Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Saturday, July 29, 2006

Mismunandi áherslur

Í gær voru mótmæli herstöðvaandstæðinga fyrir utan bandaríska sendiráðið vegna stríðsins í Líbanon. Mótmælastaða við bandaríska sendiráðið

Á svipuðum tíma mótmæltu ungir Sjálfstæðismenn skerðingu persónufrelsis í afgreiðslu Skattstjórans í Reykjavík. Hindra aðgang að álagningarskrám í Reykjavík

Tuesday, July 18, 2006

Öðruvísi virkjun

Las um daginn bókina Draumalandið eftir Andra Snæ. Mögnuð bók. Í megindráttum er hvatt til þess að á Íslandi verði hugmyndaríkt og skapandi atvinnulíf sett á oddinn, á meðan töfralausnum á borð við stóriðju er kastað fyrir borð. Ætla þó ekki að gera bókinni nánari skil þar sem vel hefur tekist til við að gera það hér: http://www.tmm.is/default2.asp?strAction=getPublication&intPublId=323 Hinsvegar hvet ég alla og þá sérstaklega þá sem eru fylgjandi virkjunarframkvæmdum að lesa þessa bók.

Það skemmtilegasta við bókina er hvernig hún ýtti undir skapandi hugsun hjá sjálfum mér. Þarna var nefnilega heilmikið af spennandi hugmyndum sem væri áhugavert að fara með lengra. Ein hugmyndin (án þess að ætla að kjafta of mikið frá) er sú að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fylla eigi í lónið þegar stíflan er tilbúin. Snilld.

Gríðarleg orka, af öðrum toga, myndi leysast úr læðingi ef lónið yrði tómt. Það yrði með eindæmum áhrifaríkt að horfa á jafn stóra stíflu, sem tók mörg ár í framkvæmd með tilheyrandi miklu vinnuafli, ekki í notkun. Virkjunin yrði stærsta tákn í heimi fyrir skammsýni og þröngsýni áhrifamikilla manna, á meðan tómt lónið vegi þyngra sem sigurtákn skapandi hugsunar yfir hin neikvæðu öfl.

Manngerð fyrirbæri, af stærðargráðu á við Kárahnjúkavirkjun, eru ótrúlega áhugaverð. Virkjunin gæti í því samhengi verið hugsuð sem n.k. skemmtigarður þar sem hugtakið ”stærð” er rækilega tekið fyrir. Unt væri að leyfa almenningi að ganga inn í göngin þar sem vatnið hefði átt að renna og fleira í þeim dúr. Fólk gæti í þessu samhengi kynnst verkfræðilegu hugviti mannsins.

Þarna í kring yrði þjónusta við ferðamenn styrkt til muna. Staðurinn allur og náttúran yrði enn eitt aðdráttaraflið fyrir erlenda gesti, jafnvel það stærsta og myndi undirstrika gildi ferðamennsku á Íslandi.

Það er ótrúlega margt áhugavert í stöðunni. Kjörinn vettvangur fyrir opna hugmyndasamkeppni.

Engu að síður átta ég mig á því að þessar hugmyndir eru í djarfari kantinum. Sérstaklega á meðal hagkvæmnishneigðra. Fjármagn er þó hægt að endurheimta, ólíkt nátttúrunni sem færi undir vatn. Einnig væri mögulegt að komast til móts við kreppuhræðslupúkana, sem ríkisstjórn landsins amast við að búa til. Virkjunin yrði vogaskál á raunverulega neyð, mögulegt væri að nota hana ef alvöru kreppa kæmi upp. Hugtakið kreppa, sem er svo gríðarlega ofnotað þessa dagana, yrði hugsað upp á nýtt.

Skapandi hugsun verða einkunnarorð Íslands. Hugsunin gæti haft margföldunaráhrif út í hinn stóra heim. Þarna er alvöru útrás á ferðinni.

Saturday, July 08, 2006

Auglýsingar í sjónvarpinu

Í allri gúrkutíðinni á sumrin er oft mun áhugaverðara að horfa á auglýsingar en fréttir. Margar, af þessum auglýsingum, ná þó ekki til manns og yfir þeim steinar maður einfaldlega. Sumar er því miður af verri endanum og þeim bölvar maður óspart í hljóði. Lítum á nokkur dæmi.

Oft á tíðum eru fyrirtæki að styrkja einstaka dagskrárliði og þá kemur einhvers konar auglýsingaskot á undan. Actavis er eitt þessara fyrirtækja. Í þeirra skoti eru glaðar fígúrur að berja trommur sem líta út eins og pillur. Hver er boðskapurinn? Munið eftir okkur, við gefum (seljum ykkur á okurverði) pillur svo þið verðið glöð! Þetta er auðvitað viss útúrsnúningur hjá mér. Vil heldur ekki gera lítið úr noktun lyfja, þau eru nauðsynleg eins og margt annað. Að auglýsa lyf almennt, er hinsvegar á gráu svæði.

Samkvæmt lögum virðist lítið vera sett út á auglýsingar á lyfjum. Annað er hinsvegar upp á tengingnum með áfengi sem er einfaldlega bannað að auglýsa. Það er þó fremur auðvelt að snúa á lögin í þessu samhengi með því að bæta við smáletri þar sem stendur “léttöl”. Hef í rauninni lítið á móti áfengisauglýsingum. Útfærslur þeirra eru þó oft nokkuð naumar. Í einni auglýsingunni er hljómsveit að spila í fallegu félagsheimili fyrir gamalt fólk úti á landi. Tónlistin breytist í rokk, gamlingjarnir flýja og unga fólkið dansar og drekkur bjórinn sem það hafði smyglað inn rétt áður. Þetta er hvorki fyndið né sniðugt og er í raun illgjarnt. Ef stjórnmálamennirnir vilja gera eitthvað fyrir gamla fólkið, eins og það talar svo mikið um, þá eiga þeir að banna þessar auglýsingar. Þarna er verið að efla fórdóma í gróðaskyni. Hér má finna auglýsinguna og einstaklega dræma útskýringu á henni. http://www.sagafilm.is/is/framleidsla/grein/store4/item1273/

Versta auglýsing sumarsins er álíka andsamfélagsleg og bjórauglýsingin. Þetta er auglýsingakeðja Byko. Gæinn sem þarf að alltaf að fá lánað frá nágrannanum. Fyrir vikið er hann dæmalaust hallærislegur og nágrannarnir fyrirlíta hann og reyndar fjölskylda hans líka. Hér eru hugmyndaleysinu og heimskunni engin takmörk sett. Hvað er af því að fá lánað hjá nágranna sínum? Hvað er að því að lifa í samfélagi við annað fólk? Hvers á fólkið að gjalda sem hefur ekki efni á því að kaupa sér borvél eða að kaupa eitthvað yfirleitt? Byko segir okkur að svoleiðis fólk sé púkó.

Þrátt fyrir að ofantaldar auglýsingar fari mikið í taugarnar á mér þá verð ég alltaf jafn glaður þegar ég sé auglýsingarnar frá Icalandair, með landsliðsmanninum í knattspyrnu. Hvert einasta skot er útpælt og einnig tónlistin. Snilld. Hér er nefnilega ekki reynt að höfða til veikleika eða fordóma fólks. Hvað okkur dreymir um er stóra spurningin. http://www.kvikmynd.is/

Það ætti að endurskoða hvað má auglýsa og ekki síður, hvernig má auglýsa . Nú mundi einhver skamma mig fyrir að virða ekki tjáningarfrelsið. Það er hinsvegar ekkert frelsi fólgið í auglýsingum sem ala á fordómum. Ef lélegum vinnubrögðum yrði settar einhverjar skorður í auglýsingagerð þá er engin spurning að skapandi vinnubrögð fengju að njóta sín og meira bæri á skemmtilegum auglýsingum.

Sunday, July 02, 2006

Kirkjan og ungt fólk

Var að lesa viðtal í Fréttablaðinu frá 1. júli við Sigurbjörn Einarsson, biskup, sem átti 95 ára afmæli um daginn. Virkilega umhugsunarvert margt af því sem hann segir og mæli ég eindregið með að fólk lesi þetta viðtal. Eins og gefur að skilja hefur íslenskt þjóðfélag breyst umtalsvert. Húslestrar voru í hans barnæsku vegamikill þáttur sem þjappaði fólki saman í fátæktinni. Það sama er hægt að segja um trúnna sem skipaði mun stærri sess en hún gerir í dag.

Trúin er hinsvegar ekki í tísku hjá ungu fólki í dag. Þetta var ein niðurstaðan í skemmtilegu spjalli í skemmtilegu partýi um daginn. Stelpan sem ég talaði við hafði eins og ég, aldrei lent í samræðum um trúmál í veislu áður. Athyglisvert.

Mjög margir, sérstaklega ungt fólk, hefur það gott í dag. Fylgifiskur góðæris virðist vera afskiptaleysi af trú. Maður heyrir fólk oft segja að það trúi á sjálft sig. Á sama tíma er mjög algengt hjá ungu fólki að vera þátttakendur í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka. Þrátt fyrir að vilja ekki trúa á neitt þá er fólk engu að síður komið í söfnuð. Í söfnuðum nútímans lærir þetta fólk að ”plotta”, ekki aðeins gegn pólitískum andstæðingum heldur líka gegn eigin fólki. Þegar það er ekki að plotta gefur það út innantómar ályktanir til að hafa áhrif í þjóðfélagsumræðunni.

Þegar heimasíður ungliðahreyfinganna er nánar skoðaðar, þá stendur ekkert um málefni Íslands hvað varðar þróunaraðstoð í 3. heiminum og almenn afstaða til mannúðarmála er fremur óskýr. Enginn virðist gefa því gaum hversu skammarlega lítið íslenska ríkið gefur til þróunarmála. Ég efast ekki um að það sé mikið af ungu, hæfileikaríku fólki í þessum ungliðahreyfingum. Kraftar þeirra eru einfaldlega illa nýttir á þessum vettvangi.

Þess vegna væri áhugavert ef ungt fólk færi að kynna sér góð störf kirkjunnar og s.s. annarra trúfélaga í auknum mæli. Sumar hugmyndir innan kirkjunnar virka oft gamaldags og í vissum tilfellum þröngsýnar. Þá er ekki þar með sagt að fólk þurfi að hafna henni og gildi trúar með öllu. Þarna er einmitt kjörinn vettvangur fyrir gangrýna hugsun ungs fólks. Á sama tíma má íslenska kirkjan vera duglegri að miðla hugmyndum sínum út á við.

Það er engin tilviljun að gamalt fólk sé trúrækið. Þetta fólk man eftir Íslandi sem fátæku landi, þar sem trúin var mikilvægur þáttur í að þjappa fólki saman. Trúin í dag getur gegnt öðru hlutverki. Þjappað fólki saman til að horfa út fyrir landsteinana og koma að gagni úti í hinum stóra heimi.