Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, November 08, 2007

DR

Síðastliðið sumar var ég gjarnan skammaður, af fjölskyldu og vinum, sökum þess hversu neikvæður ég þótti gagnvart föðurlandinu. Dásemdir mínar á danska velferðakerfinu voru heldur ekki til að skapa mér vinsældir. Þykir leitt ef ég hef litið út eins og efnilegasti kverólant Íslands en lítið er við því að gera. Hvað er samt svona gott í Danmörku?

Það er í fyrsta lagi engin skömm að því að Danir búa yfir sterkara stjórnkerfi en Íslendingar. Ýmsar aðstæður eru hægstæðari, eins og veðurfar, staðsetning og fólksfjöldi. Á vissan hátt er unt að ímynda sér girðingaverkamenn í sitthvoru landinu. Danskar aðsætður, eins og gott veður, gefur þeim tóm til að hugsa framkvæmdina til enda, á meðan Íslendingar verða að drífa sig að girða, áður en það skellur á stormur.

Stormurinn hefur þó styrkt landann og á vissan hátt ýtt undir skjóta nútímavæðingu. Eins og aðstæður eru í dag hafa Íslendingar gott næði til að girða á útpældan hátt. Samt er engu líkara en stormurinn sé enn á eftir þeim og stórar ákvarðanir eru enn skjótar og illa ígrundaðar. Óútpælt stjórnskipulag er svo gjarnan falið bakvið ýmis kaup í viðskiptaheiminum. Fyrir það fyrsta er fátt sem fyllti fólk eins miklu stolti og þegar viðskiptamenn sem svo vill til að eru íslenskir, keyptu MagasinDuNord. Íslenskur sigur yfir Danaveldi.

Að sjálfsögðu má þó ekki vanmeta þjóðarstoltið. Í stað þess þó að einblína á einhverja abstrakt viðskiptasigra og tala um útrás, væri þá ekki nær að spyrja sig nokkurra spurninga? Hver er tilgangur útrásarinnar og hvernig gagnast hún fleirum en Baugsfeðgum? Vilja Íslendingar vera þekktir fyrir að vera djarfir viðskiptamógúlar? Væri t.d. ekki skemmtilegra að alheimurinn sæi Íslending fyrir sér sem nokkurs konar Björk-Sigurrós týpu frekar en jakkafataklæddan, ungan mann sem á einkaþotu?

Nú fór ég þó aðeins út af laginu. Stóra spurningin er nefnilega sú hvernig við getum lært af Dönum. Tek hér með útgangspunkt í danska ríkissjónvarpið. Fyrsta árið mitt í Danmörku tók ég þá meðvituðu ákvörðun að vera ekki með sjónvarp. Hugtakið “sjónvarp” var fyrir mér stefnumótaþættir á Skjá einum eða stillimyndin á Ríkissjónvarpinu. Þegar mér var svo gefið sjónvarp kveikti ég ekki á því fyrstu tvö árin.

Svo var mér nú bent á að danska sjónvarpið væri nokkuð gott. Ég kveikti, horfði á, hlustaði og lærði. Hef oft kveikt á því aftur, eins og í gærkvöldi. Fyrst var heimildarþáttur um unglinga bakvið lás og slá sem varpaði fram stórum spurningum um siði og venjur í samfélagi og dró fram hugarheim ungra ofbeldismanna, á áhrífaríkan hátt. Vel ígrundaður fréttatími kom þar á eftir þar sem venjan er að taka tilturlega fáar fréttir fyrir en vinna þær þeim mun betur. Í lok fréttatímans kom svo áskorun þar sem stjórnmálamaður af hægri vængnum átti að samfæra ungt par, þar sem maðurinn var af erlendu bergi brotinn og ekki orðinn 24 ára, að hin umdeilda “24 ára regla” væri nú bara ljómandi góð. Eftir fréttir kemur þáttur um peninga. Ekki samt um vísitölur eða gengi, heldur um peninga í daglegu lífi. Í gær var tekið fyrir hvernig maður studdi stjórnmálaflokka af hægrivængnum, eins og með innkaupum í Nettó, á meðan vinstriflokkarnir reiða sig á bræðralag meðborgara sinna og eigið hugmyndaflug þegar kemur að fjáröflun.

Þessi dæmi og fjölmörg önnur sýna fram á að Íslendingar geta lært margt. Þess í stað fer öll orkan í að einblína á nýtt rekstrarform RÚV sem hefur þó einungis skilað sér í uppsögn á Spaugstofumanni og tvöfaldri launahækkun útvarpsstjóra. Sjónvarpið þarf ekki að vera svona lélegt. Rás 1 sýnir svo sannarlega fram á að hugsandi fólk er til í fjölmiðlaheiminum. Hæfileikar sem ættu svo sannarlega að fá að njóta sín í sjónvarpi. Áhersla á rekstrarform frekar en hugvit er því miður of algengt hér á Íslandi og það er gríðarlega pirrandi.