Markmið þessarar blog-síðu er að ýta undir skemmtilega leiki í tengslum við arkitektúr, með menntun og fræðslu að leiðarljósi. Í athugasemdakerfi gefst gestum síðunnar kostur á að tjá skoðanir sínar og hugsanir, á skýran og skilmerkilegan hátt, þannig að til verði umræða á uppbyggilegum og jákvæðum nótum. Einnig eru gestir hvattir til að skissa lengra með myndir sem birtast á síðunni og senda ritstjóra sem hugsanlega birtir þær í kjölfarið. Njótið vel og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn.

Thursday, June 23, 2005

Krítik

Eitt dramatískaskta fyrirbærið í arkitektaskólanum er krítikin. Í stuttu máli fer hún þannig fram að nemandi kynnir verkefni sitt fyrir kennurum og bekkjarfélögum, kennarar spyrja svo út í verkefnið og segja svo skoðun sína að lokum. Nánast öll verkefni enda á kritík en fyrir vikið eru engin próf þreytt í skólanum. “Nú hva? Bara prófalaust nám!! Ekkert mál það” myndi margur segja. En hvað er eiginlega auðvelt í þessu samhengi?

Í prófum þarf viðkomandi oft að læra utan að hluti sem ekki eru áhugaverðir. Að því leytinu til eru próf mjög erfið. Þegar komið er í próf situr maður við borð í ákveðinn tíma, einn með sjálfum sér og prófinu.Utanað komandi aðili býr til prófið úr fyrirfram ákeðnu efni, sem nemandinn lærir utan að eftir bestu getu. Álagið er gríðarlegt, það þekkja allir. Þessi athöfn er þó á vissan hátt einkamál. Enginn þarf að vita hvernig gengur nema maður sjálfur opinberi sig. Viðkomandi þarf einungis að sannfæra sjálfann sig um hvað hann kann. Enginn þarf að vita neitt. Ef illa gengur þá er ekki hópur af fólki sem beinlínis horfir á hamfarirnar. En ef vel gengur þá er einungis nóg að sýna ákveðinn tölustaf og allir eru sannfærðir um ágæti viðkomandi manneskju.

Upphengið, sem nemandi kemur með i kritik, er á vissan hátt prófið. Í þessu tilviki er það þó nemandinn sem býr til sitt eigið próf, sem getur oft tekið fleirri mánuði. Svo kemur að munnlega þættinum. Nemandinn útskýrir sitt eigið próf en svarar því líka í leiðinni. Nú er nemandi þó ekki í sínum eigin heimi, það eru nefnilega allir að horfa á og hlusta. Fullkomin opinberun á sér stað. Kann viðkomandi fræðin á bakvið til að búa til prófið (sem er að finna vandamálið) og getur hann svo svarað því (lausnin á vandamálinu; skipulagið, húsið eða stóllinn)? Svarið getur verið rétt á marga vegu, en hversu spennandi er svarið (sköpunarkrafturinn)? Og síðast en ekki síst, getur hann tjáð sig um þetta allt saman svo aðrir skilji?

Gjarnan hef ég heyrt að krítik sé ekki persónuleg heldur sé verið að gagnrýna verkefni hvers og eins á faglegum nótum. En svona einfalt er þetta nú bara ekki. Verkefni hvers og eins endurspeglar persónulega sýn á arkitektúr og lífið almennt. Tímabundið er verkefnið eins og barn sem maður elur upp. Kritíkin er eins og foreldraviðtal þar sem maður talar mál barn síns, þegar barnið hefur stofnað til mótmæla í skólanum á hendur yfirvöldum. Allar tilfinningarnar, í sjálfri krítikinni, gera aðstæðurnar erfiðar, sérstaklega þar sem maður þarf að deila þeim með ókunnugum.

Vegna tilfinningana má segja að krítik sé erfiðara en próf. Samt sem áður mun áhugaverðari hlutur og meira gefandi. Ef vel gengur þá er erfiðið ekki til einskiss og aðrir fá að njóta gleðinnar með manni. Sjálfur verð ég glaður þegar ég sé góð verkefni og upplifi spennandi arkitektúr. Þegar aðrir verða jafn glaðir við að sjá mitt verkefni, þá er líka virkilega gaman.

Saturday, June 18, 2005

Draumar

Stundum dreymir mig hálfundarlega drauma. Þetta er ekki sami draumurinn en sama uppbyggingin og þemað. Ég hef aldrei heyrt um drauma af þessu tagi og þess vegna langar mig að varpa þessu fram.

Draumurinn gengur út á að leysa af hendi nær ógerlegt verkefni. Þá er ég ekki bara að tala um að fá 10 á prófi eða hlaupa maraþon. Meira svona stórverkefni eins og að telja öll grasstrá sem vaxa í heiminum eða púsla heiminum saman, í fullri stærð, í þrívíðu púsluspili.

Fæ hálfgerða klígjutilfinningu við tilhugsunina og hraðan hjartslátt í draumnum. Þegar ég vakna þá er tilfinningin oft ennþá til staðar og ég þarf smá tíma til að jafna mig. Þessir draumar koma þó yfirleitt bara fram þegar ég er veikur en streita getur líka haft sitt að segja. Samt athyglisvert hvað draumar geta haft mikil áhrif á líkamsástandið. Ætli maður geti látist af völdum draumfara, dreymt eitthvað hræðilegt, orðið hræddur og fengið hjartaáfall?

En til hvers að vita hve mörg grasstrá séu í heiminum? Eins og það sé einhver óður tölfræðifasisti sem stendur á bakvið þetta. Tilgangsleysi þessara verkefna er algjört og kvalirnar enn meiri fyrir vikið. Ef helvíti er til þá er það eitthvað í þessa áttina.

Hef samt litlar áhyggjur yfir svona draumförum. Spennandi vangaveltur engu að síður. Svo ef einhver kannast við svona drauma þá endilega látið mig vita.

Thursday, June 16, 2005

Fréttaskýringar 2

Sumarið er komið. Tókn nefnilega eftir því að gúrkutíðin er komin á netið.

Gagnrýnd fyrir að nýta þotu Baugs
Fyrsta fréttin er um forsetafrúnna okkar, Dorrit Moussaieff. Ferðaðist með einkþotu Baugs til að ná tískusýningu. Það finnst einhverjum þingmönnum, sem ekki vilja láta nafn síns getið, gagnrýnisvert. En hverjum er ekki sama hvernig forsetafrúin kemst á milli, þegar hún vill hlaupa eftir öllum þessu glysgjörnu áhugamálum sínum? Er ekki einmitt gott að hún nýti sér góðvild Baugs í stað þess að ferðast á kostnað skattborgara?

Jón Baldvin hættir sem sendiherra í Helsinki
Mikið er alltaf spennandi að heyra um tilfærslur sendiherra. Hér úti er maður nefnilega í gríðarmiklu sambandi við sendiherrann sinn. Hvar væri ég án hans? Annars er athyglisvert að einu skiptin sem þeir eru í fréttum er þegar þeir flytja sig milli sendiráða. Þá gefur utanríkisráðuneytið út gríðarmikilvæga fréttatilkynningu þar sem þetta kemur fram. Aldrei kemur neitt fram um hvað þeir afreka í sendiherratíð sinni í viðkomandi borg. Bara stutt og laggott: ” Jón Baldvin Hannibalsson lætur af störfum sem sendiherra í Helsinki og ...” Svo ekkert meira fjallað um Jón Balvin eða hans störf. Það liggur við að það komi meira fram í fyrirsögninni en sjálfri fréttinni.

Einn skemmdarvarga á ráðstefnu úrskurðaður í gæsluvarðhald
Sorgleg staðreynd með virkjanaframkvæmdir á Austurlandi. Ekki minna sorglegt hvernig fólk mótmælir þessum aðgerðum. Kastandi grænu gumsi! Er þetta það besta sem fólki getur dottið í hug? Bitnar miklu meira á hóteleigendum en ráðstefnugestum. Þeir virðast nefnilega skemmta sér konunglega yfir þessu uppátæki. Sjáið bara glaða manninn á myndinni! Þegar fólk mótmælir á þennan hátt þá er það miklu meira að skemma fyrir málstaðnum. Það á að fangelsa þetta fólk fyrir heimsku og asnaskap meira en fyrir eignartjónið.

David Beckham og Snoop Dog orðnir sms-vinir
Þetta er virkilega ekki fréttnæmt. Er til gelgjulegri frétt? Ef fyrirsögnin væri hinsvegar: “David Beckham og Snoop Dog byrjaðir saman”, þá væri það hugsanlega fréttnæmt.

Thursday, June 09, 2005

BA

Skilaði ba-verkefninu mínu síðasta þriðjudag. 21. júní fer ég svo í kritik. Ég tilheyri þeim fyrsta árgangi í skólanum sem fær formlega ba-gráðu (þ.e. ef allt gengur að óskum) en búið er að endurskipuleggja skólann sem hefur kannski kosti en póttþétt fullt af göllum líka. Allt er orðið svo formlegt að fólk þorir varla að hreyfa sig lengur. Búið að bjurokratisera skólann alveg í tætlur.

Dæmingin fer fram á eftirfarandi hátt: Nemandi talar í korter og svo hafa tveir dómarar (arkitekt af deildinni og einhver annar af teiknistofu) hálftíma til að spyrja nemandann út í verkefnið. Prófdómararnir mega þó ekki hafa skoðun á verkefninu í sjálfri kritikinni. Það er víst gert svo nemandinn fái eins faglega dæmingu og unt er og geti ekki lesið út frá umræðunni hvernig hafi gengið. Þetta er auðvitað einhver mesta vitleysa sem ég lengi heyrt! Prófdómarar eiga s.s. að byrgja inni skoðanir sínar á verkefninu verandi með pókerfés í þrjú korter. Að fá ekki að segja skoðun sína á arkitektúr er eins og að stunda íþróttir, án þess þó að hreyfa sig.

Eftir að þrír hafa verið í kritik ráða prófdómarar ráðum sínum um útkomu hvers og eins. Þá er tekið mið af hver hafi verið slakastur og sett spurningamerki við þann einstakling. Svo koma þrír aðrir sem voru kannski enn slakari og þá fær sá slakasti af þeim spurningameri. Svona er haldið áfram þangað til einhver verður slakastur og þá fellur kannski viðkomandi eða nokkrir af þeim sem voru slakastir.

Þetta hljómar eitthvað undarlega en svona er þetta víst. Í stuttu máli gengur dæmingin út á að sigta út sauðina en hinir svo lalla í gegnum þetta, án þess þó að vita hvort eitthvað hafi verið varið í verkefnið.

Komandi árgangar munu svo fá einkunnir fyrir verkefnin sín. Þess vegna sem prófdómarar mega ekki segja skoðun. Skoðunin kemur í einkunnaformi. “C fyrir formið, B fyrir rýmið en jafnvel A mínus fyrir notagildið”. Auðvitað er alveg hægt að leggja einhverjar línur í þessum málum en að gefa einkunnir er ekki rétta leiðin. Einkunnir eru nú þegar ofnotað fyrirbæri og óþarfi að bæta gráu ofan á svart. Það, að hafa ekki möguleika á faglegri umræðu um verkefnið sitt í kritik er kolrangt.

Þessi umbreyting á uppbyggingu skólans er gert í nafni hagræðingar. Fjárhagslega, eflaust hagstætt. En ef menntun hvers og eins verður slakari fyrir vikið þá verður öðrum fjármunum ráðstafað í byggingar sem eru eflaust illa hannaðar. Ef hús eru illa hönnuð þá er engum gerður greiði. Að byggja hús kostar nefnilega sitt og þá er eins gott að það sé almennilega hannað svo unt sé að nota það, líða vel inni í því eða í nálægð við það. Þannig er það nú bara.

Thursday, June 02, 2005

Tré

Í allan dag er ég búinn að æfa mig að teikna tré í mælikvarðanum 1:200. Í kvöld mun ég teikna grunnmynd, í sama mælikvarða, af trjám. Að teikna tré er áhugavert. Hvernig líta tré út? Mæli með að fólk reyni að teikna nokkur tré.