hampað fyrir stóra og djarfa samninga. Hafa jafnvel verið settir í dýrlingatölu fyrir vikið. Það er því fagnaðarefni að landinn sé loksins búinn að átta sig á hlutunum, þó fyrr hefði verið. Nú er bara að vona að peningaisminn leggi upp laupana og húmanisminn taki við.